Ég mæli eindregið með myndinni Hotel Rwanda sem nú er sýnd á Icelandic film festival. Í myndinni er fjallað á áhrifaríkan hátt um þjóðarmorðin sem áttu sér stað árið 1994 í Rwanda. Á aðeins 100 dögum var um milljón manns slátrað með sveðjum og öðrum frumstæðum vopnum. Vesturveldin neituðu að bregðast við þessum fjöldamorðum og friðarsveitir Sameinuðu þjóðanna gerðu lítið annað enn að vernda erlenda túrista á meðan átökunum stóð. Fjöldamorðin fengu litla umfjöllun í fjölmiðlum og engin alþjóðahersveit var send inn til að bjarga saklausu fólki. Ekki var farið af stað með “Operation Rwanda freedom” (samanber “Operation Iraqi Freedom”) þrátt fyrir að frekar fámennt herlið hefði þurft til að stoppa fjöldamorð framin með sveðjum.
Hotel Rwanda fær mann til hugsa til hvers friðarsveitir Sameinuðu þjóðanna eru til staðar ef það má ekki nota þær til að koma í veg fyrir fjöldamorð á saklausu fólki. Hvers vegna þótti stórveldum Vesturlanda mikilvægt að ráðast án tafar inn í Írak en höfðu engan áhuga á því að vernda saklaust fólk sem var verið að slátra í Rwanda? Ekki var verið að myrða milljón manns á örfáum dögum í Írak.
Svarið virðist vera augljóst. Herbrölt Vesturvelda er ekki knúið af mannúð og umhyggju fyrir saklausu fólki, heldur af völdum, olíu og peningum.