Það hefur verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við þeim tillögum Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, að „skoða með opnum huga breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni, án þess að hróflað sé við jöfnu aðgengi allra óháð efnahag.“ Vinstrimenn láta eins og Samfylkingin vilji eyðileggja heilbrigðiskerfið og hægrimenn telja Samfylkinguna vera að stela stefnumálum þeirra. Báðir hafa, að mínu mati, rangt fyrir sér.
Hræðsluáróður vinstrimanna er æpandi:
Á Múrnum segir:
[…] skýringin á því hvers vegna stjórnvöld í einstökum löndum ráðast í einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er sú að koma upp tvöföldu kerfi, þar sem efnafólki gefst kostur á að kaupa sig fram fyrir í röðinni. Össur Skarphéðinsson þvertekur fyrir að það sé ætlunin. Hann hefur skilmerkilega tekið fram að ríkið yrði eftir sem áður eini kaupandi þjónustunnar, sem ekki verður skilið öðruvísi en að þeim einkareknu sjúkrastofnunum sem ríkið hyggst skipta við verði bannað að selja þjónustu sína hæstbjóðanda.
Sp
Ögmundur Jónasson segir á sinni síðu:
Varnaðarorð!
Það vita allir að Samfylkinguna langar óumræðilega til að verða stór flokkur. Ekki höfðu menn þó almennt hugarflug til að ímynda sér að öllu væri fórnandi til þess! Til að ná til kjósenda á hægri vængnum í stjórnmálum er flokkurinn farinn að tala fyrir málstað Verslunarráðs Íslands og vill markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna.Ögmundur
Á Deiglunni segir hins vegar að ræða Össurar sé viðurkenningu vinstri manna á hugmyndafræði hægri manna til margra ára:
Reyndar heldur formaður Samfylkingarinnar að hann hafi verið að marka ný spor í íslenskum stjórnmálum og þegar honum er bent á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft þessa stefnu í nokkurn tíma, þá þverskallast hann við og heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn tali ávallt um einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar, ekki einkarekstur.
Slíkt er alrangt. Í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins um heilbrigðismál segir meðal annars:
“Landsfundur leggur áherslu á að allir landsmenn búi við jafnrétti og valfrelsi og njóti fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita. Ríkisvaldið skal tryggja öllum landsmönnum þennan rétt og bera ábyrgð á fjármögnun heilbrigðisþjónustu”.
Höfum eitt á hreinu. Það er grundvallarhugjón jafnaðarmanna að allur almenningur hafi jafnan aðgang að mennta-, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Allir þeir sem lesa ræðu Össurar sjá að hann er auðvitað ekki að leggja til að heilbrigðisþjónustan fari eftir efnahag fólks enda segir hann „án þess að hróflað sé við jöfnu aðgengi allra óháð efnahag“. Að halda öðru fram er lítið annað en hræðsluáróður þeirra sem engu vilja breyta.
Að sama skapi má segja að það sé sigur fyrir jafnaðarstefnuna hve margir sjálfstæðismenn eru nú eindregið þeirrar skoðunar að ríkið eigi að tryggja öllum jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Sjálfstæðismenn voru ekki þessarar skoðunar og margir þeirra eru það ekki enn þann dag í dag. Ungir sjálfstæðismenn hafa leynt og ljóst barist gegn ríkisstyrktu velferðarkerfi og margir innan flokksins eru sömu skoðunar (þar á meðal nokkrir þingmenn). Þeir þora hins vegar ekki að tjá hug sinn (opinberlega) vegna þess að þorri almennings aðhyllist frjálslynda jafnaðarstefnu og er þeim því ósammála.