Stundum verð ég vitni að eða heyri um uppeldisaðferðir foreldra sem ég á erfitt með að sætta mig við. Hvers kyns ofbeldi gagnvart börnum er ólíðandi, hvort sem ofbeldið er andlegt og/eða líkamlegt.
Flestir sem beita börn sín ofbeldi eru í eðli sínu ekki slæmir einstaklingar. Sumir hreinlega vita ekki betur, aðrir eiga erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og aðrir eru einfaldlega undir of miklu álagi.
Sumir foreldrar öskra á börnin sín og jafnvel niðurlægja þau: ,,Ertu eitthvað heimskur?“ ,,Hvað er að þér?“ ,,Skilur þú aldrei neitt sem sagt er við þig?“ Svona má lengi áfram telja.
Ólíkt því sem margir virðast halda eru öskur og niðurlægingar líka ofbeldi. Ekki síður en líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Niðurlægingar eyðileggja sjálfstraust barnsins, jafnvel svo mikið að áhrifin verða ekki bætt. Öskur og hótanir eru hreint ofbeldi, enda hræðast börn læti. Mér er skapi næst að segja að notkun slíkra ,,uppeldisaðferða“ sé hryðjuverk gegn börnum.
Lélegt sjálfstraust og óöryggi er ekki eina afleiðing ofbeldiskenndra uppeldisaðferða. Þegar börn eru alin upp og öguð í ofbeldiskenndu andrúmslofti læra þau einnig að ofbeldi sé lausn á vanda. Er skrítið að börn og unglingar leggi í einelti og berji þegar margar fyrirmyndir þeirra nota slíkar aðferðir? Ég held ekki.
Því miður eru margir fáfróðir um mismunandi afleiðingar uppeldisaðferða. Eins og ég hef oft áður minnst á er gríðarlegur skortur á kennslu og þjálfun í mannlegum samskiptum í skólum og hefur það auðvitað sín áhrif. Börn dagsins í dag eru jú foreldrar morgundagsins.
Tengdar greinar