Óskaði formaður Flokksins eftir ritskoðun?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/12/2009

14. 12. 2009

Nú hefur Hreinn Loftsson, sem er aðaleigandi DV, fullyrt í eigin fjölmiðli að Bjarni Ben, formaður Flokksins, hafi óskað eftir ritskoðun um mál sem tengjast honum. Bjarni neitar þessu eins og búast mátti við. Hann viðurkennir þó að hafa hringt í eiganda DV til að kvarta yfir blaðamanni blaðsins. Þar sem Bjarni á að vita […]

bjarni_ben

Nú hefur Hreinn Loftsson, sem er aðaleigandi DV, fullyrt í eigin fjölmiðli að Bjarni Ben, formaður Flokksins, hafi óskað eftir ritskoðun um mál sem tengjast honum. Bjarni neitar þessu eins og búast mátti við. Hann viðurkennir þó að hafa hringt í eiganda DV til að kvarta yfir blaðamanni blaðsins.

Þar sem Bjarni á að vita að eigendur eiga ekki að skipta sér af ritstjórnum eigin fjölmiðla verður símtal hans eigandans að teljast ansi taktlaust. Algerlega óháð því hvort hann bað formlega um ritskoðun eða ekki.

Hvað ef símtalið hefði þróast eins og neðangreint samtal? Hefði Bjarni sagt nei hefði Hreinn boðist til að hafa áhrif á fréttaflutning DV?

Áður óbirt (og skáldað) samtal Bjarna Ben og Hreins Loftssonar:

Bjarni Ben (BB): Sæll félagi Hreinn, hvað er að frétta?

 

Hreinn Loftsson

Hreinn Loftsson (HL): Blessaður, allt ljómandi takk.

BB: Já, einmitt, ha. Jæja já mér var eitthvað hugsað til þín í matarboði um daginn. Manstu þegar þú varst í stjórn Heimdallar?

HL: Já auðvitað í kringum 75 til 77 ef ég man rétt. Góðir tíma.

BB: Já, ég sem var bara í stjórn Hugins í Garðabænum og nú orðinn formaður Flokksins, og þú bara blaðabransanum, haha. Nei ég segi nú bara svona.

HL: Aha. Hmm. Var það eitthvað sérstakt annars?

BB: Tja, já sko. Djöfull er ég ósáttur við suma blaðamenn á DV!

HL: Nú?

BB: Æji já þeir eru alltaf að rifja upp einhverjar neyðarlegar fjárfestingar sem ég tók þátt í með Vafningi í útlöndum. Leiðindamál sem ég bar nú enga sérstaka ábyrgð á.

HL: Ég skil.

BB: Já, ég vildi bara láta þig vita af því að mér þykja skrifin á DV um þetta mál óvönduð og vinnubrögðin í raun óásættanleg.

HL: Ok. Heyrði á ég bara ekki að tala við ritstjórann og biðja hann um að tóna þessa umræðu aðeins niður?

BB: Ha? Jú það væri vel þegið félagi. Takk.

HL: Áfram Heimdallur!

BB: Haha, Heimdallur er bara fyrir einhverja fátæklinga. Huginn rúlar!  Sjáumst félagi, takk fyrir.

HL: Haha. No problem. Heimdallur best. Bless!

Deildu