Menn hafa eðlilega mjög misjafnar skoðanir á orsökum eineltis, og þar með hvað hægt er að gera til að koma í veg að það eigi sér stað. Algeng skoðun er sú að einelti sé foreldrum að kenna: ,,Foreldrar kunna ekki að aga börnin sín,“ ,,Börn læra ekki lengur góða siði heima hjá sér,“ o.s.frv.
Um leið og ég lýsi mig sammála því að það er til fullt af óhæfum foreldrum þá hefur mér þótt tilgangslítið að vera sífellt að tönglast á þessari augljósu staðreynd. Einfaldlega vegna þess að í fyrsta lagi er lítið sem við sem samfélag getum gert við vanhæfum foreldrum og í öðru lagi dregur sú umræða athyglina frá samfélagslegum orsökum eineltis. Orsökum sem við sem samfélag getum brugðist við. Það er auðvitað þægilegt að kenna einstökum foreldrum um allt og ekkert. Það léttir ábyrgðinni af okkur hinum. Okkur líður betur ef við trúum því að ekkert sé að samfélagi okkar, heldur megi kenna einstökum ,,gölluðum eintökum“ um vandann.
Sagan, reynslan og rannsóknir kenna okkur hins vegar að einstaklingurinn er afsprengi þess samfélags sem hann elst upp við. Því er nauðsynlegt að tekist sé á við alvarlega vanda, eins og einelti, með samfélagslegum aðgerðum. Því hlýtur spurningin að vera: ,,Hvað er það í umhverfi og samfélagi barna sem veldur því að einelti á sér stað?“
Skólinn – samfélag barna
Það er staðreynd að í skólum landsins, þessu stærsta samfélagi barna, er nánast ekkert lagt upp úr því að kenna börnum mannlega samskiptahæfileika. Hvernig þau eiga að umgangast annað fólk, hvernig þau eiga að tjá sig, hvernig þau eiga að hlusta á aðra og bera virðingu fyrir öðrum. Þetta hlýtur að teljast meira en lítið undarlegt. Sérstaklega í ljósi þess að það er yfirlýst stefna grunnskólans, samkvæmt grunnskólalögum, að undirbúa börn ,,undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi.”
Hvað getur hugsanlega undirbúið börn undir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi betur en vönduð kennsla í mannlegum samskiptum? Þar sem nánast engin slík kennsla fyrirfinnst í skólakerfinu virðist vera sem menntamálayfirvöldum þyki kennsla í algebru, dönsku, kristinfræðslu og utanbókar ljóðalærdómur mikilvægari en kennsla í samskiptahæfileikum þegar kemur að því að undirbúa ungt fólk undir að takast á við lífið.
Ég ætla að kasta fram þeirri kenningu að orsök eineltis sé fyrst og fremst feimni, skortur á samskiptahæfileikum og almennt agaleysi. Ég ætla í framhaldi af því að kasta fram annarri kenningu. Þeirri að þar sem nánast ekkert sé skipulega gert til að kenna börnum samskiptahæfileika og viðhalda aga í skólum sé einelti eðlileg og sjálfsögð afleiðing skólakerfisins.
En er þetta ekki mál foreldra og uppalenda?
Nú veit ég að margir spyrja: ,,Já en eiga ekki foreldrar að sjá um að kenna börnum sínum aga og mannleg samskipti?”
Svarið við þeirri spurningu er auðvitað jú. Það væri óskandi ef foreldrar gætu séð um að kenna börnum sínum allt sem þau þurfa á að halda til að takast á við lífið. Flestir þeirra geta það hins vegar ekki.
Ástæðurnar eru margar, þó einkum tvær. Í fyrsta lagi hafa ekki allir foreldrar tíma til að kenna börnum þessa hluti, til dæmis vegna mikils vinnuálags. Í öðru lagi skortir þá oft þekkingu til að miðla þessum hæfileikum til barna sinna. Kennsla í mannlegum samskiptum krefst mikillar þekkingar og tíma, ekki síður en kennsla í stærðfræði eða tungumálum. Þetta gleymist oft, eða fólk álítur að allt sem tengist mannlegum samskiptum séu meðfæddir eiginleikar. Það er hins vegar ekki rétt. Ef eitthvað er, þá er flóknara að kenna samskiptahæfileika en t.d. stærðfræði og það tekur líklegast einnig meiri tíma.
Menntastofnanir eru því kjörinn vettvangur fyrir slíka þjálfun og fræðslu. Það er þó að sjálfsögðu ekki við kennara að sakast. Einfaldlega vegna þess að kennarar fá ekki úthlutaðan tíma, né kennslugögn til að takast á við þetta mikilvæga viðfangsefni. Þar að auki er þjálfun kennara í samskiptahæfileikum, í því hvernig á að halda uppi aga í skólastofu og hvernig á að koma fram við börn vægast sagt af skornum skammti.
Gallað skólakerfi
Skólakerfið er beinlínis gallað, jafnvel stórgallað. Ef það á að berjast gegn einelti, og ekki bara einelti, heldur ofbeldi almennt, agaleysi, áhugaleysi nemenda og áfengis- og fíkniefnavanda barna og unglinga verður að gera stórtækar breytingar. Hvorki átök, heimildarmyndir eða einstakir fyrirlestrar eru raunhæfar langtímalausnir.
Ég hef aldrei verið fyrir að finna einstaka blóraböggla til að varpa skuldinni á. Einelti er ekki kennurum, gerendum, skólastjórnendum eða skólastjórum að kenna. Ekki persónulega (nema í slæmum undantekningatilvikum). Einelti er eðlileg afleiðing þess umhverfis sem við setjum börnin okkar í. Ef við setjum tugi og jafnvel hundruð barna á sama stað, stóran hluta úr degi þeirra, án þess að kenna þeim samskiptahæfileika og aga er einelti ekki aðeins eðlileg, heldur jafnvel nauðsynleg afleiðing þess. Þetta er rót vandans.
*Þessi grein var einnig birt í Morgunblaðinu þann 23. maí 2003. (Aðeins fjórum dögum eftir að hún var send á blaðið)