Ég heiti Sigurður Hólm Gunnarsson, öðru nafni Siggi slef. Það var ég í það minnsta kallaður af bekkjarfélögum mínum í grunnskóla allt þar til ég útskrifaðist. Eða þar til ég var tæplega 16 ára. Ég lenti í einelti nær alla mína grunnskólaævi og það eru ekki ýkjur að segja að sú reynsla hafi haft mikil áhrif á líf mitt og tilfinningar.
Sumir virðast halda að það versta við einelti séu þær líkamlegu barsmíðar sem fórnarlömb verða fyrir. Ég get sagt út frá minni reynslu að ég er þessu algerlega ósammála. Kjaftshögg, spörk og hrindingar meiða vissulega og geta verið stórhættuleg en líkamleg sár virðast gróa hraðar en andleg.
Þau börn sem lenda í slæmu einelti upplifa hræðslu nánast hvern einasta dag. Þau óttast skólann, hræðast bekkjarfélagana og kvíða því á degi hverjum að vera tekin fyrir og sum óska þess eins að verða ósýnileg, að vera ekki til.
Ég var öll mín grunnskólaár í Hólabrekkuskóla og líður mér oftast illa við það eitt að hugsa til þess skóla. Ég á ekki margar góðar minningar þaðan, jafnvel þótt eflaust hafi margt skemmtilegt gerst þar. Einhvern veginn virðist hið neikvæða hafa skotið fastari rótum í huga mínum og blómstrað og hefur tekist eins og illgresi að kæfa jákvæðar minningar og líklegast drepið þær alveg.
Mín grunnskólaár átti ég mér nokkur athvörf. Í frímínútum átti ég það t.d. til að fela mig undir stigum. Stundum eyddi ég óvenjulega miklum tíma inn á klósetti, fór heim allar þær frímínútur sem ég gat og líklegast sló ég met í því að vera veikur. Mér tókst að sannfæra mig og aðra um að ég væri með einhvern kvilla í hverjum mánuði, einhver óþægindi sem ég magnaði svo upp í huganum til að geta sagst, með fullri samvisku, vera veikur. Ég viðurkenni það nú að í mörgum af þeim skiptum sem ég sagðist vera veikur var ég það alls ekki. En það breytir því ekki að mér leið illa. Ekki vegna veikinda heldur vegna eineltis. Hefði ég sagt sannleikann og skrópað, hefði ég án efa verið rekinn.
Fyrir mér voru barsmíðarnar sem slíkar ekki verstar. Það sem var verst var hvernig ég upplifði sjálfan mig allt þar til ég var að verða tvítugur. Ég upplifði mig sem aumingja, óæskilegan, ljótan og almennt óaðlaðandi. Ég var t.a.m. sannfærður um það þar til ég eignaðist mína fyrstu kærustu að engin stelpa hefði áhuga á mér, gæti einhvern tímann haft áhuga á mér. Ég eignaðist mína fyrstu vinkonu þegar ég var tuttugu og eins, þá enn mjög feiminn og óöruggur.
Það sem bjargaði mér, gerði mig að þeim manni sem ég er í dag er margt. Góð og hlý fjölskylda, góðir vinir, sú staðreynd að ég fór í annan framhaldsskóla en bekkjarfélagar mínir úr grunnskóla og innilegt langt ástarsamband sem ég átti eftir að framhaldsskólagöngu minni lauk. Allt þetta hafði þau áhrif að mér leið ekki eins og algjöru fífli, lúða, sem einhverju ömurlegu. Mér leið ekki lengur eins og Sigga slef. Þessir jákvæðu straumar hjálpuðu mér að takast á við lífið og kann ég fyrrgreindu fólki miklar þakkir.
Ég ákvað að taka þátt í gerð þessa þáttar vegna þess að ég man ennþá það loforð sem ég gaf sjálfum mér í grunnskóla. Það loforð að ég myndi láta i mér heyra þegar ég yrði stór og gera eitthvað til að koma í veg fyrir einelti. Þessi þáttur er fyrsta skrefið í því að uppfylla það loforð.