Í lok þessa árs renna fjölmargir kjarasamningar út. Munu stéttarfélögin vinna undirbúningsvinnu að nýjum kjarasamningum á næstu mánuðum. Enn er alls óljóst til hve langs tíma verður samið og hvað verður samið um yfir höfuð.
Þó er eitt full ljóst: Stéttarfélögunum dugar ekki að semja í enn eitt sinnið um kjarabætur eingöngu. Ástæðan er sú að fyrir fjölmarga gagnast kjarabætur mjög lítið til að auka lífsgæði; þörf er á að reyna aðrar aðferðir.
Kjarabætur og lífsgæði
Við lok nítjándu aldar og í upphafi tuttugustu aldar fóru stéttarfélög á Íslandi að verða til og mótast. Hlutverk þeirra hefur verið margþætt í gegnum tíðina; þau börðust fyrir kjarabótum, heilbrigðari vinnuaðstæðum, styttri vinnutíma, afnámi mismununar og ýmsu öðru. Stéttarfélögunum tókst að sinna þessum hlutverkum og unnu marga sigra á öldinni leið.1
Margir sigrarnir voru launatengdir; hækkun grunnlauna, yfirvinnutaxta og þvíumlíkt. Aðrir tengdust starfsaðstæðum, vinnutíma og slíku.
Hin síðari ár hefur starfsemi stéttarfélaganna að mjög miklu leyti snúist um að efla launakjör, sem og að reka sumarhús fyrir félagsmenn sína. Minna hefur farið fyrir baráttu fyrir t.d. styttingu vinnutíma.
Því er ekki að neita að stéttarfélögin hafa enn hlutverki að gegna við að efla tekjur hinna tekjulægstu.2 Hins vegar þarf að endurhugsa áhersluna sem er lögð á eflingu launakjara, því auknar tekjur gagnast almennt lítt í okkar samfélagi til að efla lífsgæði. Rannsóknir sýna nefnilega að tekjuaukning í efnuðum samfélögum er ekki líkleg til að efla lífsgæði (sem birtast í t.d. hamingju, lífslíkum eða heilsu og félagslífi) í stórum stíl.3
Sú stefna íslensku stéttarfélaganna að efla launakjör var mjög skynsamleg hér á árum áður, þegar lífsgæði voru miklu lakari.4 Efling launakjara í fátækum samfélögum eykur nefnilega lífskjör; með eflingu launakjara í slíkum samfélögum getur fólk eignast betri híbýli, keypt betri mat og meira af honum, menntast og svo framvegis. Á vissum tímapunkti hættir þetta hins vegar að vera raunin, og auknar tekjur leiða ekki til betri lífskjara5 – öllu heldur kann hið þveröfuga að þróast: Auknar tekjur leiða til neysluhyggju, sem elur af sér óhamingju og vansæld.6 Að auki leiða sífellt aukin launakjör af sér umhverfisspjöll, bæði vegna úrgangs sem fellur til vegna neyslunnar (sem er bein afleiðing af tekjuaukningunni) en einnig nýtingu náttúruauðlinda sem er nauðsynleg fyrir neyslu og aukin launakjör.7
Íslenskt samfélag er ekki lengur fátækt. Það er nú í hópi þeirra samfélaga heims þar sem tekjur8 eru hæstar, lífslíkur einna mestar og hamingja mælist einna mest. Á um það bil öld fór samfélagið okkur frá því að vera fátækt, yfir í að vera mjög ríkt.9 Okkar samfélag er í hópi þeirra þar sem auknar tekjur hafa almennt lítil áhrif til að auka lífskjör.10
Það er því óhætt að segja að áframhaldandi stefna stéttarfélagana um bætt launakjör eingöngu, sé ekki líkleg til að hafa áhrif á lífskjör, nema hugsanlega fyrir þá launalægstu.11
Önnur leið til bættra lífskjara
Það er þó ekki svo að allt sé í sómanum á Íslandi; það er að ýmsu að hyggja í okkar samfélagi. Eitt af því sem er í ólagi í samfélagi okkar er hið mikla vinnuálag sem vinnandi fólk býr við. Árlegar vinnustundir meðalmannsins á Íslandi12 eru um 1700 til 1800 stundir, sem er mun meira en tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Að auki kemur til að atvinnuþátttaka á Íslandi er mjög mikil – ein sú mesta sem þekkist innan OECD-landanna, en það er hópur landa sem er á fremur háu þróunarstigi. Þetta tvennt þýðir að vinnuálag á Íslandi er gríðarlegt – það mesta sem þekkist meðal OECD-landanna, jafnvel þótt vinnustundir séu fleiri í ýmsum öðrum samfélögum (t.d. S-Kóreu).13
Í töflunni má sjá muninn á lengd vinnustunda milli Íslands og hinna Norðurlandanna, sem fjölda átta stunda vinnudaga sem við hér á Íslandi unnum umfram aðra Norðurlandabúa árið 2010. Vert er að taka fram að árið 2010 var ekkert undantekningarár.
