Tímamót í stjórnmálasögu Íslands

Logo

31/03/2013

31. 3. 2013

Í gær lauk fjórða og síðasta starfsári einnar merkustu vinstri stjórnar sem setið hefur við stjórnvölinn á Alþingi.  Það hafa ekki margar vinstristjórnir náð að ljúka heilu kjörtímabili og það eitt gerir setuna merkan áfanga. Ólíkt vinstri öflumunum í Noregi og Svíþjóð náðu þau aldrei almennilega vopnum sínum hérlendis fyrr en eftir að hægri stjórn […]

imagesÍ gær lauk fjórða og síðasta starfsári einnar merkustu vinstri stjórnar sem setið hefur við stjórnvölinn á Alþingi.  Það hafa ekki margar vinstristjórnir náð að ljúka heilu kjörtímabili og það eitt gerir setuna merkan áfanga. Ólíkt vinstri öflumunum í Noregi og Svíþjóð náðu þau aldrei almennilega vopnum sínum hérlendis fyrr en eftir að hægri stjórn fór með fjárhag landsins í rússibanaferð sem endaði í svaðinu utan brautar.  Það tók vinstri flokkana áratugi að læra að vinna saman og loks tókst það undir merkjum Samfylkingar og Vinstri grænna eftir fjárhagshrun og búsáhaldabyltingu.

Agi skilar sjaldnast vinsældum

Eftir að hafa náð verulegum árangri við að rétta af halla ríkissjóðs og endurreisa bankakerfið fá ríkisstjórnarflokkarnir kaldar kveðjur frá þjóðinni.  Fylgi þeirra er hrunið úr 51.5% við kosningar í um 20-25% á síðustu vikum.  Ríkisstjórnin tók margar erfiðar ákvarðanir sem settu meiri skattaálög á þjóðina en skilaði einnig mörgum skuldugum endurgreiðslum vegna gjaldeyrislána sem voru dæmd ólögleg. Hlutur margra var réttur við en einhverjir urðu útundan. Fetaður var ákveðinn millivegur og þótti sumum passlegt en öðrum of skammt farið.

Bitbeinið kalda

Ríkisstjórnin var í afar erfiðri stöðu. Aðeins Færeyingar og Pólverjar veittu okkur skilyrðislaust lán en aðrar þjóðir settu það skilyrði að samkomulag næðist milli Íslands og Englands/Hollands um IceSave skuldina miklu.  Í þeirri þumalskrúfu fór ríkisstjórnin af stað í samningarferli og hafði í raun ekki val um það að hunsa þessa skuld óreiðumanna í íslenskum útibúum þessara landa.  Það hafði aftur Framsóknarflokkurinn því að hann sat ekki í ríkisstjórn og sama gilti um forsetann.  Forsetinn vísaði málinu til þjóðarinnar í tvígang og þannig gat þjóðin fríað ríkisstjórnina ábyrgð og sett málið í endurnýjaða samningsstöðu. Á meðan fékk þjóðin þau lán sem hún þurfti og því má segja að þessi hringekja málsins sem nánast virkaði eins og ein stór leikflétta Íslendinga gagnvart stórþjóðum Evrópu, hafi á endanum skilað farsælli lausn. Gamli Landsbankinn átti svo fyrir skuldinni og dómstóll EFTA sýknaði svo þjóðina. Hverjum er svo þakkað? Framsókn og forsetanum eingöngu!  Forsetinn átti skilið þakkir fyrir leikfléttuna en ríkistjórnin átti ekki síður skilið þakkir fyrir sinn ábyrga hlut.  Landið átti ekki skúrka í þessu máli aðra en fyrrverandi stjórnendur Landsbankans og þá sem vegsömuðu óreiðuna.

