Þann 15. nóvember skrifaði Hulda Guðmundsdóttir djákna-kandidat í MA-námi í guðfræði nokkuð harðorðan pistil um baráttu Siðmenntar fyrir trúfrelsi og umburðarlyndi í opinberum skólum landsins. Sakar Hulda Siðmennt um “endurtekin gífuryrði og rangfærslur“ sem í sjálfu sér er athyglisvert þar sem flest allt sem Hulda segir um baráttu Siðmenntar er beinlínis rangt og málflutningur hennar því lítið annað en gífuryrðaflaumur.
Málflutningur Huldu einkennist af strámannsrökvillum eins og þær eru kallaðar í rökfræðinni. Hulda gerir Siðmennt upp stefnu sem félagið hefur alls ekki og gagnrýnir hana svo. Huldu er kannski vorkunn þar sem þetta er það sem t.a.m. biskup Íslands hefur svo oft gert þegar hann hefur rætt um Siðmennt á opinberum vettvangi. Það er óþolandi að sitja undir þessum síendurteknu rangfærslum og tímafrekt að þurfa að svara þeim í hvert skipti. Ég vil því biðja Huldu og aðra þá sem málið varðar að kynna sér málflutning Siðmenntar fyrst en gagnrýna hann svo. Geri ég þá ráð fyrir því að málflutningur Huldu sé byggður á vanþekkingu hennar um stefnu Siðmenntar en ekki vísvitandi blekkingum.
Siðmennt styður fræðslu um trúarbrögð í skólum
Meginrangfærslan í grein Huldu er sú að hún gerir ráð fyrir því að Siðmennt sé á móti trúarbragðafræðslu í skólum. Þetta er rangt eins og hefur komið skýrt fram í málflutningi og stefnu félagsins. Siðmennt hefur þvert á móti sérstaklega hvatt til aukinnar fræðslu um trúarbrögð í skólum og tekið ítrekað fram að eðlilegt sé að börn séu sérstaklega frædd um kristna trú vegna sögulegra tengsla Íslendinga við kristni.
Siðmennt hefur hins vegar gagnrýnt það trúboð og þá trúariðkun sem stundum á sér stað í opinberum skólum. Opinberir skólar eiga að vera fræðslustofnanir en ekki trúboðsmiðstöðvar. Siðmennt hefur ávallt verið þeirrar skoðunar að almenn fræðsla um ólík trúarbrögð sé æskileg. Hulda fjallar hins vegar ekki um þessa stefnu Siðmenntar heldur einbeitir sér að því að gagnrýna stefnu sem félagið hefur ekki. Það er miður fyrir svo mikilvægt mál.
Tölfræðin og réttlætið
Hulda lýkur grein sinni á því að vitna í fjöldann allan af prósentutölum um afstöðu fólks til fræðslu um trúarbrögð í skólum. Að minnsta kosti tvennt er athugavert við þessa upptalningu. Í fyrsta lagi er réttlæti ekki ákvarðað með handauppréttingum og í öðru lagi er Siðmennt, eins og áður segir, alls ekkert á móti fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð í skólum og því er upptalning Huldu bæði óþörf og óviðeigandi. Eðlilegra hefði verið að birta tölur um það hvort fólk styður trúboð og trúariðkun í skólum þó svörin við slíkum spurningum séu í raun aukaatriði. Annað hvort er trúboð í opinberum skólum réttlætanlegt eða ekki.
Síðan þylur Hulda upp tölur um trúarskoðanir og minnist meðal annars á að “aðeins 19,1% segjast ekki vera trúaðir” og “aðeins 1,4% […] játa aðra trú en kristni”. Hvað þessar tölur koma málflutningi Siðmenntar við veit ég ekki en í það minnsta vona ég að guðfræðingurinn sé ekki að segja að það þurfi ekki að taka tillit til þeirra sem eru “aðeins” fimmtungur þjóðarinnar! Siðmennt er á móti trúaráróðri í opinberum skólum algerlega óháð því hvort 99% þjóðarinnar eru kristin, 1% eða 51% eins og fram kemur í þeirri könnun sem Hulda vitnar til. Siðmennt telur að skólinn eigi að vera fræðslustofnun en ekki trúboðsmiðstöð, algerlega óháð öllum prósentureikningi.
Að lokum vil ég gera lokaorð Huldu að mínum. Menn eiga ekki að “gaspra” og vera með “gífuryrði”. Við eigum að bera sanngjarna virðingu fyrir ólíkum menningarstraumum og trúarskoðunum fólks og öll umræða á að “einkennast af sanngirni og sáttfýsi.”
Því ítreka ég enn og aftur að Siðmennt styður alla fræðslu um trúarbrögð en er á móti trúaráróðri og trúboði í opinberum skólum. Þetta hefur alltaf verið stefna Siðmenntar og bið ég þá sem það varðar að taka tillit til þess í umræðum framvegis.
Sigurður Hólm Gunnarsson
Höfundur er varaformaður Siðmenntar og nemandi í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri.
Þessi grein var send Morgunblaðinu 16. nóvember 2005 og var birt 24. nóvember.