Þegar varðhundar lýðræðisins bregðast

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/02/2001

19. 2. 2001

Í síðasta helgarblaði DV birtust tvær greinar sem vöktu áhuga minn og undrun. Fyrst ber að nefna forsíðuviðtal við varaformann Félags íslenskra þjóðernissinna sem bar vægast sagt vott um slaka rannsóknarvinnu af hálfu blaðamanns. Einnig las ég viðtal við Guðrúnu Ögmundsdóttir, þingmann Samfylkingarinnar, þar sem hún lýsti áhyggjum sínum yfir vaxandi fordómum Íslendinga í garð […]

Í síðasta helgarblaði DV birtust tvær greinar sem vöktu áhuga minn og undrun. Fyrst ber að nefna forsíðuviðtal við varaformann Félags íslenskra þjóðernissinna sem bar vægast sagt vott um slaka rannsóknarvinnu af hálfu blaðamanns. Einnig las ég viðtal við Guðrúnu Ögmundsdóttir, þingmann Samfylkingarinnar, þar sem hún lýsti áhyggjum sínum yfir vaxandi fordómum Íslendinga í garð innflytjenda. Hennar lausn var í ætt við flestar aðrar þær ,,lausnir“ sem atvinnupólitíkusar bjóða upp á þegar kemur að félagsmálum, þ.e. harðsoðnar og gagnslausar. Er von að maður hafi áhyggjur þegar stjórnmálamenn og blaðamenn, sem augljóslega gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki, bregðast aftur og aftur?

Hvar er íslensk rannsóknarblaðamennska?
Í fyrrgreindu viðtali blaðamanns DV við varaformann FÍÞ brást hann gjörsamlega þeirri skyldu sinni að uppfræða almenning um fyrir hvað þetta ógeðfellda félag stendur. Í staðinn fékk varaformaðurinn frjálsan aðgang að einum útbreiddasta fjölmiðli landsins til að auglýsa sína opinberu og ,,fjölmiðlavænu“ útgáfu af stefnuskrá félagsins.

Ég skal reyndar viðurkenna það að flestir hugsandi einstaklingar hljóta að sjá í gegnum málflutning varaformannsins í þessu viðtali þegar hann segist ekki hafa neina fordóma gagnvart innflytjendum. En það er bara ekki nóg.

Með SMÁ rannsóknarblaðamennsku gætu fréttamenn auðveldlega uppljóstrað að félagar og forvígismenn FÍÞ eru alvöru ofbeldisfullir nasistar þrátt fyrir að þeir haldi öðru fram.

Samkvæmt ýmsum áreiðanlegum heimildum, sem undirritaður hefur aflað sér, hafa félagar í FÍÞ stundað það að ráðast á og ganga í skrokk á ,,lituðu“ fólki og gorta sig af því í þokkabót.

Þeir eru líka allir, svo best sem undirritaður kemst næst, sannfærðir um að helförin hafi aldrei átt sér stað. Þeir telja að gyðingar hafi skáldað þetta meira og minna til að láta umheiminn vorkenna sér. Svo telja þeir að Hitler sé lítið annað en saklaust fórnarlamb fjölmiðlaofsókna.

Þegar þeir lýsa því yfir að þeir séu lausir við fordóma en vilja bara ekki fjölþjóðlegt samfélag verður mér óglatt, sérstaklega þegar blaðamenn láta þá komast upp með þessar fullyrðingar. Því þær eru augljóslega lygar samanber eftirfarandi orð formanns FÍÞ (sjá Þjóðernissinnar svara):

,,Hvað varðar útlendinga af öðrum en evrópskum uppruna er það nær eingöngu vel skrásett háttalag þeirra hvar sem þeir drepa niður fæti sem ,,angrar okkur.“ Vonum við að þeir hljóti að vera búnir að fá það mikla útrás fyrir niðurrifshvatir sínar í flestum þjóðfélögum „

,,Litarhaft manna er okkur ekkert hjartans mál, það skipti engu máli þó Afríku og Asíubúar kæmu allir snjóhvítir úr klórbaði, þeirra innræti og hátterni yrði það sama.“

