Stórglæpur skekur Patró

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/06/2003

19. 6. 2003

Það er fátt erfiðara að skilja en ofstækið í samfélaginu gagnvart kannabisneytendum. Nánast hvern dag birtist frétt í fjölmiðlum þess efnis að lögreglan hafi handtekið unga menn og konur með kannabisefni í fórum sínum og stimplað þá glæpamenn. Í gær birtist til dæmis ,,stórfrétt“ á lögregluvefnum um að þrír ungir menn hefðu verið handteknir með […]

Það er fátt erfiðara að skilja en ofstækið í samfélaginu gagnvart kannabisneytendum. Nánast hvern dag birtist frétt í fjölmiðlum þess efnis að lögreglan hafi handtekið unga menn og konur með kannabisefni í fórum sínum og stimplað þá glæpamenn. Í gær birtist til dæmis ,,stórfrétt“ á lögregluvefnum um að þrír ungir menn hefðu verið handteknir með ,,rúmt gramm“ af kannabisefnum.


,,Að ósk lögreglunnar á Ísafirði voru þrír karlmenn um tvítugt handteknir, af lögreglunni á Patreksfirði, á Hjarðarnesi á Barðaströnd um kl.21:00 í gærkveldi…

Þegar lögreglan á Patreksfirði handtók mennina vísuðu þeir á rúmt gramm af marihúana, auk þess sem fíkniefnaáhöld fundust í bifreið þeirra.“

Í þessari stórfrétt lögreglunnar er tekið fram að allir hafi þessir menn lengi verið ,,grunaðir um tíma um fíkniefnaneyslu“ og að þeir eigi yfir höfði sér refsingu samkvæmt ,,ákvæðum laga um ávana og fíkniefni.“

Vanmáttarkennd yfirvalda
Ofstæki yfirvalda gegn kannabisneyslu fólks er gott dæmi um það þegar ráðamenn koma auga á vandamál en eru ekki færir um að leysa það. Vímuefnaneysla, og þar með talin áfengisneysla, fólks getur vissulega haft hræðilegar afleiðingar. Öll þekkjum við dæmi um brostin heimili alkahólista og eiturlyfjafíkla, öll höfum við heyrt um alvarlega efnahags- og ofbeldisglæpi tengda þessum efnum. Það er því ekki að furða að við getum flest verið sammála um að neysla þessara efna getur haft hræðilegar afleiðingar í för með sér. Enn boð og bönn eru sjaldnast lausnir, og það á við í þessu tilfelli.

Ef yfirvöld hefðu einhvern áhuga á því að hjálpa þeim sem lenda í því að verða fíklar og á að reyna að draga úr líkum þess að aðrir falli í þá óhamingjugryfju, þá væru þau ekki að einbeita sér að því að gera þetta fólk að ótýndum glæpamönnum og úrhraki samfélagsins.

Einfaldara að fordæma og banna
Réttast væri að einbeita sér að því að skapa samfélag upplýstra, sjálfsöruggra og sterkra einstaklinga. Til dæmis með því að kenna börnum okkar umburðarlyndi, tjáningu og almenna þjálfun í mannlegum samskiptum í skólum landsins. Réttast væri að efla velferðarkerfið og draga úr fátækt og fátæktargildrum. Réttast væri að skapa samfélag þar sem smæstu einstaklingar innan þess eygja von um bjarta framtíð.

Þetta er auðvitað hægt, en erfitt. Því er einfaldara að fordæma og banna. Það friðþægir okkur hin að vita til þess að eiturlyfjaneytendur eru bara skemmt, ef ekki vont fólk, sem setur skugga sinn á okkar annars fullkomnu veröld. Ef svo væri ekki mætti halda að það væri eitthvað að því samfélagi sem við búum í. Það gengur auðvitað ekki. Því halda herrar heimsins áfram að fangelsa stórglæpamenn með rúmt gramm af hassi í fórum sínum. Svo við hin getum áfram sofið rólega á næturnar.

Ítarefni:
Réttlætanlegt stríð en barist á röngum vígstöðvum

Frjálslyndir vindar blésu á landsfundi

Annað samtal um fíkniefni

Samtal um lögleiðingu fíkniefna

Deildu