Land | 8 stunda vinnudagar |
Noregur | + 38,3 |
Svíþjóð | + 14,1 |
Danmörk | + 22,8 |
Finnland | + 1,3 |
Má t.d. sjá að meðalmaðurinn á Íslandi vann 14 vinnudögum lengur árið 2010, en meðalmaður í vinnu í Svíþjóð.
Þessi mikla vinna hefur áhrif á samfélagið, og það sýna rannsóknir glöggt. Í rannsókn sem náði til fjölmargra landa kom í ljós að af öllum löndum sem tóku þátt, var mest kvartað undan því á Íslandi að vinnan truflaði heimilislíf (um einn af hverjum fjórum). Í engu öðru landi var meira kvartað! Að auki kom í ljós að mjög margir (um 40%) vilja vinna minna og að um 60-70% vilja eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum.14
Hér er augljóst viðfangsefni fyrir stéttarfélögin: Þau geta með því að fá vinnudaginn styttan aukið lífsgæði okkar, því með skemmri vinnutíma getur vinnandi fólk sinnt fjölskyldu, vinum og áhugamálum betur. Forsvarsmenn stéttarfélaga – og ekkert síður félagsmenn – þurfa nú að íhuga alvarlega með hvaða hætti þau geta sameinast um kröfuna um styttan vinnudag. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Mörg fordæmi
Mörg fordæmi eru fyrir styttingu vinnutíma, bæði á Íslandi og erlendis.15 Að neðan má finna þónokkur dæmi um styttingu vinnutíma – hafa ber í huga að listinn er ekki tæmandi, né endilega eru þessi dæmi lýsandi fyrir öll eða flest tilfelli þar sem vinnudagurinn hefur verið styttur hérlendis.
- 1909: Vinnudagur prentara styttist um eina stund – laun haldast óbreytt.16
- 1921: Prentarar semja um átta stunda vinnudag og fá jafnframt 40% launahækkun.17
- 1930: Vinnudagurinn hjá félagsmönnum Dagsbrúnar styttist um eina stund – 60 stunda vinnuvika fór í 54 stunda vinnuviku. Laun hækkuðu.18
- 1942: Vinnuvikan hjá Dagsbrún varð 48 stundir og laun hækkuðu.19
- 1956: Prentarar semja um 44 stunda vinnuviku í apríl, maí og september og fengu launahækkun jafnframt.20
- 1965: Unnið er hálfa laugardaga allan ársins hring hjá bókagerðarmönnum.21
- 1966-1972: Prentarar öðlast 40 stunda vinnuviku án launaskerðingar.22
- 1972: Lög um 40 stunda vinnuviku taka gildi; kváðu þau á um að laun skyldu ekki skerðast þrátt fyrir styttingu vinnuvikunnar.23
Þessi dæmi benda öll til hins sama: Stytting vinnudagsins er möguleg aðgerð, sem oftar en einu sinni hefur verið beitt til eflingar lífskjara. Til eflingar lífskjara, því markmið þessara aðgerða á hinum ólíku tímabilum sem má sjá að ofan var alltaf það sama: Gera félagsmönnum stéttarfélaganna kleift að eiga fleiri stundir utan vinnu, til að sinna áhugamálum og fjölskyldu.
Það eru ekki bara þessi dæmi sem sýna að stytting vinnutíma er möguleg í landinu okkar. Á myndinni24 má sjá hvernig vinnutími og laun á Íslandi þróuðust á árunum 1955 til 1996; líkt og sjá má á myndinni styttist vinnutíminn allt þar til um 1980 að hann tók að staðna. Á þessu sama tímabili bötnuðu laun verulega. Vert er að taka fram að vinnutími hefur ekki styst að neinu ráði eftir 1996.25
Dæmin og myndin kenna okkur að stytting vinnutíma er gerleg aðgerð, án þess að laun þurfi að lækka.26 Öllu heldur er nokkuð ljóst að hækka má laun sumra samtímis vinnutímaskerðingunni, einkum þeirra launalægstu.
