Ég fagna nýju frumvarpi til laga um velferð dýra. Eins og ég hef áður skrifað þá tel ég að ein besta leiðin til að meta siðferðisþrek manna sé að skoða hvernig þeir koma fram við þá sem minnst mega sín og við þá sem geta ekki varið réttindi sín sjálfir.
Markmið nýju laganna sem ég vona að verði samþykkt er að:
„stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“
Í lögunum er einnig bannað að:
„framkvæma aðgerð ef fyrirséð er að dýr muni, að aðgerð lokinni, líða fyrir örkuml eða þjáningar og engar líkur eru á bata.“
Ef þessi lög verða samþykkt og þeim framfylgt (sem auðvitað er ekki síður mikilvægt) tel ég að samfélag okkar hafi komist á hærra siðferðisplan. Það er siðferðilega rangt að skaða aðrar skepnur, sem sannarlega upplifa þjáningu, sé hægt að komast hjá því og mikilvægt er að til séu skýr lög sem vernda dýr sem vitaskuld geta ekki tjáð sig og þannig tryggt eigin velferð.
Þó ég sé sjálfur kjötæta enn er ég nokkuð viss um að eftir ekki svo mörg ár verður litið á kjötframleiðslu nútímans sem gamldags barbarisma og fólk verður álíka hneykslað á meðferð okkar á dýrum og við erum flest hneyksluð á meðferð forfeðra okkar á fólki af öðrum „kynþáttum“, fötluðum og geðsjúkum svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki mjög langt í að það verður öllum augljóst að það er siðferðilega óréttlætanlegt að meiða dýr.
Sjá nánar: