Eftir að ljóst varð að hryðjuverkamennirnir sem stóðu að árásinni á Bandaríkin þann 11. september voru bókstafstrúaðir múslimar hafa margir, eðlilega, velt fyrir sér tengslum trúarbragða og siðmenningar. Þær raddir gerast sífellt háværari sem telja að trúarbragðastríð sé yfirvofandi, stríð milli bókstafstrúaðra múslima og kristinnar siðmenningar. Þessar vangaveltur um yfirvofandi trúarbragðastríð tveggja útbreiddustu trúarbragða heims hafa haft í það minnsta tvær ranghugmyndir í för með sér. Í fyrsta lagi að menning múslima þurfi endilega að fela í sér ofsatrú og villimennsku og í öðru lagi að hin vestræna siðmenning sé til komin vegna trúarbragða kristinna.
Tengsl kristni og siðmenningar
Því er oft haldið fram að með kristinni trú hafi Vesturlandabúar fyrst kynnst siðmenningu. Enn fremur er því oft haldið fram að kærleikur, samhjálp og í raun allt velferðarsamfélagið sé afsprengi kristninnar. Í íslenskri tungu tákna orðin kristni og siðferði í ákveðnu samhengi nær það sama í huga almennings eða eru í það minnsta nátengd. Þessu til marks má benda á orðasamböndin ,,kristilegt siðgæði“ eða ,,kristinn kærleikur“. Útbreiðsla og áhrif þessara hugtaka eru svo mikil að það stendur meira að segja í lögum um grunnskóla að starfshættir skóla eigi að mótast af kristilegu siðgæði. Hér er gefið í skyn að siðgæði sé varla til nema það sé kristilegt.
Þó að þessi hugmynd um að trúarbrögð kristinna manna hafi fært veröldina úr sótsvörtu myrkrinu inn í birtu kærleika og umburðalyndis sé útbreidd þá er hún ekki alls kostar sönn. Þvert á móti má rökstyðja að velferð og velmegun nútímans sé tilkomin þrátt fyrir kristni en ekki vegna hennar. Hægt er að benda á fjölmargt þessu til stuðning og verður hér tæpt á því helsta.
Orsök og afleiðing
Auðvelt er að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að boðskapur kristninnar hafi verið orðinn sæmilega útbreiddur í Evrópu um miðja fjórðu öld þá bólaði ekki á lýðræði, velmegun, frelsi, velferð og ,,kristilegum“ kærleik fyrr en seint á þar síðustu öld. Hér er því afar erfitt að álykta að um orsakasamband milli kristninnar og velferðar sé að ræða. Við verðum einfaldlega að horfast í augu við það að virðing fyrir réttindum og frelsi manna í Evrópu varð vart til fyrr en á 19. öld kristninnar. Enn fremur er það staðreynd að vegur frelsis og mannréttinda hefur aukist, allt fram á þennan dag, um leið og vald kirkjunnar og trúarbragða hefur dvínað.
Kristilegur kærleikur í ljósi sögunnar
Saga kirkjunnar er bæði svört og siðlaus, og sá tími sem trú manna var sem mest og kirkjan var allsráðandi er sá tími sem við köllum nú hinar myrku miðaldir. Kristin trú náði útbreiðslu með ofbeldi og valdbeitingu og helstu talsmenn hennar hafa því miður, margir hverjir, verið allt annað en góðir menn.
Ekki þarf annað en að lesa sagnfræðibækur til þess að komast að því að velferðarsamfélag nútímans varð til þrátt fyrir áhrif bókstafstrúarmanna en ekki vegna þeirra. Eftir að kirkjan náði völdum í Evrópu var þekking litin hornauga og vísindamenn og heimspekingar annað hvort hraktir í útlegð eða drepnir.
Eitt af elstu og átakanlegustu dæmunum um árás kristintrúarmanna á boðbera þekkingar og vísinda er þegar Hypatia, sem var síðasti vísindamaðurinn sem starfaði í hinu mikla bókasafni í Alexandríu og ein merkasta kona þess tíma, var myrt af erkibiskupinum Cyril og söfnuði hans.
Söfnuðurinn réðst á Hypatiu árið 415 þegar hún var á leið til vinnu. Brjálaður múgurinn reif af henni fötin, skrapaði af henni holdið með skeljum og brenndi síðan restina af líkamsleifum hennar á báli. Fáir vita í dag hver Hypatia var en erkibiskupinn yfir Alexandríu var tekinn í dýrlingatölu.
Ofangreint dæmi er hvorki einstakt né sérstakt í ljósi sögunnar. Kirkjan hefur barist hatrammlega gegn vísindum, framförum og þekkingu allt fram til dagsins í dag. Sérhver nýjung, sérhver hugsuður og öll sú þekking sem ekki var að finna í hinni helgu bók var talin runnin undan rifjum djöfulsins og því hættuleg.
