Ljóst er að nóg verður að gera á næstu dögum hjá ríkissaksóknara við að undirbúa mál gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttalögmanni. En þegar lögmaðurinn var spurður, í morgunþætti Stöðvar 2 í fyrradag, hvernig ætti að bregðast við fíkniefnavandanum ógurlega svaraði hann eitthvað á þá leið að við ættum að bregðast við vandanum eins og siðað fólk en ekki eins og Afríkumenn sem reyna að redda hlutunum billega fyrir sjálfan sig. Svo mörg voru viskuorð hins knáa málflutningsmanns.
Eins og lesendur vita þá er það komið í tísku að kæra þá sem tala kjánalega um minnihlutahópa og fólk af öðrum kynþætti. Skemmst er að minnast þess þegar mannvitsbrekkan sem vermir varaformannsembætti Félags íslenskra þjóðernissinna var kærð og sakfelld fyrir niðrandi ummæli sín um Afríkubúa í DV í fyrra. Varaformaðurinn sagði: ,,Það þarf engan snilling eða erfðafræðivísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi.“
Jafnrétti fyrir lögum?
Við erum því hér með tvö háalvarleg brot, eða þannig. Í fyrsta lagi aðdróttanir einhvers unglingskjána um að Afríkubúar gangi um með prik og í öðru lagi glósur frá þekktum og virtum miðaldra lögfræðingi (og besta vini forsætisráðherra) um að Afríkubúar séu ekki siðmenntaðir eins og við hin.
Nú er sá sem þetta skrifar ekki löglærður maður en honum þykir full ástæða til að ríkissaksóknari kæri Jón Steinar fyrst honum þótti nauðsynlegt að vanhelga tjáningarfrelsið og kæra ,,litla Hitler“ í fyrra. Í fyrsta lagi hlýtur það að teljast alvarlegra ,,brot“ að gefa í skyn að Afríkubúar séu ekki siðmenntaðir en að gefa í skyn að þeir gangi um með prik og í öðru lagi þá taka sumir mark á Jóni Steinari sem þýðir að ummæli hans gætu haft einhver áhrif.
Samkvæmt 1. málsgrein 65. greinar stjórnarskrárinnar er víst kveðið á um að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum:
,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“
Því hlýtur það að vera rökrétt að álykta að Jón Steinar eigi yfir höfði sér ákæru fyrir að nýta sér málfrelsi sitt með þessum kjánalegu ummælum. Nema að lögfræðingar hafi rýmra málfrelsi en krúnurakaðir sjómenn? Spyr sá sem ekki veit.