Brotin bein og brotnar tennur

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

10/01/2013

10. 1. 2013

Ég á erfitt með að skilja hvers vegna tannlækningar eru ekki hluti af almennri sjúkratryggðri heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi eins og í flestum öðrum velferðarríkjum telst heilbrigðisþjónusta til almennra mannréttinda. Sá sem verður veikur eða slasast á rétt á að leita til læknis án þess að þurfa að borga mikið fyrir það. Nema ef viðkomandi þarf […]

Ég á erfitt með að skilja hvers vegna tannlækningar eru ekki hluti af almennri sjúkratryggðri heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi eins og í flestum öðrum velferðarríkjum telst heilbrigðisþjónusta til almennra mannréttinda. Sá sem verður veikur eða slasast á rétt á að leita til læknis án þess að þurfa að borga mikið fyrir það. Nema ef viðkomandi þarf að leita til tannlæknis. Af hverju?

Hver er munurinn á því að vera með brotin bein eða brotnar tennur? Í báðum tilvikum er líkamspartur í ólagi, í báðum tilvikum verður sjúklingur að leita til læknis til að losna við sársauka og til í að koma í veg fyrir að ástand hans versni. Sá sem verður fyrir því slysi að bráka putta fer til læknis og fær aðstoð án lítils tilkostnaðar á meðan sá sem brýtur tönn gæti þurft að greiða verðgildi ökutækis fyrir viðgerð. Af þessum ástæðum bíða sumir í marga mánuði, jafnvel mörg ár, með það að láta laga tennur á meðan puttabrotnir fara yfirleitt strax á sjúkrahús.

Almennar sjúkratryggingar fjármagnaðar með sköttum draga úr misskiptingu samfélaga vegna þess að kostnaður færist frá þeim sem hafa lágar tekjur og greiða litla skatta til þeirra sem hafa hærri tekjur og ættu þar með að greiða meira til samfélagsins.  Þó að skattar þyrftu að hækka til að standa straum af kostnaði myndi heildarkostnaður samfélagsins ekki hækka. Líklegast minnkar kostnaðurinn. Meðal annars vegna þess að opinber heilbrigðisþjónusta er víðast hvar hagkvæmari en einkarekin heilbrigðisþjónusta auk þess sem fólk leitar sér fyrr aðstoðar og gæti þannig komið í veg fyrir alvarlegar og kostnaðarsamar afleiðingar þess að bíða og leyfa sjúklegu ástandi að versna.

Áhugavert væri að sjá útreikninga á því hversu mikið skattar þyrftu að hækka svo hægt væri að tryggja öllum sambærilegan aðgang að tannlæknaþjónustu og annarri læknisþjónustu.  Eins og áður segir þarf fólk almennt ekki að óttast aukin útgjöld þó skattar hækki þar sem  að á móti  dregur verulega úr útgjöldum þegar fólk þarf á þjónustunni að halda. Þar að auki ætti okkur öllum að líða betur með að búa í samfélagi þar sem enginn þarf að veigra sér við að leita til tannlæknis af ótta við mikil og ófyrirséð útgjöld.

Deildu