Samband ungra sjálfstæðismanna birtir kostulega auglýsingu á Facebook síðu sinni um komandi málþing félagsins. Fyrirsögnin er „SÓKN GEGN SÓSÍALISMA“ og með fylgja myndir af sossunum í pólitík víðs vegar um heiminn. Þar á meðal eru Jóhanna, Steingrímur J., Ögmundur og Obama. Hvað getur maður sagt um þessa vitleysu? Margt.
1) Ef Obama er sósíalisti þá er Ísland Norður Kórea.
2) Sjálfstæðismenn, ungir sem aldnir, ættu að fara varlega í að berjast gegn því sem þeir kalla sósíalisma. Ekki vegna þess að þeir gætu átt slæma daga eftir byltingu heldur vegna þess að hugmyndafræði þeirra, nýfrjálshyggjan, er sú hugmyndafræði sem hefur valdið venjulegu fólki hvað mestum skaða. Ekki „sósíalismi“ Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga.
3) Í fyrirheitna landinu, Bandaríkjunum, ríkir hvað mestur ójöfnuður sem fyrirfinnst í hinum iðnvædda heimi. Meðal framkvæmdastjóri er með 243 sinnum hærri tekjur en venjulegur verkamaður. Þeir sem eru hvað ríkastir í Bandaríkjunum (um 1% íbúa) þéna 40% meira á einni viku en milljónir hinna fátæku þéna á heilu ári. Fimmtungur Bandaríkjamana þénar semsagt minna á ári samanlangt en ríkasta prósentið þénar á einni viku. Já stöðvum helvítis sósíalistana! Í himnaríki frjálshyggjunnar á Jörðu hafa laun hinna lægst launuðu hækkað um 15% á síðustu 30 árum á meðan laun þeirra allra ríkustu (um 0,1% Bandaríkjamanna) hafa hækkað um 150%. Sanngjarnt.
Á sama tíma er aðgangur að heilbrigðisþjónustu til skammar. Kostnaðurinn við það að veikjast eða að lenda í slysi er svo mikill að hann er helsta ástæðan fyrir því að einstaklingar verða gjaldþrota þar í landi. Já niður með sósíalismann!
Ójöfnuðurinn og fátæktin (sem er enn ýktari þegar litið er til minnihlutahópa) gerir það svo að verkum að næstum tíu sinnum fleiri lenda í fangelsi í Bandaríkjunum en gengur og gerist í vondu sósíalísku Evrópulöndunum. Ekki undarlegt þegar Bandaríkjamenn verma neðsta sætið þegar kemur að tölum um jöfnuð meðal iðnvæddra samfélaga. Aðeins einræðisríki og bananalýðveldi ná að toppa fyrirheitna landið þegar kemur að ójöfnuði.
Hægrivillur leiðréttar
Það er kannski ekki undarlegt að sjálfstæðismenn halda að sósíalisminn (jafnaðarmennskan) sé vondur. Þeir heyra orðið sósíalismi og sjá fyrir sér Stalín eða þybbna einræðisherra í Norður Kóreu. Svo eru sjálfstæðismenn margir, og þá sérstaklega þessir ungu, þjakaðir af hægrivillum. Þeir halda til dæmis að:
a) brauðmolakenningin sé rétt
Rangt: Hinir fátæku græða ekki á því að fáir einstaklingar geti orðið sjúklega ríkir. Þvert á móti tapa næstum allir aðrir á ójöfnuði. Tap samfélaga á efnahagshrunum og ójöfnuði er oftast mun meira en „gróðinn“ sem fylgir einstaka uppsveiflum og bólum.
b) hærri skattar dragi sjálfkrafa úr vexti komi sér illa fyrir alla
Rangt: Í lýðræðislegum velferðarríkjum vex hagkerfið oft hraðar en í Bandaríkjunum. Sem dæmi um þetta má nefna Svíþjóð frá 2000 til 2010 þar sem hagkerfið óx hraðar þar en í BNA þrátt fyrir að Svíar séu þekktir fyrir háa skatta. Almennt er jöfnuður og velsæld mun betri í Skandinavíu en í löndum þar sem Chicago kúrekahagkerfi hefur fengið að blómstra. Óháð vexti þá hefur fólk það almennt það einfaldlega betra þar sem ójöfnuðurinn er minni. Helsti fórnarkostnaðurinn við jöfnuð er að hinir forríku þurfa að sætta sig við að eiga fjögur hús en ekki 40 og þurfa jafnvel að láta sig hafa það að ferðast á Saga Class en ekki í einkaþotu.
c) Bandaríkin sé land tækifæranna
Rangt: Í fyrirheitna landi frjálshyggjunnar er mun erfiðara að færast á milli þjóðfélagsstiga. Ef þú fæðist fátækur í Bandaríkjunum þá eru meiri líkur á því að þú verðir áfram fátækur en ef þú myndir fæðast í öðru iðnvæddu lýðræðisríki. Sama má segja um þá sem fæðast ríkir. Þeir verða áfram ríkir þó þeir hafi sjálfir ekkert gert til að bæta samfélagið. Möguleikar okkar, sem búum í sósíalískum samfélögum (að mati SUS), til að bæta stöðu okkar eru mun meiri. Enda er heilbrigðisþjónustan og menntun nánast ókeypis (greidd af hinum ógeðslega opinbera kerfi, SKÖTTUM).
d) eitthvað sé til sem heitir frjálst hagkerfi
Rangt: Fyrirsjáanlegt er að sjálfstæðismenn og frjálshyggjumenn mótmæli þessum skrifum vegna þess að Bandaríkin eru ekki hið fullkomna frjálshyggjuríki. Þar eru víst of mikil ríkisafskipti. Staðreyndin er sú að það er ekkert til sem heitir fullkomlega frjálst hagkerfi. Ekki nema í hugarheimi frjálshyggjumanna og vísindaskáldsögum. Allir einstaklingar og öll fyrirtæki eru háð innviðum samfélagsins, almennum leikreglum og lögum. Það mun ekki breytast í náinni framtíð. Nýjar viðskiptahugmyndir eru til að mynda oft byggðar á vísindalegri þekkingu sem fjármögnuð hefur verið af hinu opinbera. Fyrirtæki eru háð aðgangi að menntuðu vinnuafli , öflugum samgöngum, að lögum sé framfylgt og svo framvegis. Síðast en ekki síst er mikilvægt fyrir alla, fyrirtæki og einstaklinga, að samfélagið sé þannig uppbyggt að minni líkir en meiri séu á því að fólk gefist upp, brjóti lög eða einfaldlega rísi upp gegn óþolandi ójöfnuði og fátækt með endurteknum verkföllum, uppreisnum eða jafnvel blóðugri byltingu.
Ég er sósíalisti
Þess vegna er ég jafnaðarmaður og boða hér með sókn gegn hægrivillu og tálsýn um að einfeldningsleg hugmyndafræði sé lausn. Lausnirnar felast ekki í lægri sköttum, færri almennum leikreglum og baráttu gegn jafnaðarmennsku.
Það er auðvelt að nýta sér óánægju almennings með ástandið eftir hrun og benda á vonda fólkið í ríkisstjórn. Ég fullyrði þó að ástandið er ekki núverandi ríkisstjórn að kenna þó ríkisstjórnarflokkarnir séu auðvitað ekki fullkomnir. Orsök hrunsins er að finna annars staðar og þá sérstaklega í einfeldningslegri trú margra á lausnum frjálshyggjumanna.