Mótmælandi Íslands

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

31/10/2003

31. 10. 2003

„Mótmælandi Íslands er ekki Helgi Hóseasson heldur Sigurður Hólm,“ segir guðfræðineminn, sem mætti mér á fundi Heimdallar síðastliðinn miðvikudag í umræðum um aðskilnað ríkis og kirkju, á vefsíðu sinni. Helgi er, eins og menn vita, afar skemmtilegur karakter og því hlýt ég að þakka guðfræðinemanum hrósið. Um leið tel ég mig tilneyddan til að benda […]

„Mótmælandi Íslands er ekki Helgi Hóseasson heldur Sigurður Hólm,“ segir guðfræðineminn, sem mætti mér á fundi Heimdallar síðastliðinn miðvikudag í umræðum um aðskilnað ríkis og kirkju, á vefsíðu sinni. Helgi er, eins og menn vita, afar skemmtilegur karakter og því hlýt ég að þakka guðfræðinemanum hrósið. Um leið tel ég mig tilneyddan til að benda á þær fjölmörgu rangfærslur sem guðfræðineminn hafði á fundinum annars vegar og sem eru að finna í pistli hans um fundinn hins vegar.

Heimdallur boðaði til opins málefnafundar um aðskilnað ríkis og kirkju og ákvað sá sem þetta skrifar að mæta. Fundurinn var afar fámennur, svo ekki sé meira sagt, því aðeins þrír mættu. Þar á meðal var guðfræðineminn Stefán Einar. Ég lagði fram Stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum sem inniheldur helstu rök fyrir því að nauðsynlegt er að aðskilja ríki og kirkju. Eins og svo oft hefur verið fjallað um á þessum síðum eru rökin fyrir aðskilnaði félagsleg, lagaleg og fjárhagsleg. Í Stefnu Siðmenntar segir:

Stjórn Siðmenntar telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.

Umræðunni beint i rangan farveg
Þegar guðfræðineminn mætti á fundinn (hann mætti seint) hóf hann fljótlega að snúa út úr umræðunni með því að hundsa ofangreind réttlætisrök, og réttlætti forréttindi kirkjunnar með því að kristið siðferði væri öðrum siðum ofar. Menntun, sjúkrahús og að mér skyldist almenn velmegun er að hans mati allt kristni að þakka. Hann taldi það enn fremur hættulegt „siðferði þjóðarinnar“ ef kirkjan missti tökin. Þakkaði hann meðal annars guði sínum fyrir það að múslimar (sem hann kallaði sífellt Múhameðstrúarmenn) væru ekki með sömu stöðu og kirkjan hér nú. Nefndi hann meðal annars heiðursmorð og Kóraninn máli sínu til stuðnings.

Ég gerðist svo djarfur að véfengja þær fullyrðingar guðfræðinemans að siðfræði, hjúkrun sjúkra, menntun og annað sem tilheyrði siðmenningu væri uppfinning kristinnar trúar.

Í umfjöllun sinni um fundinn segir guðfræðineminn:

„Sigurður lýsti því meðal annars á þessum illa sótta fundi í gærkvöldi að Kristnir menn hefðu kynnst sjúkrahúsum í Krossferðunum sem hófust upp úr tíuhundruð“

Þetta er ónákvæm fullyrðing því ég benti honum á að sjúkrahús hefðu fylgt flestum samfélögum en kristnir hefðu m.a. kynnst sjúkrahúsum múslima í krossferðunum. En þau voru almennt talin mun betri en þau sjúkrahús sem voru í hinni kristnu Evrópu. Hægt er að styðja þessa skoðun með margvíslegum heimildum.

