Ég hef lúmskt gaman af því að lesa pistla trúmanna á vefnum. Sérstaklega þeirra sem vinna við að boða sína trú. Það sem heillar mig mest er sú guðfræðilega rökfimi sem einkennir pistlana. Með guðfræðilegri rökfimi á ég hér við þegar spurningum er svarað á glórulausan hátt en um leið er látið eins og spurningunum hafi verið skynsamlega svarað.
Á vef Þjóðkirkjunnar tru.is er að finna hafsjó af guðfræðilegri rökfimi. Til dæmis fjallar Svavar A. Jónsson sóknarprestur nýlega um þá ljótu kenningu Kristinnar trúar að allir menn séu syndarar, þar á meðal nýfædd börn.
„Stundum heyri ég að í kristinni trú sé lítið gert úr manneskjunni með því að skilgreina hana sem syndara. […] Útlitið er hreint ekki gott sé maðurinn syndari og punktur. Sé því gleymt að samkvæmt kristinni kenningu eru allir menn syndarar – og samkvæmt þeirri sömu kenningu elskar Guð einmitt þennan syndara.
Hann elskar okkur eins og við erum. Einmitt þess vegna er boðskapur kristninnar um manneskjuna svo stórkostlegur. Við þurfum ekki að fegra okkur. Við megum koma fram fyrir Guð í öllu okkar óöryggi. Við þurfum ekki að réttlæta okkur. Guð sér um þá hlið málanna.“
Síðar í pistlinum segir:
“Í skjóli þessa skilyrðislausa kærleika Guðs gefst okkur einstakt tækifæri til að þroska okkur, helgast og fullkomnast, vaxa til hans. Það er verkefni sem tekur ævina alla.”
Þessi hugleiðing sóknarprestsins er stórkostleg. Lítum á „staðreyndir“ málsins:
1) Guð skapar alla menn
2) Allir menn eru fæddir syndugir
3) Guð elskar okkur þrátt fyrir að við séum eins og HANN SJÁLFUR SKAPAÐI OKKUR.
4) Okkur syndugum mönnunum ber því nýta alla ævi okkar til að „helgast“, „fullkomnast“ og „vaxa“ til Guðs. Væntanlega til þess að þakka honum fyrir að elska okkur þrátt yfir að við séum eins HANN SJÁLFUR skapað okkur.
Hvað getur maður sagt við kenningu sem þessari?
Takk Guð, höfðinglegt af þér að fyrirgefa okkur það sem þú sjálfur berð ábyrgð á.
p.s. Ég fyrirgef þér lesandi góður fyrir að hafa ekki borgað reikningana mína um síðustu mánaðarmót.
Sjá nánar:
Sótsvartur mannskilningur og hjarnbjartur