Hverjir sólunduðu?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

05/06/2001

5. 6. 2001

Þrátt fyrir að kristnihátíð sé afstaðin eru menn enn reiðubúnir að ræða um hana. Björn Erlingsson heitir maður sem skrifar í laugardagsblað Morgunblaðsins og finnur að því hvernig um hana hefur verið fjallað í fjölmiðlum. Honum þykir kyndugt að meira hafi verið fjallað um kostnað við hana heldur en innihald hennar og segir að þeir […]

Þrátt fyrir að kristnihátíð sé afstaðin eru menn enn reiðubúnir að ræða um hana. Björn Erlingsson heitir maður sem skrifar í laugardagsblað Morgunblaðsins og finnur að því hvernig um hana hefur verið fjallað í fjölmiðlum. Honum þykir kyndugt að meira hafi verið fjallað um kostnað við hana heldur en innihald hennar og segir að þeir sem hafi sólundað á kristnihátíð séu ekki þeir sem að henni stóðu heldur þeir sem ekki sóttu hana.


Kostnaður og innihald
Ég verð að viðurkenna að ég er í flestum ef ekki öllum atriðum ósammála Birni. Mér þykir það til fyrirmyndar að fjölmiðlar hafi tekið saman kostnað við kristnihátíð og greint almenningi frá honum. Mér finnst líka til fyrirmyndar að kostnaður við landafundahátíð og fleiri uppákomur hefur verið kynntur fyrir almenningi. Fjölmiðlum ber einfaldlega skylda til þess að upplýsa almenning um gang mála til að almenningur geti tekið afstöðu til þeirra. Einn liður í því er að greina ekki aðeins frá því hvað er gert heldur einnig hversu mikið það kostar.

Það fór líka svo að stærstum hluta almennings virðist hafa ofboðið fjárausturinn í kristnihátíð. Það er ekki nóg með að fólk hafi haldið sig fjarri hátíðarhöldunum á Þingvöllum heldur spurði það sjálft sig og aðra hvaða þörf væri á því að verja fé í að minnast þess að kristni hefði verið lögtekin. Upp til hópa virðist fólk ekki hafa fundið þörf hjá sér til að minnast þessara tímamóta. Í það minnsta ekki með þeim hætti sem Þjóðkirkjan og stjórnvöld vildu.

Það var vissulega fjallað um innihald kristnihátíðar þó Björn vilji gera minna úr því en efni standa til. Ekki aðeins var fjallað um þá atburði sem áttu sér stað á Kristnihátíðarári og hugmyndina að baki mörgum þeirra heldur var einnig fjallað um innihaldið sem Björn hefur sennilega ekki verið jafn hrifin af að fengi umfjöllun. Þannig var til dæmis velt upp spurningunni um hvort nóg væri um það fjallað að verið væri að halda upp á afnám trúfrelsis. Ég hefði reyndar viljað sjá gert meira úr þeirri spurningu en raun ber vitni og ræður þar mestu að hingað til hef ég talið það fremur vafasamt að fagna mannréttindabrotum sem einhverjum framfaraskrefum.

Lítilsvirðing?
Birni verður tíðrætt um þátt barna í kristnihátíðinni og lýsir mikilli ánægju sinni með hversu virkan þátt þau tóku og hvernig skólar skipulögðu ýmsa starfsemi í tengslum við kristnihátíðarárið. Honum virðist þó aldrei detta í hug að spyrja sig hvort það sé réttlætanlegt að skólabörn séu látin taka þátt í trúarlegum athöfnum og öðrum athöfnum sem eru til þess fallnar að upphefja ein trúarbrögð öðrum fremur. Í grein sinni segir Björn: „Börnunum, sem nutu þess að leggja sitt af mörkum, hefur verið sýnd lítilsvirðing með lágreistri umfjöllun um hátíðarhöldin…“ Ég er honum alfarið ósammála. Mér finnst fremur að börnunum og fjölskyldum þeirra hafi verið sýnd lítilsvirðing með skipulagðri kristnihátíðarstarfsemi í skólum þar sem ætlast var til þess að nemendur tækju þátt án tillits til lífsskoðana þeirra og fjölskyldna þeirra. Það eru fjölmargir foreldrar sem ekki ala börn sín upp í kristnum sið og því siðlaust að grunnskólar í samvinnu við sóknarfélög eins trúfélags séu að svipa þá forræði yfir uppeldi barna sinna að þessu leiti.

Var kristnihátíð réttlætanleg?
Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel ríkisvaldið eiga að sinna ýmsum verkefnum og tryggja ýmsa þjónustu. Það þýðir þó ekki að ríkisvaldið eigi að vera að vasast í hverju sem er. Eitt af því er trúarlíf almennings. Ríkisvaldið á vissulega að tryggja hverjum sem er rétt til að iðka trú sína en það er vafasamt að ætlast til þess að ríkisvaldið fari að styðja trúfélög sérstaklega. Áður en stjórnmálamenn tóku afstöðu til þess að láta ríkisvaldið fjármagna kristnihátíð hefðu þeir átt að spyrja sig nokkurra spurninga.

1. Á ríkisvaldið að styðja ein trúarbrögð öðrum fremur?
2. Á ríkisvaldið að sjá um fjármögnun trúfélaga?
3. Á ríkisvaldið að fjármagna hátíðir trúfélaga?
4. Var ástæða til að fagna því að árþúsund var liðið frá afnámi trúfrelsis?
5. Eiga grunnskólar að taka þátt í trúarlegri innrætingu?

Listinn hér að ofan er engan veginn tæmandi. Mér þykir þó ljóst að öllum þessum spurningum hefði þurft að svara játandi til að réttlæta hvernig staðið var að kristnihátíð. Líklega kemur það engum á óvart að ég hefði svarað þeim öllum neitandi.

Deildu