Það hryggði mig í morgun að heyra að Hermann Gunnarsson, Hemmi Gunn eins og við þekkjum hann væri fallinn frá. Undarlegt að nú þegar hann hafði nýlega dregið sig í hlé frá erli fjölmiðlanna, nú síðast frá Bylgjunni þar sem hann var í um 20 ár starfandi, skyldi slokkna á gleðigjafanum. Hemmi Gunn vann sig inn í hjarta þjóðarinnar á svo marga vegu, gegnum glæsilegan íþróttaferil, íþróttafréttamennsku, skemmtanahald með sumargleðinni, á RÚV í 10 ár með þættinum Á tali með Hemma Gunn, ógleymanlegur sem spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna og margt margt fleira.
Það var alltaf hressilegt að hlusta á Hemma Gunn og hann náði alltaf að kalla fram bjartar og skemmtilegar hliðar hjá viðmælendum sínum. Það er ekki endilega alltaf svo auðvelt. Hann var orkubolti með útgeislun og hafði yndi af því að létta lund fólks í kringum sig og þjóðarinnar allrar.
Að mörgu leyti var Hemmi Gunn spegilmynd þjóðarandans, sérstaklega þegar hann var upp á sitt besta. Mátulega metnaðarfullur og mátulega kærulaus og „ligeglad“. Hann var djókarinn í okkur, fjörkallinn og sprellarinn en jafnframt íþróttamaðurinn og ættjarðarelskandinn. Hann var alþýðlegur og talaði við háa og smáa og ævinlega af hlýju og brosmildi. Mér eru sérstaklega minnistæð viðtölin sem hann átti við krakkana í „Á tali með Hemma Gunn“. Börnin gátu umgengist hann eins og að þau þekktu hann persónulega og voru því ófeimin. Slíkt er ekki öllum gefið. Hann átti sín vandamál og það var á allra vörum að umgengni um áfengi var ekki hans sterka hlið. Það klingdi einnig bjöllu hjá þjóðinni og Hemmi Gunn féll því inní þjóðarmengið. Hann náði langt í að vera blanda úr okkur öllum, enda fjölhæfur maður.
Ég datt niður á þessa mynd af Hemma Gunn í gömlu jólablaði Valsmanna frá 1966 í gær þegar ég var að fara í gegnum gamlar eigur afa míns. Einskær tilviljun. Félagið var þá 55 ára gamalt og var myndin birt af tilefni þess að Hermann hafði flutt þakkarræðu til formanns félagsins á aðalfundi þess og „gerður góður rómur að“.
Hann verður syrgður af mörgum og mikið af mörgum því að sú gleði og vellíðan sem menn færa er efniviður sorgarinnar.
Ég þakka Hemma Gunn fyrir góðu stundirnar og votta aðstandendum hans og vinum innilega samúð mína.