Vísindakennsla fyrir hægrimenn

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/04/2008

9. 4. 2008

Hvernig stendur á því að margir hægrimenn virðast eiga erfitt með að fara rétt með vísindalegar staðreyndir og eiga almennt erfitt með að ræða um vísindaleg málefni? Í gær bullaði Hannes Hólmsteinn, prófessor við Háskóla Íslands, um hnattræna hlýnun í fjölmiðlum og í dag kyrja lærisveinar hans í kór á svipuðum nótum. Þannig sjá menn […]

Hvernig stendur á því að margir hægrimenn virðast eiga erfitt með að fara rétt með vísindalegar staðreyndir og eiga almennt erfitt með að ræða um vísindaleg málefni? Í gær bullaði Hannes Hólmsteinn, prófessor við Háskóla Íslands, um hnattræna hlýnun í fjölmiðlum og í dag kyrja lærisveinar hans í kór á svipuðum nótum. Þannig sjá menn eins og Sigurður Kári, alþingismaður, Andrés Magnússon, fjölmiðlamaður og Gísli Freyr, íhaldspenni, allir ástæðu til að benda á að það snjóaði á meðan Al Gore hélt ræðu sína í gær. Gefa þeir allir í skyn að kenningin um hnattræna hlýnun hljóti að standa á brauðfótum þar sem enn snjóar á Íslandi.

Andrés Magnússon segir:

„Hvarvetna sem hann [Al Gore] kemur og opnar munninn virðast náttúruöflin eða almættið keppast við að afsanna tilgátur hans og málflutning.“

Sigurður Kári segir:

„Snjóþyngsli hér á Íslandi þennan veturinn hafa verið með mesta móti.Öll skíðasvæði standa landsmönnum opin og Austfirðingar eru meira að segja farnir að kvarta undan of miklum snjó.

Ég var sjálfur í París nú um helgina og þar sjóaði á sunnudaginn.

Og er það ekki kaldhæðni örlaganna að nú að kvöldi þess dags sem Al Gore hélt fyrirlestur sinn um hlýnun jarðar í Háskólabíói snjóar sem aldrei fyrr hér í Vesturbænum?“

Þessir menn tala allir eins og þeir hafi ekki hundsvit á vísindum og vísindalegum vinnubrögðum. Einstaka snjókoma hér og þar hefur vitaskuld ekkert með hnattræna hlýnun að gera. Endurteknar mælingar yfir mjög langt tímabil sýna svo ekki sé um villst að hitastig Jarðar fer hækkandi. Margt bendir til þess að hluti af þessari hækkun sé af mannavöldum. Afleiðingar hlýnunar geta verið mjög alvarlegar. Ótrúlegt en satt þá mun einstaka snjókoma á Íslandi breyta neinu um staðreyndir málsins.

Ég hvet hægrimenn til að kynna sér málin betur áður en þær fjalla um þau á opinberum vettvangi. Á þetta sérstaklega við um þingmenn og ráðamenn þjóðarinnar. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að þeir sem stjórna landi okkar hafi lágmarksþekkingu á vísindalegum vinnubrögðum og hvernig eigi að lesa út úr vísindalegum gögnum. Fáfræði í þeim efnum er stórhættuleg.

p.s. Athygli vekur að Sigurður Kári, sem talar af mikilli vanþekkingu um vísindaleg málefni er hvorki meira né minna en formaður menntamálanefndar alþingis. Réttur maður á réttum stað?

Deildu