Af hverju skiptir röð frambjóðenda máli?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/11/2010

9. 11. 2010

Ég er orðinn ansi heillaður af þeirri tilraun sem stjórnlagaþingið stefnir í að verða. Fyrst er haldinn vel heppnaður þjóðfundur tæplega 1.000 Íslendinga. Síðan fáum við að kjósa 25 einstaklinga, ekki flokka, til að skrifa nýja stjórnarskrá byggða á niðurstöðum þjóðfundar. Semsagt mjög jákvæð og  spennandi tilraun til aukins lýðræðis og þátttöku almennings. Ég hef […]

Ég er orðinn ansi heillaður af þeirri tilraun sem stjórnlagaþingið stefnir í að verða. Fyrst er haldinn vel heppnaður þjóðfundur tæplega 1.000 Íslendinga. Síðan fáum við að kjósa 25 einstaklinga, ekki flokka, til að skrifa nýja stjórnarskrá byggða á niðurstöðum þjóðfundar.

Semsagt mjög jákvæð og  spennandi tilraun til aukins lýðræðis og þátttöku almennings.

Ég hef þó efasemdir með sumt í þessu ferli. Til að mynda skil ég ekki þörfina á því að neyða kjósendur til að raða frambjóðendum í sæti þegar kosið er til stjórnlagaþings. Ég hefði sjálfur viljað sjá kosningafyrirkomulagið þannig að hver kjósandi gæti valið allt að 25 einstaklinga til að sitja á þinginu án þess að setja þá í einhverja röð. Það er ekki verið að velja forystumenn flokka eða einhverja leiðtoga. Það er verið að velja fólk til að vinna saman að því að búa til nýja stjórnarskrá.

Jafngild embætti
Væri ekki einfaldast og eðlilegast leyfa kjósendum að velja 25 jafngilda einstaklinga og síðan komast þeir á þing sem fá flest atkvæðin? Annars þurfa þeir sem vilja komast á stjórnlagaþing að hvetja sína stuðningsmenn til að setja sig í 1. sæti eða mjög ofarlega til að eiga möguleika á kjöri. Slík barátta er að mínu mati algerlega úr takti við hugmyndafræðina sem liggur að baki þjóðkjörnu stjórnlagaþingi. Ég hef í það minnsta ekki geð í mér að hvetja fólk til að setja mig ofar á lista en einhvern annan frambjóðanda. Ég tel mig ekkert merkilegri eða hæfari til að taka þátt í að móta stjórnarskrá en aðrir frambjóðendur.

Eins og ég lít á þetta erum við, kjósendur, að fara að velja 25 einstaklinga í 25 jafngild embætti. Hvers vegna í ósköpunum þarf þá að setja frambjóðendur í einhver sæti?

Sjá nánar:

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt:

Deildu