Síðastliðinn laugardag átti sér stað sá sögulegi atburður að hægrikratar náðu völdum í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. En eins og þeir sem hafa fylgst með íslenskum stjórnmálum vita hefur Heimdallur lengi vel verið sterkasta vígi íslenskra frjálshyggjumanna. Ekki lengur. Bolli Skúlason Thoroddsen, nýkjörinn formaður Heimdallar, er eins og svo margir félagar hans á deiglan.com, hægrikrati ekki frjálshyggjumaður.
Ólíkt fyrirrennurum sínum virðist Bolla vera umhugað um að styrkja velferðarkerfið til að taka á félagslegum vandamálum eins og fátækt og atvinnuleysi. Slíkar hugmyndir hafa ekki heyrst frá forustu Heimdallar um langa hríð, ef þá nokkurn tímann.
Í grein um bág kjör atvinnulausra, aldraðra og öryrkja sem Bolli skrifaði (ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur?) á Deiglan.com fyrir nokkru segir hann:
“Er þetta [bæturna] nóg til að lifa mannsæmandi lífi, einkum ef fólk sem er á leigumarkaði, með húsnæðisskuldir eða hefur börn á sínu framfæri? Er hægt að gera betur við þennan stóra hóp?”
Áfram segir jafnaðarmaðurinn:
“Sjálfstæðisflokkurinn hefur að margra mati sýnt þessum málaflokki lítinn áhuga. Ungur sjálfstæðismaður hélt því fram í blaðagrein nýverið að fátækt á Íslandi sé einfaldlega sjálfskaparvíti. Fólk geri ekki það sem gera þarf til að komst betur af. Þetta er hugsun sem er varhugaverð. Við sjálfstæðismenn eigum að ganga út frá því að fólk vilji komast á réttan kjöl. Annars erum við einfaldlega að afskrifa of stóran hluta þjóðarinnar.”
Það kemur því varla á óvart að frjálshyggjumenn bæði innan og utan Heimdalls uppnefna Bolla og skoðanabræður hans iðulega miðjumoðara og kommúnista. Í hörðustu árásunum eru þeir jafnvel kallaðir samfylkingarmenn. Svo mikil er heiftin.
Spennandi verður að fylgjast með hvað frjálshyggjumenn gera nú þegar “vinstrivilla” skekur Heimdall sem aldrei fyrr. Það kæmi ekki á óvart ef félagsmönnum í Frjálshyggjufélaginu myndi skyndilega fjölga.