Ég hafði ekki rangt fyrir mér – Spuninn um Icesave

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

29/01/2013

29. 1. 2013

Þeir sem samþykktu síðustu Icesave samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu höfðu ekki rangt fyrir sér. Í það minnsta ekki þeir sem samþykktu þá á svipuðum forsendum og sá sem þetta skrifar. Ég taldi einfaldlega að því fylgdi of mikil áhætta að hafna samningum. Ég óttaðist að staða Íslands gæti orðið verri. Ég var ekki 100% viss um […]

icesaveÞeir sem samþykktu síðustu Icesave samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu höfðu ekki rangt fyrir sér. Í það minnsta ekki þeir sem samþykktu þá á svipuðum forsendum og sá sem þetta skrifar. Ég taldi einfaldlega að því fylgdi of mikil áhætta að hafna samningum. Ég óttaðist að staða Íslands gæti orðið verri. Ég var ekki 100% viss um að Ísland væri í lagalegum rétti (enginn var viss um það). Ég hlustaði og tók þátt í umræðum um þessa samninga og það var ljóst að enginn var alveg viss um hvaða afleiðingar það myndi hafa að hafna samningum.

Að auki fannst mér málflutningur nei sinna oft bera sömu einkenni á málflutningur svokallaðra útrásararvíkinga og klappliðs þeirra. Ísland var aftur best í heimi. Við vissum betur en allir aðrir og það sem meira er þá fannst mörgum úr nei fylkingunni í góðu lagi að taka gríðarlega áhættu með efnahagslega framtíð þjóðarinnar. „Þetta reddast“ var í raun sagt. Þetta reddast ef málið fer á versta veg. Umræðan var í raun hálf sturluð á köflum og ruglið kom úr öllum áttum.

Ég samþykkti þessa samninga því með óbragð í munni. Ekki af því að mig langaði svo mikið til að súpa seyðið af útrásarsvindlinu og ekki vegna þess að ég teldi víst eða líklegt að Ísland myndi tapa hugsanlegu dómsmáli. Ekki vegna þess að ég vissi að allar lánalínur myndu slitna. Ekki vegna þess að ég var viss um að endurreisn landsins myndi tefjast ef samningunum yrði hafnað. Ég samþykkti samningana vegna þess að ég vissi þetta allt ekki. Ekki frekar en nokkur annar maður.

Ákvörðun mín var byggð á köldu hagsmunamati og varkárni sem ég byggði á þeim takmörkuðu upplýsingum sem ég gat fengið um málið með því að fylgjast með opinberri umræðu um þessa margumtöluðu samninga.

Þó að EFTA dómstóllinn hafi komist að afar góðri niðurstöðu frá sjónarhóli okkar Íslendinga þá hafði ég ekki rangt fyrir mér þegar ég samþykkti síðustu samninga. Ákvörðun var ekki tekin út frá niðurstöðu EFTA sem fékkst í gær vegna þess að tímavélin mín var biluð (eða öllu heldur ekki til). Ég tók ákvörðun um að semja vegna þess að ég vildi ekki gambla með framtíð Íslands. Því fæ ég ekki skilið þegar fullyrt er af ýmsum í fjölmiðlum að samningssinnar hafi haft rangt fyrir sér. Enn síður skil ég yfirlýsingar sumra samningasinna í sömu átt.

Þetta mál fjallar ekki um hver veðjaði á réttan hest (og ekki heldur um sigur lýðræðisins). Þetta mál fjallar um þá sem vildu veðja og þá sem ekki vildu veðja.  Ég vildi ekki veðja upp á hagsæld heillrar þjóðar og sú afstaða mín hefur ekkert breyst.

Deildu