Í Encyclopædia Britannica segir:

„As early as 4000 BC religions identified certain of their deities with healing. The temples of Saturn, and later of Asclepius in Asia Minor, were recognized as healing centres. Brahmanic hospitals were established in Sri Lanka as early as 431 BC, and King Asoka established a chain of hospitals in Hindustan about 230 BC. Around 100 BC the Romans established hospitals (valetudinaria) for the treatment of their sick and injured soldiers; their care was important because it was upon the integrity of the legions that the power of Rome was based.“

Í History of Hospital er fjallað um yfirburði sjúkrahúsa í löndum Islam:

„During the 7th century, the new evangelical religion of Islam began to preserve the classical learning still extant, which it later yielded to the European world. The development of efficient hospitals was an outstanding contribution of Islamic civilization. The Roman military hospitals and the few Christian hospitals were no match for the number, organization, and excellence of the Arabic hospitals.“

Um þessa rökræðu okkar um sjúkrahúsin segi Einar á vefsíðu sinni:

„Þegar ég hafði bent honum á þetta sagði hann að það væri vitleysa, kjaftæði og að doktorarnir við Háskólann vissu ekkert hvað þeir væru að tala um. Það er ágætt að Sigurður lifi í þessum heimi, þó ég haldi að það geri fæstir.“

Það er rétt að ég sagði þá fullyrðingu hans að kristnir hefðu fundið upp sjúkrahús vera ranga og stend ég við þau orð mín. Það að „doktorarnir við Háskólann“ viti ekki hvað þeir eru að segja er hans ályktun. Sjálfur greip ég aldrei til slíkrar orðanotkunar.

Stefán Einar segir áfram:

„Kristnir menn voru fyrstir til að veita líkn þeim sem ekki gátu greitt fyrir það. Að minnsta kosti í þeim sagnfræðilega heimi sem ég lifi í þó Mótmælandi Íslands sé ekki alveg á sömu slóðum í þeim efnum.“

Hvaða heimildir hann styðst við þarna er óvíst og er það ekki rétt að sjúkrahús kristinna hafi verið eitthvað frábrugðin sjúkrahúsum annarra í þessum efnum. Af einhverjum ástæðum þykir það svo markvert að allir fengu aðgang að sjúkrahúsum í löndum Islam að Encyclopædia Britannica segir:

„Throughout the Middle Ages, but notably in the 12th century, the number of hospitals grew rapidly in Europe. The Arabs established hospitals in Baghdad and Damascus and in Córdoba in Spain. Arab hospitals were notable for the fact that they admitted patients regardless of religious belief, race, or social order.“

Það má því ljóst vera að ég byggði allar mínar fullyrðingar á sagnfræðilegum heimildum. Kannski er Encyclopædia Britannica ekki hluti af hans sagnfræðilega heimi?

Áfram segir guðfræðineminn:

„Ég held að það þjóni ekki málstað þeirra sem styðja aðskilnað ríkis og kirkju hvernig hann mætir hinum trúuðu í samfélaginu,“ Ég hef ekki kynnst svona umræðu áður og vil ekki ræða þessa hluti á þeim forsendum.“

Ég hef ávalt barist fyrir umburðarlyndi og að fyrir því að hér á landi ríki fullt trúfrelsi og þar með jafnrétti ólíkra lífsskoðana. Ef sú hugsjón segir eitthvað til um það hvernig ég mæti „hinum trúuðu í samfélaginu“ þá er það gott.

„hann gerir lítið úr trúarskoðunum.“

Ég geri ekki lítið úr trúarskoðunum, heldur rökstyð ég hvers vegna ég er ekki trúaður. Guðfræðineminn er hins vegar sá sem gerir lítið úr trúarskoðunum. Í fáfræði sinni fullyrti hann að siðferðisboðskapur annarra trúarbragða sé verri en boðskapur kristinnar. Fordómar hans eru reyndar svo miklir að hann segist óttast það ef önnur trúarbrögð ná áhrifum hér. Sjálfur segir hann svo á heimasíðu sinni:

„Búddismi er voðalega fallegt trúarbragð að öllu leyti nema því að mér finnst einhvern veginn einsog það sé mælt með því að maður liggi í móki allan daginn, allt lífið í gegn og ég hreinlega myndi ekki nenna því“

segir sá sem gagnrýnir aðra um að gera lítið úr trúarskoðunum.