Af þessu öllu er nokkuð ljóst að stytting vinnutíma er aðferð sem mun skila mun meiri aukningu á lífsgæðum en einföld launahækkun í anda þeirra stefnu sem stéttarfélögin hafa rekið undanfarin ár og áratugi.
Athugasemdir:
1 Um þessa sögu má lesa víða, t.d. í bók Gylfa Gröndal, Fólk í fjötrum og bókum Þorleifs Friðrikssonar, Við brún nýs dags (2007) sem og í bókinni Dagar vinnu og vona (2012).
2 Hagstofa Íslands (18. desember 2012). Evrópskur samanburður á launum 2010. Hagtíðindi (2012:11).
3 Wilkinson, R og Pickett, K. (2009). The spirit level: Why greater equality makes societies stronger. New York: Bloomsbury Press.
4 Um lífskjör á Íslandi, sjá fyrrnefndar bækur Gylfa Gröndal og Þorleifs Friðrikssonar.
5 Wilkinson og Pickett (2009).
6 Dittmar, H. (2008). Consumer culture, Identity and Well-Being: The Search for the ‘Good-Life’ and the ‘Body Perfect’. Hove: Psychology Press.
7 Jackson, T. (2009). Prosperity without growth: Economics for a finate planet. London: Earthscan.
8 Þ.e.a.s., á hvern mann.
9 Um hinar miklu breytingar á Íslensku samfélagi á tuttugustu öld má m.a. lesa hjá Gunnari Karlssyni (2009), í kaflanum Atvinnubylting og ríkismyndun 1874-1918, í bókinni Saga Íslands X (ritstj. Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason). Reykjavík: Hið Íslenska Bókmenntafélag. Sjá einnig Þorleif Friðriksson (2007, 2012).
10 Sjá Wilkinson og Pickett (2009).
11 M.a. vegna þess að þeir geta þá dregið úr yfirvinnu.
12 Er hér átt við meðalfjölda vinnustunda á hvern vinnandi mann.
13 Sjá nánar í Guðmundur D. Haraldsson (2013). Vinnum minna: Styttum vinnudaginn. Tímarit máls og menningar, 74 (1), 75-89.
14 Kolbeinn Stefánsson (2008). Samspil vinnu og heimilis: Álag og árekstrar. Working Papers, 1. Rannsóknarstöð Þjóðmála. Óútgefið handrit.
15 Um erlend fordæmi, sjá t.d. Bosch, G. og Lehndorff, S. (2001). Working-time reduction and employment: Experiences in Europe and economic policy recommendations. Cambridge Journal of Economics, 25, 209-243.
16 Ingi Rúnar Eðvarðsson (1997). Samtök bókagerðarmanna í 100 ár: Þeir byrjuðu ótrauðir bundust í lög. Þjóðsaga ehf. Bls. 64.
17 Ingi Rúnar Eðvarðsson (1997), bls. 77-82.
18 Þorleifur Friðriksson (2012), bls. 59.
19 Þorleifur Friðriksson (2012), bls. 311-314.
20 Ingi Rúnar Eðvarðsson (1997), bls. 127.
21 Ingi Rúnar Eðvarðsson (1997), bls. 149-150.
22 Ingi Rúnar Eðvarðsson (1997), bls 150-154, 168, 172.
23 Sjá lög nr. 88/1971, einkum þó 2. gr. og 8.gr.
24 Myndina teiknaði höfundur eftir gögnum frá Þjóðhagsstofnun og The Conference Board. „Laun“ á myndinni vísa til kaupmáttar atvinnutekna og eru komin frá Þjóðhagsstofnun. „Vinnustundir“ koma úr gagnagrunninum Total Economy Database, sem The Conference Board heldur utan um, og vísa til meðalfjölda árlegra vinnustunda á vinnandi mann.
25 Guðmundur D. Haraldsson (2013).
26 Nánar má lesa um aðferðina sem má notast til þessa í Guðmundur D. Haraldsson (2013).