Þrjátíu þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að rannsakað verði hvernig Ísland lenti á lista „hinna viljugu þjóða“ þegar innrásin í Írak var gerð árið 2003. Ég vona svo sannarlega að tillagan verði samþykkt því það er löngu tímabært að rannsaka hvernig Ísland var formlega sett á þennan lista.
Hlutverk rannsóknarnefndar verður meðal annars að athuga:
a. hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,
b. hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,
c. hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,
d. hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,
e. hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,
f. hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,
g. hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,
h. af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.
Íslendingar mótmæltu
Á sínum tíma tók ég tók þátt í því að birta yfirlýsingu í New York Times þar sem þessi ákvörðun var gagnrýnd. Yfirlýsingin var svohljóðandi:
“Við, Íslendingar, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og ,,viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.”
Skiptar skoðanir voru á þessari yfirlýsingu (sjá: Spurt og svarað um yfirlýsingu Þjóðarhreyfingarinnar).
Stjórnarskráin
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að takmarka þurfi vald yfirvalda til að lýsa yfir stuðning við stríðsátök. Því er eftirfarandi hluti af minni stefnuskrá vegna framboðs til stjórnlagaþings:
„Skýrar takmarkanir eiga að vera á valdi framkvæmdavaldsins til að styðja stríðsátök í nafni íslensku þjóðarinnar. Í það minnsta ætti að þurfa samþykki aukins meirihluta þingsins og helst samþykki þjóðarinnar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Núverandi ástand, þar sem örfáir valdhafar geta gert alla Íslendinga að óbeinum þátttakendum í stríðsátökum, er óásættanlegt.“
Sjá nánar:
Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt: