Það sem má vera tabú

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

07/03/2013

7. 3. 2013

Höfundur hlustaði í dag á viðtal þeirra Frosta og Mána í útvarpsþættinum Harmageddon við Dögg Harðardóttur, sem er í forsvari fyrir félagið Nemendur og Trú. Dögg sagðist m.a. mæla fyrir því að börn, og fólk almennt, þurfi ekki að fara í felur með trú sína. Henni þyki trú vera orðin tabú – sem hún telji […]

HarmageddonHöfundur hlustaði í dag á viðtal þeirra Frosta og Mána í útvarpsþættinum Harmageddon við Dögg Harðardóttur, sem er í forsvari fyrir félagið Nemendur og Trú. Dögg sagðist m.a. mæla fyrir því að börn, og fólk almennt, þurfi ekki að fara í felur með trú sína. Henni þyki trú vera orðin tabú – sem hún telji ávísun á vaxandi fordóma. Einnig sagði hún eitthvað í þá veru að skólastarf án trúariðkunar sé ekki trúarhlutlaust umhverfi.

Það er alltaf dálítið áhugavert þegar fólk segir að það sé ekki trúarhlutleysi að hafa skólakerfið laust við trúariðkun. Auðvitað má segja að með því sé tekin ákveðin afstaða til trúar, en það verður þó varla annað sagt en að með því sé verið að gera skólakerfið eins trúarbragðalega hlutlaust og með góðu móti er hægt. Það eru ekki trúarbrögð að iðka ekki trúarbrögð, svo trúarbragðalega hlutlausara verður skólastarfið varla en með því að iðka engin þeirra, en kenna hinsvegar um þau í trúarbragðafræðslu.

Aðlögun kerfisins
Höfundur hefur setið fund þar sem talsmaður múslímafélags furðaði sig á því að skólakerfið taki ekki fullan þátt í að tryggja rétt múslíma til að iðka sína trú í öllu opinberu rými, með bænastundum, ramadan og öllu tilheyrandi. Hans afstaða var sú að skólakerfið ætti að laga sig að fullu að íslam og t.d. ekki vera með próf í kringum föstu eins og ramadan, því þá séu þeir sem fasta ekki með fulla orku.

Það má vera að skólakerfið geti hæglega lagað sig að slíkum þörfum, en um leið og kennisetningar trúarbragða eiga að fá að móta skólakerfið kemur upp spurningin um hvar mörkin liggja í því. Eitt þykir syndugt og móðgandi í einum trúarbrögðum en ekki öðrum, sumt má borða annað ekki, sumir teljast almættinu þóknanlegir og aðrir ekki. Fólk trúir misbókstaflega og sumir vilja segja börnum sínum að þróunarkenningin sé samsæri hatursfullra vísindamanna gegn guði. Þarf ekki að koma til móts við þetta allt saman?

Krafa Daggar var náttúrulega ekki sú að skólakerfið lagi sig að allskyns bókstafstrú, það er rétt að árétta það. En það eru félög í landinu sem vilja að sú leið sé farin og ein einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir þess háttar erfiðleika er að hafa skólakerfið trúarbragðahlutlaust. Hin svokallaða „secular“ eða veraldlega afstaða til trúar sem er tekin með því kann að vera trúarafstaða, en er ekki trúarbrögð og því fremur hlutlaus afstaða í því tilliti. Almenn fræðsla um trúarbrögð fer áfram fram í skólum og fullorðnum sem börnum er frjálst að sækja trúarstarf um helgar og eftir skóla virka daga. Það hlýtur að teljast eðlileg og viðeigandi ráðstöfun fyrir jafn stórt og fjölþætt kerfi og skólakerfið er.

Áfallahjálp
Töluvert var rætt um áfallahjálp í þættinum og hve flókið það verði að sinna þörfum barna í þeim efnum ef hringja þurfi í foreldra til að fá leyfi fyrir aðkomu presta. Það var að heyra á Dögg að henni þætti að það eigi einfaldlega að mega hringja í prest við slík skilyrði um leið og einhver óskar þess. Það er í sjálfu sér ekki svo undarleg krafa, en er ekki einfaldasta lausnin að félagsráðgjafar af einhverju tagi séu til taks á landsvísu sem skólakerfið geti haft samband við? Þá er engin óvissa í gangi um það sem þarf að brjóta heilann um við svo alvarlegar aðstæður. Kennarar vita þá einfaldlega hvaða viðurkenndu sérfræðingar eiga að koma að málum og þurfa ekki að óttast að neinum trúarviðhorfum sé mismunað.

Einfaldleiki og margbreytileiki
Eins og komið er inn á hér að ofan blasir það við að í mörgu tilliti er einfaldasta leiðin fyrir skólakerfið sú trúarbragðahlutlausa og í viðtalinu minntust þáttarstjórnendur á að sé vilji fyrir því að forðast fordóma og misskiptingu, sé einmitt gagnlegt að færa flokkun barna eftir trúariðkunn út úr skólastofunni en ekki í hana. Þar virðist einfaldleiki í formi og framkvæmd líka felast í hlutleysi.

Það er þó skoðun höfundar að það sé margt til í því hjá Dögg, að fólk hafi gott af að reka sig á ólíkar trúar og lífsskoðanir. Það er þroskandi fyrir allt fólk að læra að þola öðrum að hafa önnur gildi og mikilsmetnir hugsuðir á borð við John Stuart Mill hafa bent á geysilegt mikilvægi þess að kæfa ekki fjölbreytni skoðana, því þar búi sköpunarmátturinn sem muni leiða okkur inn í framtíðina. En innræting og iðkunn trúarhugmynda hlýtur að vera persónuleg en ekki opinber starfsemi í landi þar sem ríkir stjórnarskrárbundið trúfrelsi. Og miðað við hvað trúfélögum hefur fjölgað mikið síðustu ár og félögum eins og t.d. Ásatrúarfélaginu vaxið fiskur um hrygg, má ætla að fjölbreytni í þeim efnum sé síst ábótavant. Margbreytileikinn í trúarstarfi virðist einmitt þrífast betur utan kerfis en innan.

Það sem má vera tabú
Að lokum má spyrja sig hvort trúin sé orðin tabú. Hefur hún ekki einmitt á síðustu örfáu áratugum farið frá því að vera tabú til að vera umræðuefni sem hægt að ræða gagnrýnið og líflega, hafa ólíkar skoðanir á og skrá sig í trúfélag eða lífsskoðunarfélag eftir eigin sannfæringu og smekk?

Það sem hefur orðið tabú er það að þvinga trúarskoðunum og trúarhefðum upp á aðra en þá sem það vilja. Það getur höfundur ómögulega séð að sé sérlega grátlegt, það má alveg vera tabú.

Deildu