Heilög stríð og krossfarir
Osama bin Laden hefur sagt að hann sé stríðsmaður Allah í heilögu stríði gegn hinum vestrænu heiðingjum og krossförum. Með þessu reynir bin Laden að sækja stuðning til trúbræðra sinna í Mið-Austurlöndum og annars staðar. Óttast margir að bin Laden takist að koma af stað allsherjar trúarbragðastríði með þessum áróðri. Ólíklegt hlýtur þó að teljast að honum takist það ætlunarverk sitt af ýmsum trúarlegum og stjórnmálalegum aðstæðum í hinum múslimska hemi. Vísun bin Ladens í krossferðir kristintrúarmanna gegn múslimum á miðöldum verður þó að teljast snjall leikur því hún minnir múslima á styrjaldarátök þessara tveggja trúarbragða þar sem hinir kristnu voru óumdeilanlega hrottar og stríðsglæpamenn.
Múslimar sem voru og eru eingyðistrúar trúðu svo sannarlega ekki á hina heilögu þrenningu og voru því réttdræpir í augum kristinna á miðöldum. Þar að auki höfðu múslimar náð yfirráðum yfir hinum svokölluðu helgu löndum kristintrúarmanna. Vegna þessa háðu kristnir blóðug stríð við múslima sem við þekkjum sem krossfarirnar. Krossfarirnar voru miskunnarlausar slátranir þar sem engum var hlíft. Í dag eru kristnir Vesturlandabúar gjarnir á að gagnrýna heittrúaða múslima í Mið-Austurlöndum og saka þá um villimennsku og jafnvel skort á ,,kristilegu siðgæði“. Þeim sem svo tala mætti brigsla um sagnfræðilegt minnisleysi því krossfarir kristinna manna voru ekkert annað en slátranir sem voru framkvæmdar í nafni Guðs.
Samskiptin við gyðinga
Í fjölmiðlum er lögð mikil áhersla á að fjalla um þá andstyggð sem múslimar í Mið-Austurlöndum hafa á gyðingum og Ísraelsríki. Í dag eru gyðingar í Ísrael umkringdir óvinveittum múslimum og treysta mikið á stuðning bandamanna sinna í vestri. Stuðningsþjóðir gyðinga hafa verið Bandaríkin, Bretland og ýmis önnur ,,kristin“ Evrópulönd sem stutt hafa Ísraelsríki opinberlega allt frá því að það var stofnað árið 1948. Þessi stuðningur kristintrúarmanna við gyðinga er þó frekar nýlega til kominn. Gyðingar voru lengst af hataðir og ofsóttir af kristintrúarmönnum og kristnum yfirvöldum.
Hatur sumra múslima á gyðingum í dag má fyrst og fremst rekja til stjórnmálalegra ástæðna en ekki trúarlegra. Þetta sést best á því að gyðingar bjuggu við sæmilegan frið í mörgum löndum múslima allt fram á miðja síðustu öld. Það er aðallega stofnun Ísraelsríkis í Palestínu og útþenslustefna þess sem hefur farið fyrir brjóstið á mörgum þjóðernissinnuðum aröbum sem telja gyðinga ekki eiga neitt tilkall til þess landsvæðis sem Ísraelsríki er byggt á. Sú afstaða hlýtur að teljast að einhverju leyti skiljanleg þar sem einu rökin sem gyðingar hafa til að réttlæta ríki sitt í Palestínu eru þau að guð þeirra hafi gefið þeim landið fyrir nokkur þúsund árum.
Óþol kristinna manna gagnvart gyðingum í aldanna rás átti sér frekar trúarlegar rætur þar sem þeir hafa löngum sakað gyðinga um að hafa myrt Jesú, frelsara þeirra. Marteinn Lúter, sá hinn sami og Þjóðkirkja Íslendinga er nefnd eftir, var t.d. á sínum tíma einna þekktastur fyrir áróður sinn gegn gyðingum. Hann gaf m.a. út bókina ,,Um gyðinga og lygar þeirra“ en í henni lagði hann til að gyðingum yrði meinað með líflátshótunum að iðka trú sína. Hann lagði einnig til að bænahús gyðinga yrðu brennd, allt í nafni trúarinnar. Þegar Hitler hóf ofsóknir sínar gegn gyðingum í þriðja ríkinu var hann því alls ekki að boða nýja stefnu í málefnum gyðinga í Evrópu. Hitler og Lúter voru skoðanabræður í málefnum gyðinga enda vitnaði Hitler iðulega í Lúter í áróðursræðum sínum.
