Að veðja á boð og bönn: Hugleiðingar um spilavíti

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/03/2010

2. 3. 2010

Nú er ég ekki sérstakur áhugamaður um spilavíti og hef engra hagsmuna að gæta í þeim efnum. Ég leyfi mér þó að setja spurningamerki við þeirri kröfu margra að setja eigi blátt bann við rekstri slíkra stað. Sérstaklega ef þeir eru reknir undir ströngu eftirliti. Eitthvað þykir mér skorta á rökin í þeirri umræðu sem […]

Nú er ég ekki sérstakur áhugamaður um spilavíti og hef engra hagsmuna að gæta í þeim efnum. Ég leyfi mér þó að setja spurningamerki við þeirri kröfu margra að setja eigi blátt bann við rekstri slíkra stað. Sérstaklega ef þeir eru reknir undir ströngu eftirliti. Eitthvað þykir mér skorta á rökin í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið. Þegar kemur að því að banna eitthvað með lögum er ekki nóg að láta tilfinningarnar einar ráða. Það er því ekki boðlegt að banna spilavíti vegna þess að einhverjir hafa þá skoðun að slík starfsemi sé ógeðfeld. Ég kalla eftir opinni og gagnrýnni umræðu.

Auðvitað er það slæmt að vera fíkill, hvort sem það er í áfengi, vímuefni, fjárhættuspil eða hvað eina. Þessu eru væntanlega allir sammála. Langflestir eru einnig sammála um að hið opinbera eigi að veita fólki í vanda aðstoð og reyna að draga úr óhamingju fólks.

Til að geta tekið upplýsta ákvörðun um rekstur spilavíta þurfa menn í það minnsta að velta fyrir sér tveim spurningum.

Í fyrsta lagi: „Er það ljóst að rekstur spilavíta undir ströngu eftirliti muni auka vanda þeirra sem þjást af spilafíkn?“

Önnur spurning er svo: „Jafnvel þó spilavíti muni auka vandann, er siðferðilega réttlætanlegt að banna slíka starfsemi?“

Út í hött er að taka afstöðu til málsins áður en búið er að leita svara við fyrri spurningunni. Síðan má skoða seinni spurninguna og rökræða forræðishyggju.

Mætur stjórnmálamaður sagði nýlega á opinberum vettvangi að „Spilavíti og spilakassar sem byggi á fíknimyndun, skapi eymd og fátækt.“ Þess vegna væri rétt að banna rekstur spilavíta.

Gott og vel. Vandinn er sá að það nákvæmlega sama má segja um annað í okkar samfélagi. Eins og áfengi, tölvuleiki og meira að segja verðbréfaviðskipti. Þeir sem vita eitthvað um viðskipti með verðbréf sjá í hendi sér að verðbréfamarkaðir eru lítið annað spilavíti. Spilavíti þeirra sem að jafnaði ganga um göturnar í jakkafötum.

En ef þetta eru rökin á þá að banna áfengi, tölvuleiki og verðbréfaviðskipti?

Ég leyfi mér að spyrja: Hafa rannsóknir sýnt að aðstæður spilafíkla eru verri þar sem spilavíti eru leyfð undir ströngu eftirliti?  Það getur vel verið. Ég hef einfaldlega ekki ennþá heyrt um eða séð þær rannsóknir.

Afstaða pólitíkusa virðist byggja á því að það hljóti bara að vera þannig og því þurfi ekki að kanna málin.

Ég vara við að fólk taki afstöðu til mála án þess að hafa staðreyndirnar á hreinu. Munum að vegurinn til glötunar er oft varðarður góðum ásetningi. Menn héldu einu sinni að hægt væri að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar áfengisneyslu með því að banna sölu áfengis. Sagan sýnir að þeir sem héldu þessu fram höfðu rangt fyrir sér.
Ég vil fá umræður um þessi mál. Ekki bara upphrópanir um að sjálfsögðu eigi að banna.

Rökin fyrir því að banna rekstur spilavíta eru þau helst að með rekstri slíkra staða muni fíklum fjölga, eymd aukast og jafnvel talað um að fjölskyldur muni tvístrast. Eins og áður segir finnst mér vanta einhver gögn sem sýna fram á að þetta verði raunin.

Sjálfur tel ég að bönn séu í mörgum tilfellum best til þess fallin til að veita glæpa- og ofbeldismönnum völd yfir sjúku fólki, yfir fíklum. Um leið er verið að stimpla fólk í vanda, sama fólk og verið er að vernda með boðum og bönnum, sem lögbrjóta. Það getur ekki talist háleitt markmið fyrir siðað samfélag.

Deildu