,,Við getum jafnvel átt von á því í framtíðinni að þurfa að halda upp á Purim og fara með Kol Nidre fyrst við erum komin með gyðing inn á Bessastaði.“

,,Bara það að hér sé reglulega gengist fyrir sníkjuherferðum til styrktar VANÞRÓUÐUM löndum er ágætis dæmi um þann reginmun sem er á hvítu fólki og öðrum. Helsti galli hvíta mannsins er sá að umburðarlyndi okkar gagnvart öðrum er orðið það mikið að við erum farin að ganga nærri okkar eigin fólki til að fullnægja ,,mannúðarsjónarmiðum“ fólks sem er ekki í neinum tengslum við uppruna sinn eða veruleikann yfir höfuð.“

,,Ættleiðingum afrískra og asískra barna erum við ekki frekar á móti en hundahaldi.“

eftir minni (þetta sagði formaður FÍÞ við undirritaðan í útvarpsþætti á Bylgjunni þann 6. nóvember 2000):
,,Það er engin tilviljun að hvíti maðurinn hefur náð lengra en Afríkubúinn. Það hefur þurft að kenna Afríkubúanum að búa til hjólið þrisvar, en hann lærir það aldrei“

undirritaður svarar:
,,og þetta eru ekki fordómar?“

formaður FÍÞ:
,,Nei, þetta er sannleikurinn!“

Ég skil ekkert í aumingjaskapnum í íslenskum blaðamönnum. Þessir nasistar hafa svo oft talað af sér að viðtöl við þessa menn ættu aldrei að snúast um stefnumál þeirra, heldur um þá sorglegu staðreynd að þessir menn eru ofbeldis- og fordómafullir rasistar sem eiga bágt yfir því hvað þeir hata mikið. Hvers vegna í ósköpunum á að spyrja þá um stefnumál þeirra? Það er nokkurn veginn eins og að spyrja stjórnmálaflokk barnaníðinga og nauðgara um hver stefna þeirra sé í kynferðismálum.

Svokölluðu lausnir stjórnmálamanna
Guðrún Ögmundsdóttir og aðrir ágætir stjórnmálamenn vilja auðvitað allir ,,uppræta vandann“ og ,,koma í veg fyrir fordóma“. En þegar stjórnmálamenn uppljóstra til hvaða aðgerða þeir vilja taka er ekki laust við að það læðist að manni sá grunur að þeir hafi lítið sem ekkert vit á því út á hvað málið snýst.

Guðrún bendir t.d. velviljuð á að kenna þurfi börnum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til að fyrirbyggja fordóma. Auðvitað er þetta vel meint hjá Guðrúnu, en sorry þetta virkar ekki. Við kennum ekki börnum umburðalyndi með því að láta þau læra einhvern sáttmála utanað. Siðferði einstaklings byggist á því að hann skilji hvað er rétt, hvað er rangt og, það sem mikilvægast er, hvers vegna? En ekki á því að læra reglur utanbókar eða með öðrum álíka aðferðum. Almenn og ítarleg kennsla í siðfræði og mannlegum samskiptum í grunnskólum landsins er eina heilbrigða lausnin að mati undirritaðs.

Þegar farið er að fordæmi nasista
Sérkennilegasta og jafnframt sorglegasta úrræði stjórnmálamanna gegn fordómum er þegar þeir fara að fordæmi nasista og segjast vilja banna málflutning þeirra sem þeir eru ósammála.

Þetta er auðvitað afleit hugmynd þar sem hún byggir á þeirri rökvillu að fordómar hverfi ef við heyrum ekki af þeim. En það er ekki það versta við hugmyndina. Það sem gerir þessa hugmynd í raun stórhættulega er að hún vegur að lýðræðinu og almennum mannréttindum. Það má aldrei koma sá tími þegar yfirvaldið ákveður hverjir eru þess verðugir að njóta stjórnarskrárbundinna réttinda og hverjir ekki.

Það er því að mínu mati löngu kominn tími til þess að stjórnvöld og fjölmiðlar taki sig á.

 

Deildu