„…rengir guðfræðinga í athugunum þeirra á Kirkjusögu og fleiru og heldur því fram að þeir ljúgi til handa málstað sínum“

Loksins hefur guðfræðineminn næstum því rétt fyrir sér. Af gefinni reynslu er augljóst að margir guðfræðingar vita ekki, eða kæra sig ekki um að vita um ýmislegt sem tengist sögu kristinnar trúar.

Vegna þess að ég var nýbúinn að skrifa grein um Martein Lúter rökstuddi ég meðal annars mál mitt með því að margir guðfræðingar hefðu haft samband við mig og sakað mig um að ljúga til um gyðingahatur Lúters.

Guðfræðineminn kannaðist vitaskuld ekki heldur neitt við gyðingahatur Lúters og sakaði mig einnig um lygar. Hann viðurkenndi að kannski hefði Lúter sagt einhver einstök neikvæð orð um gyðinga en það réttlætti ekki að kalla hann gyðingahatara. Ég benti honum þá á þá einföldu staðreynd að Lúter hefði skrifað heila bók um það hvernig ætti að brenna bænahús gyðinga, flytja þá í gettó og jafnvel myrða þá. Viðbrögð guðfræðinemans voru áfram þau að þetta væru allt eintómar lygar hjá mér. Þar með sannaði hann þá skoðun mína að guðfræðingar virðast stundum ekki vita mikið um sögu sinna eigin trúarbragða.

„Sigurður er þeim ókosti gæddur að hann hagræðir hlutum eftir því sem honum hentar í svona umræðu, menn eru fávitar og lygarar ef þeir eru honum ekki sammála og eftir því sem menn eru lærðari í sínum greinum þeim mun minna eiga þeir að vita um þau mál.“

Hér ber guðfræðineminn á mig furðulegar særandi ásakanir. Ég kallaði aldrei neinn fávita né lygara (það eru algerlega hans orð, ekki mín). Guðfræðineminn verður að eiga það við sjálfan sig hvers vegna hann ákveður að nota svona litrík orð í pistli sínum.

Trúboð
Um rökræðu okkar um trúboð í skólum segir guðfræðineminn:

„Sigurður sagði það rangt að kenna meira um kristna trú en önnur trúarbrögð í skólum.“

„Sigurði fannst það ekki rök í málinu og styður greinilega að við kennum jafnmikið um Shinto, Jainistma, Taoistma, Islam, Búddisma og forsöguleg trúarbrögð og við gerum um Kristna trú. Ég tel það raunar fáránlegt.“

Hér lýgur guðfræðingurinn. Ég tók það skýrt fram að eðlilegt væri að kennt meira um kristna trú en flest önnur trúarbrögð hér á landi. Enda á kristni afar djúpar sögulegar og menningarlegar rætur hér. Ég tók þetta mjög skýrt fram. Ég sagðist einfaldlega vera á móti trúboði.

„Hann segir að það séu grundvallarmannréttindi barna hans að þau séu ekki látin læra um það að Jesús hafi dáið á krossi fyrir syndir mannanna og að hann hafi risið upp frá dauðum.“

Reyndar sagði ég það óviðeigandi að kenna þessar goðsögur sem heilög sannindi. Endilega kennið goðsögur trúarbragðanna. Þær eru bæði áhugaverðar og oft nokkuð skemmtilegar. Ég útskýrði þessa afstöðu mína einnig mjög vel.

Ég gerðist reyndar svo djarfur að véfenga þá „sagnfræðilegu staðreynd“ að Jesú hefði dáið fyrir syndir mannanna og risið upp frá dauðum. Guðfræðineminn vildi hins vegar meina (í fullri alvöru) að þessir atburðir væru sagnfræðilegar staðreyndir.

Segir hann m.a. á heimasíðu sinni:

„Í dag hef ég verið að lesa um upprisu Krists, söguna í kringum upprisuna, túlkanir, úrtölur og annað sem hlýtur að tengjast þessum, einum frægasta atburði mannkynssögunnar.“

Því miður fyrir sjónarmið guðfræðingsins þá hef ég þarna aftur rétt fyrir mér enda eru kraftaverkasögurnar í Biblíunni ekki taldar sagnfræðilegar staðreyndir, ekki frekar en sögurnar af þrumuguðinum Þór svo dæmi sé tekið.

