Áhugaverð umræða hefur verið á nokkrum íslenskum vefritum síðustu daga um fóstureyðingar. Ungir frjálshyggjumenn á www.uf.is hafa tekið upp stefnu bandarískra repúblíkana og vilja banna fóstureyðingar í nánast öllum tilfellum (undantekningin er þegar heilsa móður er í hættu). Hægri sinnaðar vinkonur þeirra á www.tikin.is eru öldungis ósammála og vilja leyfa fóstureyðingar. Miklar tilfinningar eru í þessum pistlum en minna fer fyrir rökum um þetta viðkvæma mál. Hér eru því nokkur almenn rök fyrir því hvers vegna rétt er að tryggja rétt kvenna til fóstureyðinga og hvernig.
A) Bann veldur meiri skaða
Fyrstu rökin eru reyndar keimlík þeim sem frjálshyggjumenn (sem vilja banna fóstureyðingar) nota þegar þeir rökstyðja nauðsyn þess að lögleiða notkun fíkniefna.
Reynslan sýnir okkur að það er erfitt að koma í veg fyrir fóstureyðingar jafnvel þó við vildum (sama má segja um notkun fíkniefna). Konur (og foreldrar almennt) hafa í gegnum sögu mannsins alltaf leitað einhverra leiða til að losna við óvelkomnar þunganir. Ef lögleg leið er ekki fyrir hendi þá er ólögleg aðferð notuð. Flestir eru sammála því að það hlýtur að vera betra fyrir alla aðila (þar á meðal fyrir fóstur) að fóstureyðingar séu framkvæmdar undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna en með ólöglegum og hugsanlega hættulegum aðferðum. Í samfélögum þar sem þekking til fóstureyðinga er ekki til staðar eru nýfædd börn borin út ef þau eru ekki velkomin í heiminn. Það þarf varla að útskýra það að ólöglega framkvæmdar fóstureyðingar (eða útburðir) valda líklegast meiri sársauka og eymd allra aðila en sambærilegar löglegar aðgerðir.
B) Frjálslyndi hefur ekki endilega í för með sér aukna tíðni fóstureyðinga
Frjálslynd fóstureyðingalög hafa ekki sjálfkrafa í för með sér að fleiri fóstrum sé eytt. Til að mynda hafa lögin um fóstureyðingar í Hollandi verið afar frjálslynd en samt sem áður er tíðni fóstureyðinga þar mun minni en á Íslandi og reyndar minni en annars staðar í heiminum. Í Hollandi geta konur óskað eftir fóstureyðingum af hvaða ástæðu sem er. Ólíkt íslenskum lögum þurfa hollenskar konur ekki að tilgreina neinar læknisfræðilegar eða félagslegar ástæður fyrir ósk sinni um fóstureyðingu.
Hollendingar hygg ég að leggi meiri áherslu á forvarnir og fræðslu en flestar aðrar þjóðir. Getnaðarvarnir eru til að mynda auðfáanlegar (og jafnvel ókeypis).
Rök A og B ættu að höfða til bæði þeirra sem eru siðferðilega “með” og “á móti”* fóstureyðingum. Sé rétt staðið að frjálslyndri fóstureyðingalöggjöf ætti hún bæði að draga úr fóstureyðingum og þeim skaða sem fóstureyðingar geta hugsanlega valdið.
C) Réttur kvenna yfir eigin líkama
Konur hljóta að hafa umráðarétt yfir eigin líkama. Erfitt getur verið að finna siðferðileg rök sem réttlæta það að skylda konu til að hýsa aðra lífveru og næra með líkama sínum. Hugsanlegur réttur einnar lífveru til lífs veitir henni ekki sjálfkrafa rétt til afnota af líkama og þar með lífi annarra.
Ef við gefum okkur það að allt líf sé heilagt (sem er alls ekki sjálfsagt eins og við sjáum síðar í þessari grein) þá þýðir það ekki að rétt sé að þvinga konu til að bera og næra annað líf gegn vilja hennar. Nauðgun er hér augljósasta dæmið. Getnaður sem á sér stað vegna nauðgunar er þvert á vilja konunnar. Það að neyða konu til að ganga með fóstur eftir nauðgun hlýtur að teljast alvarlegt brot gegn rétt hennar til að ráða yfir eigin líkama.
D) Fóstur er ekki það sama og persóna
Ekki er ljóst að fóstur sé á öllum stigum meðgöngu persóna. Óvíst er að allir geri sér grein fyrir því að mikilvægur munur er á orðunum “líf” og “persóna” hér. Það er því nauðsynlegt að skilgreina þann mun.