Árið eftir hrunið var heilbrigðiskerfið næstum hrunið.  Nýlega hefur það verið upplýst að vart var hægt að greiða laun starfsfólksins. Innkaupum var frestað í nokkra mánuði til að halda starfsfólkinu. Ég býð ekki í það hvað hefði orðið ef ríkisstjórnin hefði ekki sest að samningarborði um IceSave og fengið lán til að standa undir velferðarkerfinu.  Litlu mátti muna og ef að illa hefði farið, hefði landflótti menntafólks í heilbrigðiskerfinu og víðar orðið mun meiri en hann varð.  Þjóðin refsar nú ríkistjórninni fyrir þessa björgun og flykkist um galgopann í Sigmundi Davíð formanni Framsóknar sem barði sér um brjóst þegar sigur í IceSave málinu var í höfn.  Maður sem fór vonlausa ferð til Noregs í leit að gjaldmiðli skömmu eftur hrun.  Maður og flokkur sem þykist geta afnumið verðtryggingu lána án þess að hafa nokkra lausn á verðbólgunni.

Sægreifagrátur

Ríkisstjórnin stóð af sér ýmsar atlögur, m.a. frá kvótagreifunum í LÍÚ og lagsmönnum þeirra meðal sjómanna og tengdra stétta. Hóflegar tillögur ríkisstjórnarinnar um skattlagningu (auðlindagjald) af arði útvegsmanna til að skila hluta af sameign þjóðarinnar, auðlindum sjávar, til hennar aftur, féllu í grýttan jarðveg þessa fólks.  Auður og peningavald útvegsmanna kom síðan í ljós með einni stærstu auglýsingaherferð Íslandssögunnar í kjölfarið.  Útifundur LÍÚ á Austurvelli var misheppnaður.  Þeir áunnu sér ekki samúð þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn og Mogginn stóðu með LÍÚ, batteríinu sem hefur fjármagnað þá frá árdögum lýðveldisins. Gamla slagorð Sjálfstæðismanna, „Stétt með stétt“, er í raun Stétt með stétt í lífi fyrir sjálfstæða atvinnurekendur.  Fylgi þess flokks samanstendur af atvinnurekendum og láglaunafólkinu sem vinnur fyrir þá.  Þrátt fyrir glansandi mahónískt yfirbragð flokksins er menntunarstigið lægst í honum af öllum flokkum undanfarinna áratuga (samkvæmt athugunum Capacent).  Kynjamisréttið er einnig mest og mér hefur sýnst að mannréttindaáhugi og þekking þar á sé minnst.  Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldsamur karlaveldisflokkur sem í þekkingarskorti sínum berst með flokkspólitískum klækjum og fjármagni frá ríkasta fólki þjóðarinnar fyrir því að halda völdum, valdanna vegna og áframhaldi forréttindastöðu auðvalds og klerkastéttar.

Frelsið er yndislegt – já til að eiga viðskipti

Forn hugsjón Sjálfstæðismanna um frelsið hefur afar takmarkað gildi út fyrir svið verslun og viðskipta.  Þannig ruglast jafnan ungir Sjálfstæðismenn í hugsjónamennsku sinni og halda að ríkið eigi ekki að halda uppi ríkisrekinni kirkju, en átta sig snarlega þegar þeir fullorðnast eins og hinn gallharði Sjálfsstæðisklerkur Geir Waage komst að orði í framhaldi að stjórnmálaályktun síðasta landsfundar flokksins um að lög landsins ættu að byggjast á kristnum gildum.  Sú ályktun olli þó það mikilli hneykslan innan flokksins að það var látið duga að segja eitthvað á þá leið að flokkurinn styddi kristnina í landinu.  Lyktin af gömlu samtryggingu valdastéttanna, klerka og auðmanna, leyndi sér ekki.  Markmiðið er hið saman en leiðin svolítið öðru vísi.  Fyrir 1874 var beitt valdi og kúgun ófeimið, en nú óttaboðskap og kærleik í bland, um að aðeins tóm geti komið í stað Þjóðkirkju og að vernda þurfi menningararfleifðina.  Hinn dæmigerði kristni Sjálfstæðismaður og Framsóknarmaður heldur að frelsið og mannréttindin séu upprunnin úr lútherskri kristni. Við lestur hugmyndasögunnar kemur allt annað í ljós. Þó að Lúther hafi klofið upp Kaþólsku kirkjuna og veitt prestum meira frelsi, var kirkjan hans á bremsunni gagnvart þjóðfélagslegum framförum og réttindum þegnanna.  Galdrabrennurnar voru t.d. iðkaðar hér í 60 ár á 17. öld, það er eftir siðaskiptin.  Klerkar börðust gegn kosningarétti kvenna og voru þeir síðustu að viðurkenna rétt samkynhneigðra. Lýðræði, mannréttindi, tækniframfarir og velferð urðu þrátt fyrir kirkjuna en ekki vegna hennar.   Sjálfstæðisflokkurinn er eins og Dr. Jekyll og Mr. Hyde.  Eitt andlit hans snýr að því að færa frelsi en hitt að því að veita frelsið aðeins sumum og halda öðrum góðum. Forn-Rómverjinn Seneca hinn yngri sagði á 1. öld að trúarbrögð væru sönn í augum almúgans, fölsk í augum þeirra vitru og nytsamleg í augum stjórnvalda.  Það er dapurt að enn er þetta staðreynd mála að mörgu leyti í ríkjum sem þó kenna sig við veraldlega stjórnskipan.

