Kosningahugleiðing: Frjálshyggjan í felum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/05/2006

25. 5. 2006

Það versta við íslenska pólitík er skortur á hugmyndafræði. Það virðist vera sjaldgæft að almennir kjósendur hafi sterka skoðanir á pólitískri hugmyndafræði, en algengara að þeir hafi skoðanir á flokknum sínum og forystumönnum. Stuðningur við stjórnmálaflokka byggist því miður oft á hjarðmennsku fremur en pólitískum hugmyndum eða lífssýn. Það sem verra er þá fórna margir […]

Það versta við íslenska pólitík er skortur á hugmyndafræði. Það virðist vera sjaldgæft að almennir kjósendur hafi sterka skoðanir á pólitískri hugmyndafræði, en algengara að þeir hafi skoðanir á flokknum sínum og forystumönnum. Stuðningur við stjórnmálaflokka byggist því miður oft á hjarðmennsku fremur en pólitískum hugmyndum eða lífssýn. Það sem verra er þá fórna margir stjórnmálamenn eigin hugmyndafræði miskunnarlaust fyrir kosningar þannig að margir kjósendur eiga eðlilega erfitt með að átti sig á því fyrir hvað flokkarnir standa. Sem dæmi þykjast nær allir stjórnmálamenn vera jafnaðarmenn rétt fyrir kosningar. Hverja á fólk þá að kjósa? Mitt svar er einfalt. Fólk á að kjósa eftir málefnum með hliðsjón af þeirri hugmyndafræði sem flokkarnir boða.


Aukin félagsleg þjónusta = vinstri flokkar
Ef fólk hefur áhuga á að styrkja félagsleg málefni eins og málefni aldraðra, barnafjölskyldur, félagsleg úrræði fyrir þá sem hafa litið fé á milli handanna þá hlýtur það að kjósa vinstri flokkana. Allir flokkar þykjast styðja jafnaðarstefnuna rétt fyrir kosningar en það eru aðeins vinstri flokkarnir sem hafa þessa stefnu allt árið um kring. Það er því afar ótrúverðugt þegar flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn fremja barbabrellu nokkrum vikum fyrir kosningar og segjast hafa það sem sitt helsta stefnumál að efla félagslega þjónustu.

Almennar skattalækkanir = íhaldið
Ef fólk vill hins vegar lægri skatta, minni félagsþjónustu, einkavæðingu og aukna einstaklingshyggju þá á það auðvitað að kjósa íhaldið. Út á þetta gengur íhaldsstefnan. Það er ekki að ástæðulausu að Sjálfstæðisflokkurinn er í sérstöku stjórnmálasambandi við bandaríska repúblíkana og alþjóðleg frjálshyggjufélög. Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir minni opinber útgjöld í félagsmálum. Nema kannski nokkrum vikum fyrir kosningar.

Flestir Íslendingar eru jafnaðarmenn
Það er ekki erfitt að skilja hvers vegna flestir flokkar vilja flagga fánum jafnaðarmanna rétt fyrir kosningar. Ástæðan er auðvitað sú að flestir Íslendingar eru jafnaðarmenn. Flestir Íslendingar vilja öflugt félagslegt öryggisnet, jafnan aðgang að góðri menntun og skattkerfi sem dregur úr óhóflegri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Ég veit fyrir víst að margir af þeim sjálfstæðismönnum sem nú eru komnir á þing og eru í bæjarstjórnum (eða á leiðinni þangað inn) hafa nákvæmlega engan áhuga á félagslegum gildum. Þegar ég var virkari pólitík hér á árum áður sótti ég ótal fundi með þessu fólki og var boðskapur þeirra alltaf sá sami. Hvernig best væri að draga úr opinberri félagslegri þjónustu og láta einstaklinginn sjálfan sjá um að tryggja sig fyrir óvæntum áföllum í lífinu. Þeir sem voru hógværastir í málflutningi sínum viðurkenndu að það væri líklegast nauðsynlegt að viðhalda félagslegu kerfi um tíma á meðan væri verið að einkavæða allt draslið. Lokatakmarkið var þó alltaf að afnema opinbera skóla, opinbera heilsugæslu og opinbert öryggisnet. Ég sem hófsamur hægri krati var ósjaldan uppnefndur kommúnisti fyrir það eitt að vilja öflugt opinbert öryggisnet óháð efnahag fólks.

Þetta sama fólk er nú komið í áhrifastöður og er hætt að tala opinberlega um afnám velferðarkerfisins í skrefum. Slíkur málflutningur getur vart talist trúverðugur. Auðvitað getur verið að þessir menn hafi skipt um skoðun. Ég efast samt um það.

Deildu