Líf getur til dæmis verið skilgreint sem “samstilling efnaskipta þar sem frumur eru starfseiningar og kjarnsýrusameindir notaðar til þess að varðveita boð um gerð prótína en þau hvati síðan þau efnaskipti sem nauðsynleg eru til viðhalds,vaxtar og æxlunar.”** Þannig eru einfrumungar og bakteríur lifandi en fæstir eru þeirrar skoðunar að líf þeirra hafi sérstakt siðferðilegt gildi.
Það sem gefur “lífi” siðferðilegt gildi í hefðbundnum skilningi er þegar lífveran er einnig persóna eða einstaklingur. Persóna er lífvera sem hefur tilfinningar, væntingar, skynjar sársauka og hefur sjálfsvitund og hefur þar með hugmynd um fortíð sína og framtíð. Ekkert bendir til þess að fóstur, í það minnsta á fyrri hluta meðgöngu, hafi slíka persónueiginleika, ekki frekar en eggfrumur eða aðrar frumur í líkama konu. Þar með er erfitt að gera ráð fyrir því að fóstrið hafi sérstakan rétt til lífs. Líkami konu er eign hennar sjálfrar og hlýtur hún þá að ráða því hvað gert er við fóstur sem hefur engin einkenni persónu.
Helstu rökin fyrir því að fóstur sé í öllum tilfellum persóna eru trúarlegs eðlis. Ákveðnir þjóðfélagshópar “trúa” því að persóna eða einstaklingur (=sál) verði til við getnað. Í frjálsu samfélagi er fólki vitaskuld heimilt að trúa hverju sem er en í lýðræðissamfélagi er ekki réttlætanlegt að þvinga einstaklinga til að beygja sig undir trúarskoðanir annarra.
Frjálslynd lög um fóstureyðingar draga úr óhamingju
Að ofangreindu sögðu er ljóst að fóstureyðingar geta haft alltof alvarlegar siðferðilegar afleiðingar til þess að siðferðilega rétt sé að leyfa þær án nokkurra skilyrða. Ljóst er að margar konur sem hafa valið að eyða fóstri hafa liðið sálarkvalir síðar á ævinni vegna ákvörðunar sinnar. Ástæðurnar eru margar og ólíkar. Því telur sá sem þetta skrifar að nauðsynlegt sé að tryggja að konur gangist ekki undir fóstureyðingu án þess að fá gott tækifæri til að íhuga ákvörðun sína.
Þannig gæti verið skynsamlegt að veita konum nokkurra daga umhugsunarfrest frá því að ákvörðun hefur verið tekin og þar til að fóstureyðingin er framkvæmd. Veita ætti konum skipulagða og ókeypis ráðgjöf (sálfræðinga, félagsráðgjafa og annarra fagaðila) um eðli fósturs og um félagsleg úrræði og aðstoð kjósi þær að halda meðgöngu áfram. Undir engum kringumstæðum ætti þó að banna konum að fara í fóstureyðingu kjósi þær að gera það eftir að umhugsunarfresturinn er liðinn.
Í íslenskum lögum um fóstureyðingar er kveðið á um að konur sem sækja um fóstureyðingu fái viðeigandi fræðslu. Reynslan sýnir því miður að sú fræðsla á sér sjaldnast stað. Ef tryggja á að kona taki upplýsta ákvörðun um svo mikilvægt mál er nauðsynlegt að slík fræðsla sé veitt.
Ef farið væri eftir þessum tillögum er ég viss um að það myndi bæði draga úr fóstureyðingum og þeirri óhamingju sem getur fylgt skyndiákvörðunum um fóstureyðingar. Þannig hygg ég að best væri hægt að sætta sjónarmið þeirra sem eru “með” og “á móti”* fóstureyðingum.
* Fáir eru sérstaklega “með” eða “á móti” fóstureyðingum. Menn eru hins vegar með eða á móti frelsi kvenna til að fara í fóstureyðingu.
** Tekið af Vísindavefnum
Það skal tekið fram að ég byggi þessa umfjöllun meðal annars á umræðu sem ég tók þátt í í áfanganum “Heimspeki” undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar heimspekings, haustönn 2005 í Háskólanum á Akureyri. Grein þessi byggir mikið til á svari sem ég undirbjó til prófs í umræddum áfanga.