Menningararfleifð múslima
Í ljósi ástands heimsmála í dag kann það að koma mörgum á óvart að múslimar og menning þeirra átti stóran þátt í því að hinar myrku miðaldir liðu undir lok í Evrópu. Múslimar varðveittu þekkingu og menningu forn -Grikkja og -Rómverja frá eilífri glötun og ef ekki hefði verið fyrir umburðarlyndi og þekkingarþorsta múslima á miðöldum hefði endurreisn sú sem hófst á 16. öld í Evrópu líklegast aldrei orðið að veruleika.
Margir þeir sem halda því fram að vestræn siðmenning sé kristinni trú að þakka rökstyðja mál sitt stundum með því að benda á ástand mála í helstu löndum múslima. Réttilega er bent á að í mörgum löndum Múhammeðs ríkir einræði og mannréttindabrot á borð við ritskoðun, ofbeldi og morð eru sumstaðar tíð. Afganistan, Saudi-Arabia, Kuwait og Írak eru nokkur lýsandi dæmi um þetta ástand.
Þó að það sé vissulega rétt að í dag er frelsi og réttindi manna af skornum skammti í mörgum af löndum múslima samanborið við það sem gengur og gerist í löndum þar sem kristni er hvað útbreiddust, þá er þessi veruleiki frekar nýr og óvenjulegur í sögulegu samhengi. Því eins og áður hefur verið minnst á þá var það svo að frá því að kristni breiddist út á miðri fjórðu öld og allt þar til kom að 18. og 19. öld voru kristin samfélög þekkt fyrir allt annað en frelsi og mannréttindi. Í Evrópu undir stjórn Kaþólsku kirkjunnar voru bækur að jafnaði hvorki skrifaðar né lesnar heldur brenndar. Sömu örlög hlutu þeir sem fylgdu ekki kenningum kirkjunnar í einu og öllu.
Þótt ýmsum kunni að finnast það ótrúlegt þá var ástand mála um flest mun betra í löndum múslima á miðöldum en í löndum þeim þar sem hin kristna kirkja var við völd. Eitt besta dæmið um þetta er blómaskeið Spánar undir stjórn múslima. Þegar múslimar náðu yfirráðum yfir Spáni árið 711 þróaðist menningarsamfélag þar sem varð langt um merkilegra en nokkuð annað samfélag sem fyrirfannst annars staðar á meginlandi Evrópu. Undir stjórn múslima voru skólar og þekkingarmiðstöðvar byggðar sem allir höfðu aðgang að og ólíkt því sem gerðist annars staðar í Evrópu á þessum tíma þá hvöttu múslimar til þekkingarleitar.
Á meðan Spánn var undir stjórn múslima ríkti svo gott sem trúfrelsi þar því gyðingar og kristnir fengu, rétt eins og múslimar, að iðka sína trú óáreittir. Áður en múslimar náðu yfirráðum á Spáni voru gyðingar hins vegar ofsóttir af kristnum yfirvöldum og sú varð aftur raunin þegar kristnir höfðingjar náðu þar völdum aftur árið 1492. En þá náðu þeir algerum yfirráðum yfir Granada, seinasta vígi múslima á Spáni.
Á Spáni varð Cordova menningarstórborg Evrópu undir stjórn hófsamra múslima og hvergi annars staðar í okkar heimsálfu var að finna eins hreina og víðáttumikla borg. Vel byggðir vegir, gróskufullir almenningsgarðar og hundruð almenningsböð einkenndu borgina. Spítalar og góðgerðarstofnanir voru reistar og lögð var áhersla á að íbúar hefðu aðgang að hreinu neysluvatni. Á tímabili bjuggu um milljón manns í Cordova og var hverju einasta barni þar kennt að bæði lesa og skrifa. Tuttugu og sjö skólar fyrir fátæka voru starfandi og um leið 70 bókasöfn. Í stærsta bókasafninu voru um það bil 500.000 bækur. Á meðan, í hinni kristnu Evrópu er talið að aðeins um eitt prósent íbúanna hafi kunnað að lesa auk þess sem sápur og böð voru nær óþekkt fyrirbrigði. Meira að segja inni á heimilum aðalsmanna.
Það þarf því ekki að koma á óvart að í þessu umhverfi urðu til og störfuðu margir merkir fræðimenn úr heimi vísinda, heimspeki og læknisfræði. Abulcasis (936-1013) gerði t.a.m. tímamótarannsóknir í skurðlækningum og Isaac (sem eins og nafnið gefur til kynna var gyðingur) skrifaði merkilegustu grein um hitasótt sem skrifuð hafði verið á þessum tíma. Þúsundir annarra fræðimanna störfuðu á Spáni undir umburðalyndri stjórn múslima.