Mannréttindi með í stjórnmálum

Í ljósi þessa kemur ekki á óvart að þessari ríkisstjórn tókst einna best upp í mannréttindamálum.  Dómsmálaráðherrar fyrri ríkistjórna sýndu afar lítinn áhuga á mannréttindum.  Barnasáttmáli SÞ lá fyrir ósamþykktur, táknmál heyrnarlausa hafði ekki fullgilda stöðu, mismunað var eftir trúarlegum eða trúlausum lífsskoðunum, umræða um mannréttindamál var í lágmarki og fleiru var áfátt.  Ragna Árnadóttir og svo Ögmundur Jónasson nálguðust þessi kjarnamál af allt öðru hugarfari. Í fyrsta sinn í langan tíma voru komnir ráðherrar mannréttindamála sem skildu að stjórnmál ganga ekki bara út á að eiga milli hnífs og skeiðar. Hart var deilt um útlendingalöggjöfina og þau mál halda áfram að valda deilum.  Þar berast á sjónarmið þjóðernishyggju og alþjóðahyggju, verndun eigin köku og þess að hleypa fleirum í hana. Það er afar erfitt að ætla að opna og loka á sama tíma. Mál þeirra kvenna sem óska þess að geta á löglegan máta fengið hjálp staðgöngumæðra komst í hámæli og voru menn ekki sammála þar heldur. Fangelsismál hafa verið í ólestri í áratugi en þessi ríkisstjórn kom loksins framkvæmdaplani nýs fangelsis á skrið.  Ögmundur og ráðuneytið tóku gerð skýrslu Íslands um stöðu mannréttindamála hér fyrir skoðunarnefnd Sameinuðu Þjóðanna alvarlega og sömuleiðis þær aðfinnslur sem nefndin hafði fram að færa í kjölfarið. Opin fundaröð Ögmundar og ráðuneytisins um ýmis mannréttindamál var ferskur og hlýr andvari í umræðu um mannréttindamál á Íslandi.

