Ívar Jónsson, prófessor við Viðskiptaháskólann á Bifröst, hefur íslenskað ritið Af hverju ég er ekki kristinn (Why I am not a Christian) eftir breska heimspekinginn og friðarsinnann Bertrand Russell. Ég hvet alla til að kíkja á þessa þýðingu sem meðal annars er að finna á vefnum. Ég hef ekki komist í að lesa alla íslensku þýðinguna en ég hef lesið ritið á ensku og mæli eindregið með því.
Fréttatilkynning vegna þýðingarinnar
Ritið Af hverju ég er ekki kristinn eftir breska heimspekinginn Bertrand Russell er komið út í þýðingu Ívars Jónssonar prófessors við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Í ritinu færir Russell rök í anda trúleysingja gegn tilvist guðs og siðferðilegum heilindum Jesú Krists. Ritið er gefið út pappírsformi, en auk þess er það birt í stafrænu formi á netslóðinni http://www.bifrost.is/Files/Skra_0011590.pdf
Bertrand Russell (1872-1970) var einn þekktasti heimspekingur Breta. Hann var fjölhæfur maður og afkastamikill. Hann skrifaði yfir 70 bækur og um 2000 greinar. Árið 1950 hlaut hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Russell var einn helsti forsprakki analýtískrar heimspeki og var einkum þekktur fyrir framlag sitt á sviði rökfræði og heimsspeki stærðfræðinnar. Meðal almennings var Russell þekktur fyrir friðarbaráttu sína, en hann var m.a. ötull andstæðingur kjarnorkuvopna og Víetnam stríðsins. Russell var dæmdur í viku fangelsisvist í Bretlandi 1961 fyrir þátttöku í mótmælaaðgerðum gegn stríðinu í Víetnam og ræðu sem hann hélt í Hyde Park, þá 89 ára gamall. Hann var þó einkum frægur fyrir skrif sín um stjórnmál, samfélagsmál og siðferðileg málefni.