Stöðvum ofbeldi gegn börnum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/03/2013

14. 3. 2013

Allt að fjögur þúsund börn verða fyrir heimilisofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, vanrækslu, einelti og öðru ofbeldi á Íslandi á hverju ári ef marka má nýja skýrslu UNICEF um Réttindi barna á Íslandi. Sama hver nákvæmur fjöldi barnanna er þá er ljóst að ofbeldi hefur gríðarleg áhrif á bæði líðan og áhættuhegðun þeirra barna sem verða fyrir […]

Allt að fjögur þúsund börn verða fyrir heimilisofbeldi, kynferðislegu ofbeldi, vanrækslu, einelti og öðru ofbeldi á Íslandi á hverju ári ef marka má nýja skýrslu UNICEF um Réttindi barna á Íslandi. Sama hver nákvæmur fjöldi barnanna er þá er ljóst að ofbeldi hefur gríðarleg áhrif á bæði líðan og áhættuhegðun þeirra barna sem verða fyrir ofbeldinu. Oft vara áhrifin langt fram á fullorðinsár.

Börn sem komast í kast við lögin og neyta fíkniefna eru oft stimpluð sem „vandræðaunglingar“. Mörg þessara barna hafa upplifað ofbeldi og vanrækslu á sínu stutta lífi. Það gleymist því miður oft að áhættuhegðun unglinga er oft ekkert annað en birtingarmynd af því ofbeldi sem börnin hafa orðið fyrir.

Fíkniefnaneysla – áfengi, tóbak og vímuefni
Það kemur skýrt fram í skýrslu UNICEF að börn sem hafa búið við erfiðar aðstæður eru mun líklegri til að stunda áhættuhegðun. Sem dæmi eru stúlkur sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi 8,5 sinnum líklegri til að reykja daglega en aðrar stúlkur á sama aldri. Drengir sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi eru 6,6 sinnum líklegri til að reykja en aðrir drengir. Börn sem hafa upplifað heimilisofbeldi eru margfalt líklegri til að drekka áfengi (Stúlkur: 3,4x – Drengir: 3,3x) og neyta kannabisefna (Stúlkur: 6,6x – Drengir: 4,2x).

Ofbeldi og líðan
Börn sem verða fyrir ofbeldi líður mun oftar verr í skólanum, þau upplifa frekar að framtíð þeirra sé oft eða nær alltaf vonlaus. Þessi börn eru mun frekar einmanna og þau meta heilsu sína verri en önnur börn. Það sem meira er þá eru drengir sem hafa upplifað heimilisofbeldi mun oftar sammála þeirri fullyrðingu að ofbeldi eigi stundum rétt á sér. Ofbeldi elur af sér meira ofbeldi.

Sambærilegar tölur um áhættuhegðun og líðan barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eru að jafnaði enn hærri og meira sláandi.

Einelti er grafalvarlegt
Í skýrslu UNICEF er fjallað töluvert um áhrif eineltis á börn. Fórnarlömb eineltis hafa mun minna sjálfsálit og upplifa mun meiri vanlíðan og kvíða en þau börn sem ekki verða fyrir einelti. Áhrif eineltis eru grafalvarleg og mannskemmandi. Það er þekkt að einelti hefur gríðarlega mikil áhrif á sjálfsálit þeirra sem verða fyrir því og geta þessi áhrif varað langt fram á fullorðinsár. Sem dæmi segjast aðeins um fjögur prósent nemenda sem hafa orðið fyrir einelti vera með mikið sjálfsálit samanborið við 25% þeirra sem ekki hafa orðið fyrir einelti.

Sérstaklega sláandi er hversu miklu algengara er að eineltisfórnarlömb finni fyrir vanlíðan og kvíða. Um 40% þeirra sem verða fyrir einelti finna fyrir vanlíðan og kvíða samanborið við tvö til fjögur prósent þeirra sem ekki verða fyrir einelti. Kvíði og vanlíðan virðist því vera 10-20 sinnum algengari hjá eineltisfórnarlömbum.

Ofbeldinu verður að linna.
Það er hlutverk alls samfélagsins að berjast gegn ofbeldi. Við getum öll tekið þátt með því að sýna gott fordæmi og með því að bregðast strax við öllum grun um ofbeldi.

Einnig ætti það að vera skýr og sjálfsögð krafa okkar að yfirvöld og stjórnmálamenn setji málefni barna í forgang. Ræddi einhver um ofbeldi gegn börnum í eldhúsdagsumræðum alþingis í gær? Sú umræða var í það minnsta lítið áberandi. En hún ætti að vera það. Það er heilmikið hægt að gera til að sporna við ofbeldi gegn börnum sem kostar einungis peninga og skipulag.

Það er til mikils að vinna. Með því að verja meiri peningum í forvarnir og í þjónustu við börn og barnafjölskyldur er hægt að minnka verulega þá þjáningu sem börn upplifa í samfélaginu og um leið spara peninga til lengri tíma. Það er mikilvægt fyrir reiknihausa að átta sig á þessu. Það er ekki aðeins mannúðlegt að draga úr ofbeldi gagnvart börnum með öllum tiltækum ráðum. Því með markvissum aðgerðum  er einnig verið að rjúfa kostaðarsaman vítahring.

Sjá nánar:

Deildu