Flóttamenn og útlendingar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/04/2004

17. 4. 2004

Andri Snær Magnason skrifar stórskemmtilegan pistil á baksíðu Fréttablaðsins í dag þar sem hann fjallar um útlendingafrumvarp Björns Bjarnasonar. Í pistli sínum spyr Andri Snær eðililega: „Hversu mörgum ástarsamböndum má spilla eða tortryggja til að koma í veg fyrir mögulegt plathjónaband?“ Grein Andra Snæs Magnasonar á baksíðu Fréttablaðsins 17. apríl 2002 Flóttamenn og útlendingarFyrir 1100 […]

Andri Snær Magnason skrifar stórskemmtilegan pistil á baksíðu Fréttablaðsins í dag þar sem hann fjallar um útlendingafrumvarp Björns Bjarnasonar. Í pistli sínum spyr Andri Snær eðililega: „Hversu mörgum ástarsamböndum má spilla eða tortryggja til að koma í veg fyrir mögulegt plathjónaband?“

Grein Andra Snæs Magnasonar á baksíðu Fréttablaðsins 17. apríl 2002

Flóttamenn og útlendingar
Fyrir 1100 árum flúðu menn ofríki Noregskonungs og sigldu hingað á litlum kænum. Margir fórust í hafi í leit sinni að betra lífi en margir komust að landi og brátt fylltist landið af þúsundum útlendinga. Þeir gerðu hér mikinn óskunda, stunduðu þrælahald, nauðungarhjónabönd, heiðursmorð og skógareyðingu svo fátt eitt sé nefnt. Fyrsta kynslóð flóttamanna var heppin, hér var enginn til að taka á móti þeim og snúa við í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (kenndri við barn flóttamanns frá Noregi).

Þeir sem hafa lesið um flóttamannatímann á söguöld verða skiljanlega óttaslegnir þegar útlendingar vilja koma hingað aftur eftir 1000 ára hlé. Það er lokað alfarið á alla flóttamenn. Nú á að herða lög sem munu torvelda mönnum að ganga að eiga útlendinga. Kannski má skilja þetta í ljósi misjafnrar reynslu af útlendingum og afkomendum þeirra. Baltasar Kormákur hefur dregið upp dökka mynd af íslensku samfélagi í kvikmyndum sínum, Jónas Sen getur verið óvæginn í gagnrýni sinni á íslenska tónlistarmenn, Geir Haarde hefur tekið upp skattastefnu Noregskonungs, Friðrik Weisshappel æsir fólk upp í að skipta um eldhússinnréttingar, svo maður tali ekki um Emilönu Torrini og Dóru Takefusa. Mats Wibe Lund hefur ljósmyndað hvern einasta sveitabæ á Íslandi. Norska leyniþjónustan?

Ofangreindir einstaklingar mega þó ekki varpa skugga á ímynd útlanda. Útlendingar eru margir og þá má finna alls staðar í heiminum. Miðað við fjölda þeirra og lækkandi flugfargjöld eru miklar líkur á því að börnin okkar muni kynnast eða jafnvel giftast útlendingum. Þá væri aldeilis slæmt ef breytingar á útlendingalögum fara óbreytt í gegnum Alþingi vegna þess að þá er hætta á því að margir endi sem rómantískir flóttamenn.

Það væri til dæmis slæmt að verða ástfangin í landi þar sem pör búa ekki saman fyrir hjónaband. Þá lenda menn á milli steins og sleggju. Fjölskylda og hefðir meina fólki að búa saman en íslensk lög telja grunsamlegt ef fólk hefur ekki búið saman. Ef skötuhjúin eru um tvítugt yrði ekki tekið mark á vilja útlendingsins til að eigast, samkvæmt lögunum öðlast þeir fulla dómgreind 24 ára. Ef tungumál ástarinnar er enska en ekki íslenska, hindí, króatíska eða kínverska versnar enn í því og yfirvöld gætu hreinlega þurft að aðskilja hjónin
af öryggisástæðum.

Hversu mörgum ástarsamböndum má spilla eða tortryggja til að koma í veg fyrir mögulegt plathjónaband? Menn ættu að ranka við sér og kynna sér undirskriftasöfnun á deiglan.com, politik.is, murinn.is eða tikin.is.

Hér má auðvitað taka fram að mun fleiri aðilar standa að undirskriftarsöfnuninni en Andri Snær nefnir.

Deildu