Egill Helgason uppljóstraði enn aftur um ótta sinn gagnvart Íslam í Silfrinu í dag. Til umfjöllunar var bókin „Íslam með afslætti“ þar sem reynt er að skoða Íslam út frá öðrum sjónarhól en oftast er gert í fjölmiðlum. Í spjalli sínu við Viðar Þorsteinsson og Magnús Þorkel Bernharðsson kom ótti Egils skýrt fram. Eins og svo margir þá óttast Egill Íslam þegar hann ætti í raun að óttast bókstafstrú almennt. Viðar sýndi ágætlega fram á þetta í viðtalinu.
Íslam eða bókstafstrú
Ég fullyrði að heiminum stendur ekki ógn af Íslam sérstaklega heldur af öfgum í trúarbrögðum almennt. Sértaklega af öfgum þeirra sem trúa á bókina. Það er að segja af bókstafstrúuðum kristintrúarmönnum, gyðingum og múslimum. Í sögulegu samhengi eru múslimar ekki öfgafyllri en t.d. kristintrúarmenn (sjá: Trúarbrögð og siðmenning) og erfitt er að fullyrða að heiminum standi meiri hætta í dag af bókstafstrúuðum múslimum en bókstafstrúuðum kristintrúarmönnum. Gleymum því ekki að sumir þeirra sem stefna að því að verða forsetar í voldugasta ríkis heims vilja láta banna samkynhneigð og telja árásarstríð réttlætanleg og jafnvel æskileg.
Það er rétt að til eru margir múslimar sem segjast styðja hryðjuverk. Þeir eru margir sem líta niður á konur og samkynhneigða og vilja afnema ýmis mannréttindi. Gegn þessum hugmyndum verður vitaskuld að berjast. Vandinn er hins vegar sá að fjölmargir kristintrúarmenn aðhyllast nákvæmlega sömu hugmyndafræði. Þeir kalla sig bara ekki hryðjuverkamenn heldur baráttumenn fyrir „frelsi, lýðræði og fjölskyldugildum“. Þessi tegund kristintrúarmanna er líka til hér á Íslandi (Sjá: Hvað ef Gunnar væri ráðherra?)
Bókstafstrú er einfaldlega stórhættuleg og það verður að berjast gegn henni. Sú barátta verður þó að fara fram með skynsamlegri umræðu en ekki skopteikningum og móðgunum.
Múslimar eru ekki einsleitur hópur frekar en kristintrúarmenn og því er óþolandi þegar þeir eru sífellt settir í sama hóp í fjölmiðlum. Slík hópaskipting veldur auk þess því að umræðan fer að snúast um „okkur“ og „hina“ en ekki kjarna málsins.