Formaður Félags íslenskra þjóðernissinna hefur í hótunum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/04/2001

17. 4. 2001

Ég krefst þess einfaldlega að þú dragir þessi orð þín til baka opinberlega annars mun ég sjá til þess að komið verði í veg fyrir frekari frama þinn hér á landi… Og þú getur tekið þessu sem hótun. Hvað ertu að gefa í skyn? Ertu í alvörunni talað að hóta mér? Hvernig þykist þú ætla […]

Ég krefst þess einfaldlega að þú dragir þessi orð þín til baka opinberlega annars mun ég sjá til þess að komið verði í veg fyrir frekari frama þinn hér á landi… Og þú getur tekið þessu sem hótun.

Hvað ertu að gefa í skyn? Ertu í alvörunni talað að hóta mér? Hvernig þykist þú ætla að koma í veg fyrir minn ,,frama“ eins og þú orðar það?

Já þetta er hótun. Þú veist fullvel hvernig fólk stendur á bak við mig í þessu og þú veist hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í þessum heimi.

Hvers konar hótun er þetta?

Það kemur bara í ljós þegar að því kemur. Ég skil ekki hvernig þér er stætt á þessu. Þú sem hefur sjálfur talað um að við séum ofbeldisfullir nasistar.

Já og hvað með það?

Bara það að ef þú dregur ekki orð þín til baka opinberlega þá tökum við til okkar ráða.

Þannig hljómaði hluti af því samtali* sem undirritaður átti við Jón Vigfússon, formann Félags íslenskra þjóðernissinna, á föstudaginn langa.

Forsaga
Þann 19. febrúar síðastliðinn ritaði undirritaður grein (Þegar varðhundar lýðræðisins bregðast) þar sem fjölmiðlar voru gagnrýndir fyrir þá linkind sem þeir hafa sýnt talsmönnum Félags íslenskra þjóðernissinna. Þar fullyrti ég að ég hefði áreiðanlegar heimildir fyrir því að ýmsir innan þessa félagsskapar hafi stundað ofbeldi gegn ,,lituðu fólki“ auk þess sem ég vissi til þess að flestir þeirra afneiti slátrun nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Ég stend enn fast við þessar fullyrðingar.

Orð mín hafa greinilega komið félögum í FÍÞ illa og því hefur formaður félagsins ákveðið að hringja í mig í þeim tilgangi einum að þagga niður í mér.

Jón Vigfússon og félagar hans kunna að halda að þeir séu fótgönguliðar Hitlers í Þriðja ríkinu þar sem þeir komast upp með að hafa í hótunum við þá sem þeir óttast. Ég vil því vera fyrstur manna til að leiðrétta þann misskilning. Þær hótanir sem ég fékk í gegnum símann eru lögbrot hvernig sem á það er litið og hafa lögfróðir menn lagt að mér að leggja fram kæru.

Hótun mætt með loforði
Formaður FÍÞ sagði í lok símtalsins að hann hyggðist gefa mér nokkra daga til þess að draga orð mín til baka áður en að hann og félagar hans tækju til sinna ráða.

Ég get lofað Jóni Vigfússyni að ég mun aldrei draga orð mín til baka enda engin efnisleg ástæða til þess og það veit hann ósköp vel sjálfur. Ég get einnig lofað honum að hann mun ekki komast upp með að hóta mér og öðrum þeim sem gagnrýna hann og rasískar skoðanir hans.

*Undirritaður skráði símtalið við Jón Vigfússon niður á blað stuttu eftir að því lauk.

Hér fyrir neðan er svo hægt að lesa þær greinar og þau samskipti sem undirritaður hefur átt við Félag íslenskra þjóðernissinna. Greinar sem EKKI verða dregnar til baka:

Deildu