Mannfjandsamleg sálfræðideild

Skoðun-Logo
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/09/2005

9. 9. 2005

Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, fjallaði á ráðstefnu í Háskóla Íslands í gær um vanda geðsjúkra sem stunda nám við Háskólann. Sigursteinn sagði að háskólanemum væri mun hættari við geðröskunum en öðru ungu fólki. Ein ástæðan er líklega sú að framkoma við nemendur er oft mannfjandsamleg, sérstaklega í deildum eins og læknisfræði, lögfræði og sálfræði. Nú […]

Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, fjallaði á ráðstefnu í Háskóla Íslands í gær um vanda geðsjúkra sem stunda nám við Háskólann. Sigursteinn sagði að háskólanemum væri mun hættari við geðröskunum en öðru ungu fólki. Ein ástæðan er líklega sú að framkoma við nemendur er oft mannfjandsamleg, sérstaklega í deildum eins og læknisfræði, lögfræði og sálfræði. Nú þekki ég ekki til lögfræði- og læknisfræðideilda háskólans en sem fyrrum nemandi í sálfræði get ég því miður staðfest að mannfyrirlitningin lifir góðu lífi í sálfræðideildinni.

Ég hef alltaf haft áhuga á sálfræði og mannlegum samskiptum og þegar ég hóf nám við HÍ í sálfræði hélt ég að sálfræðingar, og þar með sálfræðikennarar, væru allir mannlegir og vinalegir. Eins og svo oft áður hafði ég rangt fyrir mér. Ég held að ég hafi aldrei kynnst eins mörgu hrokafullu og samskiptabækluðu fólki á svo stuttum tíma. Sumir kennararnir kölluðu nemendur sína heimska og fleiri komu fram við nemendur eins og þriðja flokks mannverur. Mér er minnisstætt dæmi þar sem kennari lýsti því yfir í miðjum kennslutíma að einn nemandinn væri “of heimskur” til að stunda nám í sálfræði. Í einu tilviki gerði ég þau mistök að mótmæla þessu ofbeldi. Það var ekki vel séð.

Til að gera langa sögu stutta hætti ég í sálfræði eftir tvö ár (námið tekur þrjú ár). Ein ástæðan var sú að ég þjáðist af þunglyndi á þessum tíma og gat ekki hugsað mér að vera vikunni lengur í þessu umhverfi. Auðvitað voru ekki allir kennarar þarna hrokafullir og leiðinlegir. Þeir voru nokkrir afskaplega vinalegir og hjálpsamir, svo það sé á hreinu.

Ábending Sigursteins á hins vegar meira en rétt á sér. Kennarar við háskóla þurfa, eins og allir aðrir, að gera sér grein fyrir að aðgátar er þörf í nærveru sálar. Maður hefði haldið að kennarar í sálfræði gerðu sér grein fyrir þessu.

Undirritaður stundar nú nám við iðjuþjálfun í Háskólanum á Akureyri.

Sjá nánar:
http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=53824

Deildu