Er heilinn nauðsynlegt líffæri?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

22/07/2007

22. 7. 2007

Í nýjasta hefti læknablaðsins Lancet er fjallað um heilalausan Frakka, eða því sem næst. Maðurinn, sem er 44 ára, virðist hafa tapað 50-75% af heilavef sínum vegna vökvamyndunnar (hydrocephaly) inn í höfuðkúpunni. Þrátt fyrir þetta virðist maðurinn hafa lifað nánast eðlilegu lífi. Greindavísitala (IQ) hans mælist 75 sem er undir meðallagi (100) en telst hann […]

Í nýjasta hefti læknablaðsins Lancet er fjallað um heilalausan Frakka, eða því sem næst. Maðurinn, sem er 44 ára, virðist hafa tapað 50-75% af heilavef sínum vegna vökvamyndunnar (hydrocephaly) inn í höfuðkúpunni. Þrátt fyrir þetta virðist maðurinn hafa lifað nánast eðlilegu lífi. Greindavísitala (IQ) hans mælist 75 sem er undir meðallagi (100) en telst hann þó ekki vera andlega fatlaður (þroskaheftir teljast þeir sem eru með undir 70 IQ).

Þetta er ekki fyrsta og eina dæmið um að einstaklingur geti lifað eðlilegu lífi nánast án þess að vera með heila. Taugasérfræðingurinn John Lorber vakti þannig mikla athygli fyrir rannsóknir sínar á þessu undarlega fyrirbrigði. Frægasta tilfellið sem Lorber greindi frá er líklega rannsókn hans á ungum nemanda við háskólann í Sheffield sem mældist með greindavísitöluna 126 (s.s. vel greindur) og var meðal annars með heiðursgráðu í stærðfræði. Það var ekki greindavísitalan sem vakti athygli Lorbers heldur sú staðreynd að hann var nánast heilalaus. Höfuðkúpa hans var full af heila- og mænuvökva og það eina sem var eftir af heilaberki hans var um einn millimeter af heilavef sem sat fastur innan á höfuðkúpunni. Lorber taldi að umræddur einstaklingur hefði tapað um 95% af sínum heilavef.

Það er því varla von að sumir velti því fyrir sér hvort við þurfum yfirleitt á heila að halda.

Rannsóknir Lorber og fleiri hafa vitaskuld verið gagnrýndar nokkuð og halda sumir því fram að Lorber hafi oftúlkað mælingar sínar. Eftir stendur að það er alveg ljóst að heilinn getur stundum sýnt gífurlega aðlögunarhæfileika. Þess ber að geta að þekking vísindamanna á heilanum er enn mjög takmörkuð þrátt fyrir miklar framfarir á undanförnum árum. Það er því langt frá því að vísindamenn skilji til fullnustu hvernig nánast heilalausir einstaklingar geta lifað eðlilegu lífi.

Sjá nánar:
Small Brain, Full Life

Man with tiny brain shocks doctors

Is the Brain Really Necessary?

Deildu