Góð utanríkisstefna

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

21/02/2001

21. 2. 2001

Stjórnmálasamband Breta og Bandaríkjamanna hefur löngum verið náið og þegar nýir leiðtogar taka við stjórnartaumunum í öðru hvoru landi leggja þeir sig gjarnan fram um að kynnast og jafnvel að taka sér fyrir hendur einhver sameiginleg verkefni. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist síðasta föstudag. Tony Blair og George W. Bush ákváðu að gera eitthvað […]

Stjórnmálasamband Breta og Bandaríkjamanna hefur löngum verið náið og þegar nýir leiðtogar taka við stjórnartaumunum í öðru hvoru landi leggja þeir sig gjarnan fram um að kynnast og jafnvel að taka sér fyrir hendur einhver sameiginleg verkefni. Þetta er nákvæmlega það sem gerðist síðasta föstudag. Tony Blair og George W. Bush ákváðu að gera eitthvað saman. Eitthvað karlmannlegt. Eitthvað sem heimurinn myndi taka eftir. Þeir ákváðu að varpa sprengjum á Írak.


Illa ígrundaðar aðgerðir
Þeim virðist þó fljótlega hafa orðið ljóst að þeir hefðu gert mistök enda voru þeir fljótir að reyna að draga úr þýðingu þessara árása. Aðeins nokkrum tímum eftir að þær áttu sér stað voru talsmenn beggja ríkisstjórna farnir að lýsa þessu sem venjubundnum aðgerðum. Úr þessum orðum má lesa að Blair og Bush telji fátt eðlilegra en að tvö ríki taki upp á sitt einsdæmi, án samráðs við önnur ríki eða sannfærandi ástæðna, upp á því að varpa sprengjum á önnur ríki.

Hernaðaríhlutun gagnvart öðrum ríkjum er aðeins réttlætanleg ef ástandið í því ríki ógnar öryggi eða stöðugleika í einhverjum þeirra ríkja sem standa að árásunum. Það er erfitt að sjá að ástandið í Írak hafi beinlínis getað haft þessi áhrif á Bandaríkin og Bretland. Aðgerðir þeirra eru því sambærilegar við innrás Íraka í Kuwait á sínum tíma. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að Saddam Hussein ógnar öryggi og stöðugleika í miðausturlöndum. Ég get hinsvegar ekki séð að það sé sérstakt hlutverk Bandaríkjanna og Breta að hafa stjórn á Írak. Aðgerðir Breta og Bandaríkjamanna hafa aðeins orðið til þess að draga enn frekar úr öryggi og stöðugleika á þessu svæði og styrkt stöðu Husseins í miðausturlöndum.

Deildu