„Ef Sigurður væri kennari við barnaskóla og eitt barnanna myndi falla frá og bekkjarfélagi þessa barns myndi spyrja um afdrif vinar síns, myndi Sigurður eflaust segja: ég veit það ekki, líklegast verður vinur þinn núna að mold og ekkert meira gerist; allt búið, sorry! Hvað viljum við að sagt sé við börnin okkar við þessar aðstæður? Hvað myndum við segja við börnin okkar við þessar aðstæður?“

Ef ég þyrfti að fjalla um dauðann undir ofangreinum kringumstæðum myndi ég benda börnunum á ólíkar lífsskoðanir og mismunandi trú fólks. Það er ekki hlutverk mitt að troða lífsskoðun minni (trúleysi) upp á börn. Ég myndi leitast við að segja sannleikann. Við vitum ekki hvað gerist. Flestir vísindamenn telja dauðann vera endalokin. Sumir trúa á himnaríki Jahve, aðrir á himnaríki Allah og svona má endalaust telja. Það er ekki hlutverk kennara að troða eigin trúarskoðun upp á börn. Ég spyr á móti hvað myndi guðfræðineminn gera? Myndi hann segja þeim að afdrif bekkjarfélagans færi eftir því hvort hann hefði trúað á hinn kristna guð eða ekki? Myndi hann láta börnin vita að helvíti, grátur og gnístran tanna biði allra þeirra sem ekki trúa á Jesú? Ég vona svo sannarlega ekki.

Reynt að fjalla um kjarna málsins
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst Stefán Einar ekki til að tala um málið út frá mannréttar- og jafnréttissjónarmiðum en talaði þess í stað mest um yfirburði kristins samfélags. Eins og stjórnandi fundarins getur væntanlega vitnað til um tók ég það margoft fram að trúarskoðanir okkar kæmu málinu ekki við. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er réttlætismál.

„Málflutningur Sigurðar er í öllum tilvikum ruddalegur og alls ekki málefnalegur. Ég held að það væri trúleysingjum hollast að fá sér annan talsmann í þessari umræðu. Hið skemmda epli hefur skemmt alla körfuna.“

Þessar ad hominem rökvillur guðfræðinemans eru nú orðnar ansi þreytandi. Einu skiptin sem ég ræddi um trúarbrögð og trúarafstöðu mína var þegar ég var að svara meiðandi áróðri guðfræðinemans þess efnis að siðferði og siðmenning væri hans trú einni að þakka. Ljóst er að ég hef slegið á einhverja viðkvæma strengi en ég var alls ekki „ruddalegur“ og ég gerði mitt besta til að vera málefnalegur. Svona órökstuddar fullyrðingar eru barnalegar og eiga ekki heima í samtölum fullorðins fólks.

Að lokum segir guðfræðineminn um rökræður okkar:

„Sigurður fjallar um debat okkar á síðunni Skoðun.is núna í morgun og leggur mér þar ýmis orð í munn eða reynir að hagræða hlutunum þannig að ég líti út sem vondur maður sem afneiti gyðingahatri og öðru slíku.“

Hvaða orð ég lagði guðfræðingnum í munn veit ég ekki enda nefnir hann engin dæmi. Hvar sannleikanum var hagrætt er einnig óljóst. Eins og fram kemur fyrr í þessari grein benti ég einfaldlega réttilega á að Lúter hafi verið ofstækisfullur gyðingahatari en Stefán Einar sagði mig fara með rangt mál. Þannig var þetta bara.

„Hann vill líka meina að ég sé heilaþveginn af lygurum Guðfræðideildarinnar en áttar sig ekki á því hversu fáránlegar þessar yfirlýsingar hans eru.“

Þetta eru algerlega orð guðfræðinemans en ekki mín. Hann verður því að eiga þau við sjálfan sig.

Ítarefni:
stefaneinar.com

Stefna Siðmenntar í trúfrelsismálum

Deildu