Hvers vegna dó Bel?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/03/2004

23. 3. 2004

Ný kvikmynd um píslarsögu Krists hefur vakið gríðarlega athygli og haft mikil áhrif á fólk víðs vegar um heiminn. Klerkar og aðrir trúarleiðtogar hafa margir sagt myndina stórkostlega og jafnvel blessaða því hún sýnir „rétt frá“ því hvernig Kristur þjáðist og dó fyrir syndir manna. Fyrir utan íslensk kvikmyndahús sem sýna píslarsöguna standa trúmenn og […]

Ný kvikmynd um píslarsögu Krists hefur vakið gríðarlega athygli og haft mikil áhrif á fólk víðs vegar um heiminn. Klerkar og aðrir trúarleiðtogar hafa margir sagt myndina stórkostlega og jafnvel blessaða því hún sýnir „rétt frá“ því hvernig Kristur þjáðist og dó fyrir syndir manna. Fyrir utan íslensk kvikmyndahús sem sýna píslarsöguna standa trúmenn og dreifa bæklingi með fyrirsögninni: „Hvers vegna dó Jesús?“ Þeir vita ekki píslarsaga Jesús er ekkert annað en gömul endurunninn goðsaga. Menn geta alveg eins spurt: „Hvers vegna dó Bel?“.


Nánast allt það sem er sagt um líf Jesú er byggt á eldri goðsögum. Þannig hafa ýmsir fræðimenn bent á að nánast ekkert frumlegt sé að finna í guðspjöllum Biblíunnar. Það er sama um hvað er talað. Lífshlaup hans, kraftaverkin, boðskapinn eða persónurnar. Allt er byggt á goðsögum um eldri frelsisguði. Má þar nefna Mítra, Bel, Horus, Atys, Themmuz, Dionysus, Krisna, Hesus, Indra, Bali, Iao, Alcestis, Quexalcote, Wittoba, Prometheus, Quirinus og ýmsa fleiri. Allir dóu þeir fyrir syndir mannanna, flestir voru eingetnir, þeir frömdu kraftaverk, dóu og risu upp frá dauðum. Allir eiga þeir það einnig sameiginlegt að vera gleymdir úr minnum manna. (Fjallað er nokkuð ítarlega um upprunna sögunar um meyfæðingu Krists í greininni „Fæðingu sólarinnar fagnað„.)

Bel og Jesú
Meira en 2000 árum áður en Jesú er sagður hafa verið á Jörðu trúðu Babýlóníumenn á frelsisguðinn Bel. Sögurnar sem sagðar voru um Bel voru um margt keimlíkar þeim og sagðar hafa verið um Jesú.

Sagan af dauða Bel hefur meðal annars varðveist í um 2000 ára gömlum fleygrúnum sem eru varðveittar í The British Museum. Í þeim kemur fram að haldnar voru leiksýningar til heiðurs Bel, dauða hans og upprisu, þar sem áhorfendur fengu tækifæri til að upplifa fórn frelsisguðsins, ekki ólíkt því og kvikmyndahúsagestir fá að gera í dag.

Píslarsaga Bels
Ef marka má heimildir hófu babýlónískir prestar leiksýninguna (athöfnina) á því að láta áhorfendur (söfnuðinn) syngja sálma og síðan var farið með nokkrar bænir. Eftir það hófst hin eiginlega leiksýning. Leiksýning sem kalla mætti „Píslarsaga Bels“.

1. atriði – Bel er handtekinn
Leiksýningin hefst á því að Bel er handtekinn af hermönnum.

2. atriði – Réttað yfir Bel
Sýnt er frá réttarhöldum yfir Bel sem fram fer í dómshúsi. Þar koma vitni fram og vitna gegn frelsisguðinum. Dómarinn telur Bel saklausan en hann er engu að síður dæmdur til dauða.

3. atriði – Bel barinn til óbóta
Í þessu atriði er sýnt hvernig Bel er hæddur og barinn í kjölfar þess að hann hefur verið dæmdur til dauða.

4. atriði – Bel leiddur upp fjallið
Verðir (hermenn) draga Bel með sér upp á fjall.

5. atriði – Tveir glæpamenn með Bel, annar látinn laus
Réttað er yfir tveim glæpamönnum eftir að Bel hefur verið dæmdur. Annar þeirra er fundinn sekur og er einnig dæmdur til dauða en hinn fundinn saklaus og honum sleppt. Bel er drepinn (nákvæmlega hvernig er ekki vitað. Líklegast hengdur eða krossfestur) uppá fjallinu.

6. atriði – Uppþot í kjölfar dauða Bel
Mikill æsingur á sér stað í borginni í kjölfar þess að Bel hefur verið leiddur upp á fjallið. Í þessu atriði er sagt frá því.

7. atriði – Föt Bels fjarlægð
Líkami Bel er borinn niður af fjallinu. Föt frelsarans eru fjarlægð og líkið búið undir greftrun.

8. atriðið – Bel grafinn í fjallinu

9. atriðið – Grátandi kona heimsækir greftrunarstað Bels
Kona kemur að greftrunarstaðnum og grætur. Óvíst er hvort konan er móðir, eiginkona eða ástkona frelsarans.

10. atriði – Bel rís upp frá dauðum
Í lokaatriðinu er svo sagt frá því hvernig Bel sigrar dauðann og rís upp úr gröf sinni.

Hver trúir á Bel?
Enginn trúir á Bel í dag. Hann var samt sagður sonur Guðs og frelsari manna. Rétt eins og svo margir aðrir frelsisguðir dó hann fyrir syndir okkar mannanna og reis svo aftur upp frá dauðum. Menn hafa samt gleymt Bel og fórnardauða hans. Enginn spyr lengur: „Hvers vegna dó Bel?“ Kannski að það breytist ef einhver frægur leikstjóri ákveður að gera Hollywood mynd um þennan frelsisguð sem nánast allir hafa gleymt. Hver veit?

Heimildir:
Almanak Háskóla Íslands

The Winter Solstice & Christmas – Atheist Alliance International

Encyclopædia Britannica

“The History of the Decline and Fall of the Roman Empire” – Gibbon, Edward

“The Psychic Stream” og “The Curse of Ignorance” – Findlay, Arthur

Vísindavefur HÍ – Um jól

Vísindavefur HÍ – Um páska páskar

Sjá nánar:
Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir satt

Tengt efni:
Fæðingu sólarinnar fagnað

 

Deildu