Skilaboð að handan

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/04/2003

7. 4. 2003

Mamma hringdi í mig upp í vinnu í dag og virtist í nokkru uppnámi. Þegar ég spurði hana hvað væri að sagði hún mér að frænka okkar hefði komið í heimsókn með mjög mikilvæg skilaboð. Skilaboð að handan! Mamma tjáði mér að frænka hefði verið á miðilsfundi og miðilinn hefði skipað henni að fara rakleiðis […]

Mamma hringdi í mig upp í vinnu í dag og virtist í nokkru uppnámi. Þegar ég spurði hana hvað væri að sagði hún mér að frænka okkar hefði komið í heimsókn með mjög mikilvæg skilaboð. Skilaboð að handan! Mamma tjáði mér að frænka hefði verið á miðilsfundi og miðilinn hefði skipað henni að fara rakleiðis í heimsókn til okkar, því hér væri eitthvað mikið að.

Þegar ég spurði mömmu hver þessi blessuðu skilaboð hefðu verið, var mér sagt að þau tengdust mér, og það á mjög neikvæðan hátt. Ekki fékk ég nákvæmari upplýsingar um þetta langlínusímtal enda samtalið mjög óljóst. (Ætli Þórhallur miðill hafi ekki verið eitthvað illa tengdur?) Það stóð þó ekki á mömmu og frænku að sjá skýr skilaboð úr þessari dimmu þoku. Nefnilega þau að mér hlyti að líða illa.

Þegar ég sagði mömmu í mjög áhugalausri tóntegund að mér þætti þetta mjög áhugavert spurði hún forviða:,,Já en trúir þú þessu þá ekki?“ Nei, vitaskuld trúi ég þessu ekki. Hvers vegna ætti ég að gera það? Auðvitað líður mér stundum illa. Rétt eins og öllum öðrum. Þar að auki hef ég aldrei leynt því að ég er þunglyndissjúklingur. Því verða þessi skilaboð miðilsins varla talin hvorki merkileg né gagnleg. Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir eru allir ákveðnir í því fyrirfram að trúa orðum ,,miðilsins.“

Mamma fussumsveiaði yfir þessum efasemdum mínum og benti á að langlínusímtalið hefði verið tekið upp á segulband. Ég bauðst því til að hlusta á upptökuna og hef lofað því að fella ekki frekari dóma um málið fyrr en það hefur verið gert.

Ég vona bara að miðillinn hafi fengið leyfi hjá hinum látna (sem ég reyndar gleymdi að spyrja hver var) fyrir því að taka upp samtalið. Því það er víst ólöglegt að taka upp samtal án vitneskju viðmælandans.

Deildu