Þetta merka menningartímabil múslima á Spáni var augljóslega tímabil upplýsingar en ekki strangtrúnaðar. Upplýstir múslimar fylgdu ekki Kóraninum (trúarbók múslima) bókstaflega ekki frekar en meirihluti Evrópubúa nútímans fylgir Biblíunni bókstaflega. Múslumar drukku margir hverjir vín (en neysla alkahóls er stranglega bönnuð í Kóraninum) og lásu klassísk verk forn Grikkja samhliða Kóraninum.
Þegar leið á 11. öld fór að halla undan fæti í ríki múslima er þeir hófu að missa landsvæði yfir til kristinna höfðingja. Veldi múslima á Spáni leið svo fyllega undir lok þegar þeir töpuðu Granada árið 1492. Saga Spánar undir stjórn páfa þekkja flestir. Spánski rannsóknarrétturinn var settur á lagginar árið 1478 af frumkvæði Sixtus IV páfa með þeim afleiðingum að það trú- og skoðanafrelsi sem hafði ríkt á Spáni varð að engu. Þeir gyðingar og múslimar sem enn bjuggu á Spáni voru neyddir til að skipta um trú og að minnsta kosti 150.000 gyðingar flúðu land. Þannig lauk blómaskeiði Spánar á miðöldum.
Það ljós þekkingar sem múslimar tendruðu á Spáni dó hins vegar aldrei algerlega út og átti sú ljóstýra sem eftir lifði eftir að lýsa allri Evrópu áður en að langt um leið. Eftir að kristnir náðu aftur yfirráðum yfir Spáni breiddist sú þekking sem múslimar höfðu verndað og ræktað smám saman til Frakklands og Ítalíu og varð að lokum kveikjan að endurreisnartímabilinu sem markaði endalok hinna myrku miðalda.
Siðgæði byggist á þekkingu
Niðurstaða undirritaðs er að siðmenning þar sem frelsi er ríkjandi og virðing er borin fyrir náunganum er ekki afsprengi kristni, islam né annarra trúarbragða. Blómaskeið múslima á miðöldum einkenndist af umburðarlyndi og hófsemi í trúmálum en ekki bókstafstrú. Sama getum við sagt um það menningartímabil sem við vesturlandabúar búum við í dag. Umburðalyndi í trúmálum er ríkjandi og stjórnvöld eru veraldleg en ekki kirkjuleg. Sagan kennir okkur að undir þessum kringumstæðum nær menningarlíf og siðmenning að blómstra.
Góðar siðareglur verða til vegna reynslu manna og skilnings þeirra á því hvernig best sé að koma fram við náungann. Það þarf engar guðlegar leiðbeiningar til að átta sig á því að það er skynsamlegt að koma fram við aðra eins og maður vill láta koma fram við sig. Rökhugsun og viljinn til að læra af reynslunni er allt sem þarf. Góðar siðareglur eru alþjóðlegar og eiga alls staðar jafn vel við, því þær eru byggðar á skynsemi en ekki kreddum. Það verður ekki fyrr en þorri almennings um heim allan áttar sig á þessari staðreynd sem við getum búist við að friður komist á milli mismunandi trúarhópa.
Í einræðisríkjum er menntun yfirleitt af skornum skammti og frelsi til athafna og tjáningar takmarkað. Í þessu umhverfi þrífst fáfræði. Fáfræði, en ekki einstök trúarbrögð, er versti og jafnframt sameiginlegur óvinur alls mannkyns. Óvinur sem allar þjóðir heims ættu að sameinast gegn. Fordómar, hatur, umburðarlyndisskortur, bókstafstrú og fátækt eru yfirleitt hægt að rekja til fáfræði. Þennan óvin er ekki hægt að vinna bug á með sprengjum eða byssukúlum. Menntun er eina raunhæfa vopnið í baráttunni við fáfræði.
Því hefur það lengi verið skoðun undirritaðs að heimspeki eiga að vera lögð til grundvallar í menntun allra barna óháð því hvar á hnettinum þau búa eða hvaða trúarbrögðum þau tilheyra. Með heimspeki á ég við skipulagða kennslu í rökfræði, tjáningu og siðfræði. Að mati undirritaðs vanrækja menntastofnanir yfirleitt að kenna börnum það sem mikilvægast er og ætti að vera aðal tilgangur með námi, það er að kenna börnum að vera manneskjur. Að kenna þeim að bera umhyggju hvert fyrir öðru og hvers vegna sú framkoma er skynsamleg (siðfræði), að hvetja þau til þess að leita sannleikans með því að hugsa sjálfstætt og um leið að vera gagnrýnið á skoðanir sjálfs síns jafnt sem annarra (rökhugsun) og að veita þeim þjálfun í að tjá skoðanir sínar og hugsanir á fimlegan og röklegan hátt (tjáning). Slík menntun sem mótar rökfasta og umburðarlynda einstaklinga er öðru fremur lykillinn að siðmenningu þar sem fordómaleysi og velmegun vill ríkja.