Hannes Hólmsteinn og vísindaleg vinnubrögð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/04/2008

8. 4. 2008

Hvers vegna er verið að fá Hannes Hólmstein í viðtal um vísindaleg málefni? Maðurinn á víst að kallast fræðimaður en reynslan sýnir að hann lætur vísindin ekkert trufla pólitískan málflutning sinn. Sem dæmi þá var hann á Rás 2 í dag að fjalla um Al Gore og hnattræna hlýnun. Hannes hélt því þar fram að […]

Hvers vegna er verið að fá Hannes Hólmstein í viðtal um vísindaleg málefni? Maðurinn á víst að kallast fræðimaður en reynslan sýnir að hann lætur vísindin ekkert trufla pólitískan málflutning sinn. Sem dæmi þá var hann á Rás 2 í dag að fjalla um Al Gore og hnattræna hlýnun. Hannes hélt því þar fram að það ætti sér stað kólnun á Jörðinni en ekki hlýnun eins og vísindamenn eru flestir sammála um. Hvernig komst hann að þessari niðurstöðu? Jú því ef við skoðum hitatölur frá 1996 (sem er hlýjasta ár frá upphafi) til dagsins í dag hefur hitastig í heiminum lækkað! Þar sem ég tel mig vita að Hannes er ekki alfáfróður um hnattræna hlýnun verð ég að álita að þarna sé hann vísvitandi að nota talnaleik til að blekkja almenning. Að mínu mati er slíkur blekkingarleikur mun alvarlegri en sparsemi hann á gæsalöppum í bók um Laxnes.

Þar sem Hannes Hólmsteinn er fræðimaður og prófessor við Háskólann veit hann fullvel að það er út í hött að velja örfáar tölur úr stóru talnasafni og draga ályktun út frá þeim. Veðurfræði eru flókin vísindi og augljóslega margt sem hefur áhrif á hitastig Jarðar. Ljóst er að hitastig sveiflast mikið til á milli ára og ómögulegt að draga ályktun út frá einstökum mælingum. Sveiflur á meðalhita milli ára eru eðlilegar. Sama hvaða skoðun menn hafa á því hver ástæðan er fyrir hlýnun Jarðar er flestum ljóst að hitastigið hefur hækkað (Sjá línurit hér fyrir neðan). Þetta veit Hannes Hólmsteinn en kýs að afneita því og snúa út úr. Slík vinnubrögð háskólaprófessors eru óafsakanleg.

Deildu