Sjálfstæðisflokkurinn er víst 75 ára í dag. Til hamingju með það sjálfstæðismenn. Einhvern veginn efast ég nú samt um að margir frelsisunnandi sjálfstæðismenn séu sérstaklega glaðir í dag, enda virðist Flokkurinn hafa fórnað hugsjóninni um einstaklingsfrelsi og frjálsræði á altari foringjahollustu.
Afmæli fagnað með óhóflegum ríkisafskiptum
Kemur það engum öðrum en mér spánskt fyrir sjónir að í „flokki einstaklingsframtaksins“, Sjálfstæðisflokknum, virðist hjarðmennskan vera allsráðandi? Það eru alltaf hinir svokölluðu vinstriflokkar sem klofna og geta ekki komið sér saman um eina stefnu. Þar er of mikið af fólki með sjálfstæðar skoðanir virðist vera. Í Flokknum hlýðir hjörðin hins vegar alltaf kalli Foringjans. Þar eru allir sammála – Ein þjóð, ein trú, einn flokkur.
Fjölmiðlafrumvarpið sem samþykkt var í gær er ágætt dæmi. Frjálshyggjumennirnir í Flokknum, hinir sjálfskipuðu verndarar frelsisins, mótmæla ekki frelsisskerðingu þegar þeir eru aðstöðu til þess. Nei að sjálfsögðu ekki, Foringinn hefur talað og honum skal hlýtt. Einstaklingshyggju skal fórnað á altari flokkshollustu.
Sama var uppi á teningnum þegar útlendingafrumvarpið var samþykkt. Hvaða máli skiptir einstaklingsfrelsið ef Forystan er á móti því? Frjálshyggjuliðið virðist einnig ætla að kyngja lögum um auknar heimildir lögreglu til hlerana, jafnvel án dómsúrskurðar. Þessir sjálfskipuðu talsmenn frelsisins hafa sagt í fjölmiðlum að það „séu góð rök“ fyrir því að efla stóra bróður.
Meira að segja frjálshyggjudrengirnir á Vefþjóðviljanum eru hættir að gagnrýna Flokkinn (mig minnir að þeir hafi gert það í gamla daga). Þeir benda þó stundum á að Flokkurinn sé ekki alveg á réttri leið, en þó aldrei án þess að „benda á“ að allir aðrir flokkar séu mun verri og því sé Flokkurinn í raun ágætur. Svo eru sumir sem velta því fyrir sér hvers vegna einstaklingssinnarnir á Vefþjóðviljanum skrifa aldrei undir eigin nafni. Hafa einstaklingar þar engar sjálfstæðar skoðanir? Svo virðist ekki vera því reglulega kemur fram í ritinu að Vefþjóðviljinn leggi eitthvað til, að Vefþjóðviljinn stingi upp á, að Vefþjóðviljinn hafi þá skoðun og að Vefþjóðviljinn telji.
Er von að maður spyrji hvort hjarðmennskan hafi tekið öll völd í landinu?
Það er orðið eitthvað meira en undarlegt ástand þegar eina von frjálslynds fólks í landinu er orðin Ólafur Ragnar Grímsson forseti og fyrrum formaður Alþýðubandalagsins.
Hvar er nú krafan um að draga úr völdum stjórnmálamanna? Skoðun er þeirrar skoðunar að einstaklingssinnaðir lýðræðissinnar eigi að taka höndum saman og mótmæla hjarðmennskunni í þessu landi. Oft var þörf en nú er nauðsyn.