Áfram um ritskoðun

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/11/2003

6. 11. 2003

Steingrímur Ólafsson á www.frettir.com fjallar um grein mína frá því í gær þar sem ég segi frá ritskoðun sem átti sér stað á www.visir.is á meðan ég starfaði þar. Að gefnu tilefni skal það tekið skýrt fram að ég var ekki eina vitnið að þessari ritskoðun. Fréttir annarra blaðamanna voru einnig ritskoðaðar og athugasemdir voru […]

Steingrímur Ólafsson á www.frettir.com fjallar um grein mína frá því í gær þar sem ég segi frá ritskoðun sem átti sér stað á www.visir.is á meðan ég starfaði þar. Að gefnu tilefni skal það tekið skýrt fram að ég var ekki eina vitnið að þessari ritskoðun. Fréttir annarra blaðamanna voru einnig ritskoðaðar og athugasemdir voru sendar á ritstjórnarpóstinn sem margir höfðu aðgang að. Í einu skeytinu kom meðal annars fram: „Jón Ásgeir hafði samband og biður um að frétt sé eytt vegna þess að fréttin er röng.“


Stuttu eftir að ofangreint skeyti var sent (og áður en ég sá það) var hringt í mig og ég beðinn um að taka umrædda frétt út. Ég sagði að mér þætti eðlilegra að þeir sem hefðu eitthvað við fréttina að athuga hefðu samband og gæfu komment á hana. Ég gæti ekki tekið út fréttir bara vegna þess að menn væru ósáttir. Ég sagðist telja mig vera blaðamann ekki blaðafulltrúa.

Mér var þá sagt að það kæmi ekki til mála að fá komment frá Jóni Ásgeiri, hann vildi fréttina út og það strax. Á meðan á símatalinu stóð ákvað ég að kíkja betur á umrædda frétt og komst þá að því að hún var þá þegar horfin af vefnum. Ég spurði þá yfirmann minn hvort hann hefði tekið fréttina út. Hann vildi ekki viðurkenna það og sagðist ekki hafa hugmynd um hver hefði gert það. Þá spurði ég hvort Jón Ásgeir hefði sjálfur tekið hana út og var svarið áhugavert: „Ég veit það ekki“. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir var mér aldrei sagt hver hefði tekið fréttina út.

Seinna sama kvöld sendi ég eftirfarandi póst á ritstjórn. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég varð vitni að ritskoðun á vefnum og þótti mér því tímabært að fá viðeigandi útskýringar:

„[…] Ég tók ekki fréttina út og hefði ekki gert það. En þar sem ég bar ábyrgð á að hún var sett inn væri gott að vita hver tók hana út að mér forspurðum!

Vísir er fréttamiðill sem er meðal annars í samstarfi við Stöð 2 og það hefur verið venjan að birta fréttir úr kvöldfréttatíma þeirra. Menn geta ekki krafist þess að frétt sé tekin út af því „hún er röng“. Nær væri að hafa samband við fréttastofu (ritstjorn@visir.is) og gefa komment á fréttina og benda á hvað er rangt við hana. Röng frétt er mjög áhugavert fréttaefni.

Á ég sem blaðamaður að taka út allar þær fréttir sem einhverir eru ósáttir við bara af því að þeir segja að fréttin sé röng? Auðvitað ekki! Hvernig á ég að vita hvort sú fullyrðing er rétt eða ekki? Ef menn telja að fréttir séu rangar geta þeir hæglega véfengt þær sjálfir í fréttum. Það getur ekki verið hlutverk blaðamanns að ritskoða fréttir vegna þess að einhverjum líkar ekki við þær. Þar sem ég var á vakt í gær telja eflaust flestir að ég beri ábyrgð á því að taka viðkomandi frétt út og er það eitthvað sem mér finnst mjög óþægilegt.

Ágætt væri að fá ítarlegar leiðbeiningar um það hvaða fréttir má birta og hvað ekki og hafa þær leiðbeiningar opinberar. Ég hef í það minnsta engan áhuga á að vera bendlaður við ritskoðun.

Virðingarfyllst,
Sigurður Hólm Gunnarsson“

Svörin sem bárust frá einum yfirmanna minna voru ekki síður áhugaverð:

„Áður hefur komið upp álíka mál vegna níðingsfréttar um Baug og Jón Ásgeir og þá var frétt eytt. Það lág alveg kristal tært á borðinu þá að ef til stæði að birta svona ærumeiðandi frétt um eigendur vísis þá þyrfti að fá comment á frétt áður frá forsvarsmönnum Baugs. Hafa þarf í huga hver eigandi miðilsins er og það þætti mjög slæmt að birta svona rógburð um sjálfan sig – þannig þarf að skoða málið frá þeirra hálfu. Hafa ber í huga þessa einföldu reglu – hafa samband við forsvarsmenn Baugs áður en svona fréttir eru birtar.“

Þessar skýru leiðbeiningar höfðu það auðvitað í för með sér að blaðamenn Vísis veigruðu sér við að skrifa eða birta fréttir um Baug.

Hvort sem menn trúa því eða ekki virðist skipulögð ritskoðun hafa farið fram á Vísi. Ekki aðeins var nokkrum fréttum (tengdum Baugi) eytt í óþökk blaðamanna (aðeins í einu tilviki var frétt sem ég hafði birt eytt) heldur var sérstakur starfsmaður ráðinn á tímabili sem hafði það helsta hlutverk að eyða öllum „óþægilegum“ umræðum um Baug á spjallþræði Vísis – „Innherjum“. Það er því að mínu viti bæði barnalegt og ekki í samræmi við raunveruleikann þegar menn halda því fram að ritskoðun sé eða geti vart verið vandamál í íslenskum fjölmiðlum.

Að gefnu tilefni skal það tekið fram að ég er síður en svo á móti Fréttablaðinu og alls ekki á móti því fólki sem vinnur þar. Reyndar er Fréttablaðið það blað sem ég les helst. Ekki hef ég heldur neitt á móti því fólki sem ég starfaði með á Vísi og þessum hugleiðingum mínum alls ekki beint að neinum persónulega. Það breytir því ekki að, vegna fyrri reynslu minnar, finnst mér ekki ólíklegt að eigendur blaðsins hafi reynt að hafa áhrif á ritstjórn þess.

Líklegast hafa eigendur alltaf reynt að hafa áhrif á þá fjölmiðla sem þeir eiga og kannski er það eðlilegt? Mér finnst hins vegar mikilvægt að almenningur fái að vita af þessum afskiptum. Við vitum að afskipti eigenda hafa átt sér stað og munu að öllum líkindum eiga sér stað aftur í framtíðinni. Því er eðlilegt og í raun nauðsynlegt að skoða allar fréttir, sama hvar þær birtast, með gagnrýnu hugafari.

 

Deildu