Mér finnst það alltaf mjög áhugavert þegar fréttamenn taka sig til á hátíðisdögum kristninnar og spyrja fólk á förnum vegi hvort það viti hvers vegna viðkomandi dagur er haldinn hátíðlegur. Í langflestum tilvikum hefur fólk ekki hugmyndum um út á hvað kristin trú gengur. Nær allir vita reyndar hvers vegna kristnir halda upp á jól, þ.e. til að minnast fæðingu ,,frelsarans“ en um leið vita fáir að jólin eru upprunalega heiðin hátíð þar sem menn fögnuðu fæðingu sólarinnar. Þar sem Jesú er sólguð var hann ,,látinn“ fæðast á þeim tíma sem dag tekur að lengja á ný. Jólin voru því hátíð til að fagna fæðingu sólarinnar. Enn færri vita að engin sagnfræðileg rök eru fyrir því að Jesú hafi nokkurn tímann verið til, hvað þá verið ,,sonur Guðs“…
Fréttamaður Stöðvar 2 fór í bæjarferð í dag og spurði gangandi vegfarendur hvort þeir vissu hvað á að hafa gerst á hvítasunnudag. Rétt eins og langflestir Íslendingar hafði þetta fólk ekki hugmynd um það. Samt er líklegt að flest telji það sig vera kristintrúar.
Ég get upplýst þau ykkar sem það vilja vita að á hvítasunnudag eiga postularnir að hafa ,,tekið á móti heilögum anda“, hvað sem það nú þýðir. Samkvæmt einu magnaðasta skáldverki allra tíma, Biblíunni, þá töluðu postularnir tungum þennan dag. Þ.e. þeir töluðu guðlegt tungumál sem allir í kringum þá skyldu, hverrar þjóðar sem þeir annars voru. Nokkur þúsund manns eiga að hafa skírst til kristinnar trúar þennan dag og er sá hópur talinn tilheyra fyrsta söfnuði kristinna manna.
Svo er maður stundum gagnrýndur fyrir að vera trúleysingi! Hver trúir svona sögum? Ekki ég. Ég þyrfti í það minnsta vænan skammt af heilögum anda og enn meira af vínanda áður en ég færi að trúa þessari vitleysu.
Ég spyr þig lesandi góður: trúir þú að þetta hafi gerst? Þ.e. að einhverjir menn sem enginn veit hverjir voru hafi fengið yfir sig ,,heilagan anda“ og breyst í gangandi fjölþjóðaorðabók? Ef ekki, þá ertu ekki kristinn. Svo einfalt er það nú.
Gleðilega hátíð!