Vinnan: Endurskoðum gildin

Logo

Guðmundur D. Haraldsson

Guðmundur D. Haraldsson er stjórnarmaður í Öldu - félagi um sjálfbærni og lýðræði, en auk þess umsjónarmaður hóps innan Öldu um skemmri vinnutíma. Hann er með BS-gráðu í sálfræði og stundar sjálfstæðar rannsóknir á því sviði. Hann starfar fyrir lítið veffyrirtæki í Reykjavík. Netfang: gdh@skodun.is

15/03/2013

15. 3. 2013

Endurskoðun samfélagslegra venja og athafna er nauðsynlegt fyrirbæri. Nauðsyn endurskoðunar er ekki öllum sjánleg á hverjum tíma og er því oft uppspretta deilna. Endurskoðun sem nú er brýn á Íslandi er lengd vinnudags. Í rúma þrjá áratugi hefur vinnudagurinn lítið sem ekkert styst. Engu að síður er vinnudagurinn langur og rannsóknir sýna að hann hefur […]

Endurskoðun samfélagslegra venja og athafna er nauðsynlegt fyrirbæri. Nauðsyn endurskoðunar er ekki öllum sjánleg á hverjum tíma og er því oft uppspretta deilna.

Agriculture_(Plowing)_CNE-v1-p58-HEndurskoðun sem nú er brýn á Íslandi er lengd vinnudags. Í rúma þrjá áratugi hefur vinnudagurinn lítið sem ekkert styst. Engu að síður er vinnudagurinn langur og rannsóknir sýna að hann hefur truflandi áhrif á heimilislíf fólks.

Milli áranna 1980 og 2008 fækkaði árlegum unnum stundum um 56 – það er rúmlega einni vinnustund færra á viku. Hraðinn er svo hægur að það tæki um það bil öld að ná þeim fjölda vinnustunda sem tíðkast í Svíþjóð, en munurinn á vikulegum unnum stundum var árið 2008 um 4 stundir – Svíþjóð í vil. Vinnustundir eru eins umtalsvert færri í Noregi, Danmörku og Finnlandi.1

Langar vinnustundir á Íslandi taka sinn toll. Í alþjóðlegri rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum kom í ljós að vinnan hefur slæm áhrif á heimilislíf hér á landi – í engu öðru þátttökulandi var meira kvartað undan þreytu vegna vinnu, en hér á landi. Um það bil einn af hverjum fjórum átti nokkrum sinnum í viku erfitt vegna þreytu, með að sinna heimilislífi. Þátttökulönd voru fjölmörg lönd í Evrópu, Kanada, Bandaríkin, Ástralía og fleiri.2

Einhverjir eru tilbúnir til að kalla svona lagað „leti“ eða einhverjum álíka uppnefnum. Staðreyndirnar tala hins vegar öðru máli: Rannsókn gerð með gögnum úr alþjóðlegum gagnabönkum sýnir að á Íslandi er umfang vinnunnar eitt hið mesta í Evrópu og jafnvel þótt víðar sé leitað. Í engu landi reyndist umfang vinnunnar meira en á Íslandi. Jafnvel í S-Kóreu er það örlítið minna. Í þessari rannsókn voru fjölmörg lönd skoðuð, m.a. mörg Evrópuríki, Bandaríkin, lönd í S-Ameríku o.fl.3 Umfangið byggist á tveimur mælikvörðum: Vinnustundum og atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttakan er mikil á Íslandi (um 85%) sem er met, miðað við hin löndin í rannsókninni. Vinnustundir eru líka margar, eins og fyrr segir.

Við þetta allt saman bætist sú staðreynd að fólk vill vinna minna; rannsóknin sem var fyrst nefnd leiddi í ljós að um 42% vildu vinna minna.4

Á tímum þar sem vinnan er í meira mæli unnin af vélum er í hæsta móta undarlegt hve mikið við vinnum. Við getum hæglega stytt vinnudaginn, eins og hefur verið gert annars staðar í Evrópu, t.d. Þýskalandi.

Tími endurskoðunar er löngu kominn; styttum vinnudaginn. Styttinguna þurfum við að gera án þess að skerða laun og má í því samhengi líta til landa þar sem stytting hefur farið fram án launaskerðingar, nú eða þá til reynslunnar hér á Íslandi á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum (sjá mynd). Stytting vinnudagsins er fjölskyldunum í landinu mjög mikilvæg.

vinnustundir_laun_1955_2000

 Myndin sýnir hvernig vinnutími á Íslandi styttist á árunum 1960 til um 1980, á sama tíma og laun hækkuðu. Eftir 1980 hefur orðið stöðnun á vinnutíma.

 

****

1. Tölurnar koma frá Total Economy Database, sem rata þaðan frá OECD.

2. Kolbeinn Stefánsson (2008). Samspil vinnu og heimilis: Álag og árekstrar. Rannsóknarstöð Þjóðmála.

3. Úr óbirtri rannsókn Kolbeins Stefánssonar. Gögnin að baki rannsókninni koma frá OECD og miðast við árið 2009.

4. Kolbeinn Stefánsson (2008).

Deildu