Ein besta leiðin til að meta siðferðisþrek manna er að skoða hvernig þeir koma fram við þá sem minnst mega sín og við þá sem geta ekki varið réttindi sín sjálfir. Sá sem til að mynda sýnir börnum grimmd eða er skeytingarlaus um velferð þeirra telst þannig, nánast án undantekninga, siðlaus einstaklingur.
Ef, sem dæmi, grunur vaknaði um að á ungbarnaheimili út í sveit væri farið illa með munaðarlaus börn myndu flestir Íslendingar krefjast rannsóknar hið snarasta. Ef það kæmi í ljós að ungabörnin væru geymd í þröngri og kaldri kompu svo vikum skipti myndi lögreglan loka heimilinu samdægurs.
Gefum okkur að lögreglan kæmist í kjölfarið að því að börnin hefðu þurft að þola mikla andlega og líkamlega þjáningu á umræddu heimili. Þar á meðal sársaukafullar skurðaðgerðir án nokkurra deyfilyfja og án eftirlits lækna. Þá yrði allt vitlaust. Íslendingar myndu ekki aðeins krefjast ítarlegrar lögreglurannsóknar, heldur einnig að þeir sem bæru ábyrgð yrðu lögsóttir og síðan sakfelldir fyrir viðurstyggilegt ofbeldi og vanrækslu gagnvart blásaklausum og varnarlausum börnum. Flest venjulegt fólk sættir sig ekki við grimmd gagnvart börnum.
Hvers vegna virðist okkur þá vera nánast sama um sambærilega illa meðferð á dýrum? Ég spyr í fullri einlægni vegna þess að ég viðurkenni að tilfinningalega þykir mér ekki sambærilegt að bera saman illa meðferð á dýrum og börnum. Af hverju ekki? Ég er ekki viss.
Það eitt veit ég að það er ekki siðferðilega réttlætanlegt að kvelja aðra lífveru einungis vegna þess að hún tilheyrir ekki tegundinni homo sapiens.
Heimspekingurinn Jeremy Bentham (1748 –1832) benti réttilega á að „Spurningin er ekki ‘Geta þau talað?’, né ‘Geta þau hugsað?’, heldur ‘Geta þau þjáðst?’“
Dýr geta svo sannarlega þjáðst. Það er nánast óumdeilt. Það er því skylda okkar allra að vekja athygli á og berjast gegn óþarfa þjáningu dýra.
——
Þessar hugleiðingar eru skrifaðar í kjölfar fréttaflutnings undanfarna daga um illa meðferð á dýrum. Í fréttunum kemur m.a. fram að svín og lömb eru geld hér á landi án nokkurrar deyfingar, rófur svína bræddar af við fæðingu og að mörg dýr búa við mikil þrengsli alla sína ævi og komast jafnvel aldrei undir bert loft. Þessi meðferð er klárlega brot á gildandi dýraverndunarlögum og að mati undirritaðs algerlega siðlaust athæfi.
Sjá t.d. lög um dýravernd:
13. gr. Þegar aðgerð á dýrum er sársaukafull skal ávallt nota deyfilyf eða svæfa dýrið.