Í Fréttablaðinu í dag sýnist mér að Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, fari með hrein ósannindi. Þar segir hún:
„Ef einhver biður um þjónustu kirkjunnar þá spyrja starfsmenn hennar ekki „Bíddu, ert þú í þjóðkirkjunni? Ert þú kristin manneskja“ Við þjónum bara fólki alveg sama í hvaða trúfélagi það er. Þessi tenging er svo skýr í litlum samfélögum en ekki eins hér í Reykjavík. Þess vegna er umræða um hvort samstarf eigi að vera milli kirkju og skóla miklu meiri hér í þéttbýlinu er á smærri stöðum“
Nú veit ég til þess að þetta er ekki rétt og hef fjallað um þá staðreynd áður að Þjóðkirkjan og einstaka þjónar hennar hafa vísað fólki frá vegna trúarskoðana þeirra sem til kirkjunnar hafa leitað. Ég veit að prestar hafa neitað fólki sem á um sárt að binda um þjónustu vegna þess að fólkið taldi sig ekki vera trúað. Ég veit að einstaka prestar hafa neitað samkynhneigðum um þjónustu og ég veit að í „innri samþykktum Þjóðkirkjunnar“ sjálfrar segir í 13. gr. um helgihald:
„Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.“
Ég veit að Þjóðkirkjunni er mikið í mun að réttlæta sérstöðu sína með því að hún þjóni öllum. Vandamálið er að hún gerir það ekki og því er sérstök staða og vernd Þjóðkirkjunnar algerlega óréttlætanleg með öllu.
Gleðilega páska annars.
Sjá nánar:
- Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á stöðu Þjóðkirkjunnar? (Fyrirlestur fluttur af höfundi í Iðnó)
- Samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar (Tekið af vef Þjóðkirkjunnar)