Siðmennt og lögin um guðlast

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/03/2006

8. 3. 2006

Þessi grein var send Morgunblaðinu þann 12. janúar 2006 en hefur ekki enn fengist birt. Ég birti hana því hér á www.skodun.is. Guðfræðingar þessa lands hafa verið duglegir undanfarna daga við að gagnrýna Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, á síðum Morgunblaðsins. Um leið og ég fagna allri vitrænni umræðu er ég orðinn langþreyttur á […]

Þessi grein var send Morgunblaðinu þann 12. janúar 2006 en hefur ekki enn fengist birt. Ég birti hana því hér á www.skodun.is.

Guðfræðingar þessa lands hafa verið duglegir undanfarna daga við að gagnrýna Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, á síðum Morgunblaðsins. Um leið og ég fagna allri vitrænni umræðu er ég orðinn langþreyttur á útúrsnúningi og rangfærslum um stefnu og málflutning Siðmenntar. Ég vildi óska þess að meiri tími færi að ræða af yfirvegun og sanngirni um þau mikilvægu mál sem Siðmennt hefur vakið athygli á.


Nú síðast skrifaði Bjarni Randver Sigurvinsson, stundakennari við guðfræðideild HÍ, grein sem bar heitið „Málflutningur Siðmenntar“. Í staðinn fyrir að standa undir yfirskrift greinar sinnar fellur Bjarni Randver í þá fjölsóttu gryfju að fjalla lítið sem ekkert um raunverulegan málflutning Siðmenntar heldur kýs hann að afbaka, snúa út úr og gagnrýna síðan afstöðu sem Siðmennt hefur alls ekki. Ég ætla að hlífa lesendum við að leiðrétta allar afbakannir Bjarna Randvers að þessu sinni enda eru þær augljósar öllum þeim sem hafa á annað borð fylgst með málflutningi Siðmenntar.

Eitt vil ég þó sérstaklega minnast á en það er undarleg umfjöllun guðfræðingsins um þá lýðræðislegu ósk Siðmenntar að „lög um guðlast“ verði afnumin. En í lögunum segir orðrétt:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].“

Bjarni Randver gefur í skyn að ástæðan fyrir þessari stefnu Siðmenntar sé sú að félagið sé hlynnt því að fólk sé með fordóma og leiðindi út i trúfélög. Þetta er auðvitað alrangt eins og guðfræðingurinn veit enda eru rökin fyrir stefnu félagsins vel útskýrð í „Trúfrelsisstefnu Siðmenntar“. Í stefnunni segir:

„Ofangreind lög geta varla samrýmst tjáningarfrelsi því er skilgreint er í Stjórnarskrá Íslands enda er það meðal mikilvægustu réttinda manna að geta tjáð sig óhikað um samfélagið sem þeir búa í.“

Siðmennt hefur ávallt viljað fjalla af yfirvegun og sanngirni um öll mál. Samkvæmt núgildandi lögum geta borgarar þessa lands hins vegar átt það á hættu að lenda í þriggja mánaða fangelsi fyrir það eitt að tjá sig um trú og trúfélög. Þetta er óásættanlegt í lýðræðissamfélagi þar sem tjáningarfrelsi á að ríkja. Ef að lög um guðlast næðu einnig yfir trúlaus lífsskoðanafélög eins og Siðmennt er líklegt að biskup Íslands hefði þurft að sitja í fangelsi fyrir ummæli sín um trúleysi og trúlausa einstaklinga (biskup hefur sagt trúlausa menn siðlausa og að trúleysi ógni mannlegu samfélagi). Myndi Bjarni Randver vilja hafa slík lög? Ég held ekki.

Ég er í það minnsta þeirrar skoðunar að menn eigi að hafa rétt til þess að gagnrýna óhikað menn og málefni. Líka, og jafnvel sérstaklega, þeir sem ég er ósammála. Tjáningarfrelsið er mikilvæg forsenda framfara í öllum samfélögum. Þess vegna er Siðmennt á móti lögum um guðlast.

Deildu