Kettirnir kláru

Það er ógerlegt að smala köttum var sagt þegar Vg menn tóku að deila opinberlega á eigin ríkisstjórn og sumir hverjir að yfirgefa dallinn. Deilur voru einnig innan Samfylkingarinnar. Ólíkt alræðisstjórn xD og xF 18 árin á undan þar sem almennir þingmenn sátu og stóðu eins og formennirnir fyrirskipuðu, létu óánægðir þingmenn í sér heyra og fylgdu sannfæringu sinni.  Það kann að líta illa út út á   við en þannig er lýðræði. Eitthvað sem kallast órjúfanleg samstaða er ekki til í jafn flóknum og víðfemum málum sem stjórnmálin eru. Alþingismenn verða að fá að fara eftir sannfæringu sinni þó að mikilvægt sé að missa ekki sjónar af stóru myndinni, þ.e. varðveislu þeirra sameiginlegu sýnar sem ríkistjórn hefur samstarf um.  Það er svo undarlegt að á Alþingi eru ekki 63 þingmenn sem í hverju máli hugsa fyrst og fremst um að styðja þann flöt mála sem þeim líst best á, heldur eru til staðar fylkingar þingmanna sem skuldbinda sig við flokkslínur ellegar halda sig til hlés. Getum við ímyndað okkur að stjórnun Landspítalans gengi út á það að tryggja sér meirihlutavöld og í stjórn spítalans og síðan væri farið eftir foryngja meirihlutans þó að hann kæmi með arfavitlausa hugmynd.  Hvers vegna er ekki kosið á þing eftir faglegum forsendum? Hvað er það við stjórnun lands sem gerir það að valdahlutverki? Er það vegna þess að það þarf að vernda sérhagsmuni einhverra? Er það vegna þess að siðferðisleg álitamál við gerða laga eiga að vera leyst með vilja einhvers meirihluta þjóðar? Hvað ef þessi meirihluti er illa upplýstur?  Hvers vegna gildir fagþekking í nær öllum starfsgreinum en ekki fyrir þingmennsku?  Fyrir hrun var traust fólks á alþingismönnum 29% (2005) en það fór niður í um 10% eftir hrun og hefur lítið lagast síðan. Skyldi það liggja að hluta til í eðli stofnunarinnar, þ.e. að þetta samansafn fólks kosið eftir vinsældum og valdatafli, hafi í raun aldrei tækifæri til að starfa saman eins og fyllilega siðað fólk að hagsmunamálum þjóðarinnar? Kannski er ég að misskilja nauðsyn valds eða hvers vegna það þarf að fara eftir svona flokkadráttum, en ég þykist bara sjá að þetta er eitthvað verulega gallað og óheilbrigt.

 Þjóð byggir á sáttmála, ekki landamærum

Svo var það blessuð stjórnarskráin. Mig undrar ekki depurð ýmissa þingmanna yfir því hvernig það fór.  Þetta fallega og lýðræðislega ferli sem leiddi til tillögum Stjórnlagaráðs fór fyrir lítið. Í heildina séð held ég samt að þjóðin standi á mun betri stað en þeim sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skyldi þjóðina eftir í árið 2006.  Gríðarleg gerjun hefur átt sér stað og þjóðin lært mikið um eðli stjórnarskráa. Við höfum einnig lært að við erum ekki kominn á endanlegan stað með skrána enn og taka þarf mið af gagnrýni fagfólks í lögum, mannréttindum og stjórnskipulagi.  Þó að Sjálfstæðisflokkurinn glaður vildi drepa í þessum glæðum verður það ekki svo auðvelt og aðeins ofbeldi myndi færa okkur aftur til 2006.

Breytt stjórnmál eða sama tuggan?

Það hefur margt áunnist síðustu 4 ár, miklu meira en sést í kaupgetu almennings og því má ekki gleyma. Því miður hefur ríkistjórnin farið út í útdeilingu brauðmola með súkkulaðismjöri fyrir kosningar, brauðmola sem hún á ekki inni fyrir, í stað þess að halda sínu striki aðhalds og skynsemi í fjármálum.  Vonandi hafa stjórnmálamenn framtíðar meira hugrekki og traust á skynsemi almennings en þetta.  Framboðið Björt framtíð boðar dygðugri stjórnmál og sama má segja um ýmis önnur ný framboð, en hvort að þar ríki kunnátta, þekking og kjarkur til þess að standa við þau loforð á eftir að koma í ljós.  Það er deginum ljósara að nýja opnari og árangursríkari nálgun þarf á meðal forystumanna flokkanna og þingmanna til að lyfta Alþingi upp úr forarpytti valdataflsins.  Vonandi finnum við þann veg og þorum að fara hann, jafnvel þó að það verði aðeins gert á Íslandi fyrst landa.  Við þurfum eins konar skapandi réttvísi og þor til að feta okkar leið. Það þarf breyttan hugsunarhátt.

Deildu