Dómharka og mannfyrirlitning í athugasemdakerfum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

04/06/2013

4. 6. 2013

Fátt æsir fínt fólk og góðmenni meira en dópistar. Að mörgu leyti skiljanlegt í ljósi frétta af grófu ofbeldi glæpamanna í fjölmiðlum og vegna þess að fjöldi einstaklinga á öllum aldri hefur farið illa með sjálfan sig og fjölskyldu sína með neyslu. Þegar einhver er fangelsaður fyrir dópsmygl  sjá margir rautt. „Gott á helvítið“ eru […]

athugasemdirFátt æsir fínt fólk og góðmenni meira en dópistar. Að mörgu leyti skiljanlegt í ljósi frétta af grófu ofbeldi glæpamanna í fjölmiðlum og vegna þess að fjöldi einstaklinga á öllum aldri hefur farið illa með sjálfan sig og fjölskyldu sína með neyslu. Þegar einhver er fangelsaður fyrir dópsmygl  sjá margir rautt. „Gott á helvítið“ eru klassísk viðbrögð.

Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn
Í gær fjallaði DV um útvarpsviðtal við ungan strák sem hefur beðið dóms í Brasilíu í um fjögur ár fyrir fíkniefnasmygl. Eins og svo oft skrifuðu margir athugasemdir við umfjöllunina. Það sló mig hversu dómhart fólk getur verið. Kannski eru þetta mínir fordómar en mér finnst eins og stór hluti þeirra sem tjáir sig í athugasemdakerfum leggi meiri metnað í að dæma og refsa frekar en að skilja vandamálið og setja sig í spor annarra.

Þegar ég las athugasemdir fólks við umfjöllun DV í gær varð ég hálf hræddur. Eru virkilega enn margir á þeirri skoðun að best sé að leysa flókin félagsleg vandamál með hugmyndafræði Gamla testamentisins? Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.

Stríðið gegn fíkniefnum er glórulaust
Vandinn er að fíkn er heilbrigðis- og félagslegt vandamál og það verður að bregðast við með viðeigandi úrræðum ef árangur á að nást. Eins og ég hef áður fjallað um þá er stríðið gegn fíkniefnunum glórulaust og skaðar fyrst og fremst þá sem verið er að reyna að bjarga.

Ofbeldi á auðvitað aldrei að líða og ég hef líka fjallað um hversu ósmekklegt það er að varpa dýrðarljóma yfir glæpalýð og ofbeldismenn. Við eigum öll að standa saman gegn hrottum sem ráðast gegn saklausu fólki og ekki vera hrædd við að gagnrýna þá.

En ef markmiðið er að draga úr ofbeldisglæpum og eymd vegna neyslu þá verðum við að horfast í augu við að stríðið gegn fíkniefnum hefur ekki skilað neinu og mun ekki gera það í framtíðinni. Við verðum að átta okkur á því að glæpamaður dagsins í dag er oft fórnarlamb gærdagsins. Það er kjarni málsins.

Hér eru nokkur dæmi um viðbrögð lesenda dv.is við umfjöllun gærdagsins: 

  • SJ:  Æji greyjið! Svona fer fyrir þeim sem ætla að smygla fíkniefnum og drepa aðra! Tyggðu bara þín kókalauf, það ætti að drepa sárasta hungrið.
  • RG: Aumingja drengur inn á núna að fara að vorkenna honum? Hann valgdi þetta sjálfur svo hann verður að súpa seyðið og sjá um sig sjálfur.
  • SJ: Þessi maður og hans kumpánar eru að drepa okkar börn! Þéna þannig peninga og eru hrókar alls fagnaðar!!!! Segðu mér eitt! Er það skylda okkar að borga fæðið ofaní hálvita eins og þennan eftir útfararkostnað og þ.h.! HUGSAÐU áður en þú skrifar!!!!! Hann skeit sjálfur uppá hnakka og verður að skeina sér SJÁLFUR!!!!
  • RH: if you can’t do the time …… don’t do the crime svo einfallt
  • HÞB: einfaldasta kerfið er að láta þá sem nást éta það sem þeir reyna að koma með af þessu eiturlifja sulli og vitið menn þeir sem lifa það af koma ekki með meira til landsins
  • KG: gott á hann hann van fyrir þessu alveg aleinn
  • AHK: Get ekki réttlætt drenginn með nokkrumóti,hugðist græða á dópinu og jafnvel steypa tugum fjöldskyldna í óhamingju og jafnvel dauða,auðvitað er foreldrum og öðrum vorkun að hann villist á þessa braut,en forvörnin að hann var tekin er gulls í gildi fyrir alla hina sem hefðu ánetjast dópinu hanns.
  • SJ: What goes around, comes around. Þú uppskerð eins & þú sáir. Fólk gleymir að hugsa að ef þetta hefði heppnast hjá honum, hefðu mannslíf verið í hættu. Ég hef nóg annað við peningunn að gera. Hvort sem hann var plataður eða ekki, þá lagði hann þetta á sig. Ekki mitt vandamál.
  • HS: Þegar maður velur hegðun þá velur maður jafnframt hugsanlegar afleiðingar. Svona tittir eiga bara enga hjálp skilið. Dont do the crime if you cant do the time…
Deildu