Óviðeigandi hefð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/05/2003

27. 5. 2003

Er ég einn um það að finnast það kjánaleg, gamaldags og óviðeigandi hefð að alþingismenn hefji starf sitt hvert ár með kirkjuferð? Hvað ef einhver þingmaðurinn er ekki kristinn? Eða eiga allir þingmenn kannski að vera kristnir? Þessi hefð er afar óviðeigandi, sérstaklega í fjölbreyttu samfélagi nútímans. Ég er hræddur um að hinn nýskipaði kirkjumálaráðherra […]

Er ég einn um það að finnast það kjánaleg, gamaldags og óviðeigandi hefð að alþingismenn hefji starf sitt hvert ár með kirkjuferð? Hvað ef einhver þingmaðurinn er ekki kristinn? Eða eiga allir þingmenn kannski að vera kristnir? Þessi hefð er afar óviðeigandi, sérstaklega í fjölbreyttu samfélagi nútímans. Ég er hræddur um að hinn nýskipaði kirkjumálaráðherra sé mér ekki sammála.

Borgaralega gifti forsetinn okkar, Ólafur Ragnar Grímsson, gekk frá dómkirkjunni að alþingishúsinu við hlið biskupsins, enda ,,æsti leikmaður kirkjunnar“. Maður getur ekki annað en brosað vitandi það að Ólafur Ragnar lýsti því yfir á árum áður að hann tryði á manninn enn ekki Guð.

Meðan hefð sem þessi er við lýði er ekki hægt að búast við miklum breytingum í átt að trúfrelsi hér á landi. Aðskilnaður ríkis og kirkju er óumflýjanlegur í lýðræðissamfélagi þar sem allir eru jafnir fyrir lögum. Þetta virðast margir íhaldsmenn ekki skilja og tala um ,,árás á kirkjuna“ í hvert sinn sem minnst er á aðskilnað ríkis og kirkju og trúfrelsi.

Björn Bjarnason, nýskipaður kirkjumálaráðherra, vill alls ekki aðskilnað ríkis og kirkju enda sagði hann í viðtali á Stöð 2 í vikunni að hann væri: ,,mikill þjóðkirkjumaður“. Að maður í svo háttsettri stöðu sem Björn er í skuli nota slík ,,rök“! Þetta er svipað og að segja: ,,Mér finnst að KR eigi að vera þjóðíþróttalið Íslendinga, sem er sértaklega styrkt af ríkinu og varið umfram önnur íþróttalið í stjórnarskrá vegna þess að ég er KR-ingur.“ Þessi líking er vissulega ekki fullkomin en þó viðeigandi.

Björn hefur einnig sýnt það bæði í ræðu og riti að hann telur sig sérstakann verndara kristinna gilda og telur þá sem aðhyllast önnur gildi vera í sérstakri baráttu gegn sinni trú:

,,Ljóst er, að sú tíska gengur einnig yfir Ísland, sem mælir gegn kristnum áhrifum á ungt fólk. Birtist hún í ýmsum myndum og fær liðsinni úr ólíkum áttum. Hér í Reykjavík hafa til dæmis orðið umræður um hlut borgaryfirvalda að borgaralegri fermingu, sem segja má að stefnt sé gegn gildum kristninnar. Þegar um þessi gildi er að ræða eiga stjórnmálamenn ekki að hika við að taka afstöðu með þeim sjónarmiðum, sem reifuð eru í aðalnámskrá grunnskólans. Síst á það við í þessu efni að hlaupa á eftir tískustraumum. Þeir, sem bjóða sig fram til forystu, eiga að hafa þrek til að taka skýra afstöðu í málum, er lúta að rótum lýðræðislegra stjórnarhátta okkar og snerta auk þess kjarna hinna siðferðilegu gilda og byggjast á kristinni trú.“*

Sérhagsmunir eða almannahagsmunir?
Krafan um aðskilnaði ríkis og kirkju er ekki barátta gegn neinu, ekki gegn kirkjunni, kristnum eða fornri hefð. Hér er um að ræða baráttu fyrir jafnrétti, trúfrelsi og umburðarlyndi. Barátta fyrir því að allir séu jafnir og að borin sé jafnmikil virðing fyrir ólíkum lífsskoðunum.

Þeir sem berjast gegn aðskilnaði ríkis og kirkju eru að berjast fyrir sérhagsmunum. Þeir sem vilja berjast fyrir aðskilnaði eru að berjast fyrir almannahagsmunum. Þetta er hinn stóri siðferðilegi munur.

Flestir stjórnmálaflokkar segjast berjast fyrir frelsi, en á meðan þeir berjast fyrir sérhagsmunum gegn almannahagsmunum hafa þeir engan rétt á að eigna sér þetta mikilvæga orð. Frelsi.


*Tekið úr ræðu Björns á Kirkjuþingi 17. október 1995.

Deildu