Trúarlegt skegg bannað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/01/2004

23. 1. 2004

Fordómar manna gagnvart ólíkum lífsviðhorfum birtast í ýmsum myndum. Í Frakklandi skilst mér að þessir fordómar séu kenndir við umburðarlyndi, svo undarlega sem það kann að hljóma. Frönsk stjórnvöld hafa áhyggjur af kúgun múslímskra kvenna og eru þær áhyggjur í mörgum tilfellum á rökum reistar. Baráttuaðferð franskra stjórnvalda gegn trúarlegri kúgun er þó vægast sagt […]

Fordómar manna gagnvart ólíkum lífsviðhorfum birtast í ýmsum myndum. Í Frakklandi skilst mér að þessir fordómar séu kenndir við umburðarlyndi, svo undarlega sem það kann að hljóma. Frönsk stjórnvöld hafa áhyggjur af kúgun múslímskra kvenna og eru þær áhyggjur í mörgum tilfellum á rökum reistar. Baráttuaðferð franskra stjórnvalda gegn trúarlegri kúgun er þó vægast sagt vafasöm. Þau vilja banna öll trúartákn í ríkisreknum skólum. Fyrst voru það slæðurnar sem sumar múslimakonur nota og nú er röðin komin að trúarlegu skeggi, hvað sem það nú er.

Ofangreind bönn við trúarlegri tjáningu franskra borgara eru sem fyrr segir réttlætt í nafni umburðarlyndis en hljóta hins vegar að vera lýsandi dæmi um ofríki stjórnvalda. Trúfrelsi einstaklinga er gífurlega mikilvægt og það hlýtur því að teljast fáránlegt að banna fólki að tjá trú sína vegna þess að í sumum tilfellum kann viðkomandi tjáningarform að vera tákn um kúgun eða misbeitingu.

Slæðurnar umtöluðu er ágætt dæmi. Vitað er fyrir víst að konur eru víðsvegar kúgaðar í hinum íslamska heimi og eru slæðurnar oft notaðar sem tæki til þess að viðhalda þessari kúgun. Álíka víst er að margar múslímskar konur nota slæðurnar af fúsum og frjálsum vilja, endar eru slæðurnar ein leið þeirra til að tjá trúarlega skoðun sína. Rétt eins og kristnar nunnur ganga um í ekki ósvipuðum búningum.

Hlutverk stjórnvalda gagnvart trúarbrögðum er ágætlega lýst í trúfrelsisstefnu Siðmenntar, en þar segir:

„að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur.“

Helsta hlutverk stjórnvalda er því að tryggja frelsi einstaklinga til að iðka og tjá trú sína, að sjálfsögðu þó þannig að enginn annar hljóti beinan skaða af. Í Frakklandi virðast menn hins vegar ætla að fara aðra leið og ætla að takmarka frelsi einstaklinga til að tjá trúarskoðun sína. Ekki vegna þess að aðrir hljóta beinan skaða af heldur vegna þess að í sumum tilfellum eru hin og þessi tákn notuð sem kúgunartæki.

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun mála í Frakklandi. Sérstaklega verður spennandi að sjá hvernig stjórnvöld ætla að gera greinarmun á „trúarlegum“ og veraldlegum skeggvexti. Ætli sett verði á fót skeggvaxtarmálaráðuneyti þar sem sérfróðir ríkisstarfsmenn starfa við að mæla og meta trúarlega eiginleika andlitshára borgaranna, eða verður kerfið einfaldað þannig að einungis aröbum verður bannað að safna skeggi?

Deildu